Ný könnun um viðhorf Íslendinga til loftslagsmála sýnir svo ekki verður um villst að Íslendingar hafa vaxandi áhyggjur af loftslagsmálum. Íbúar landsins eru reiðubúnir til að styðja afgerandi aðgerðir til að sporna gegn hamfarahlýnun. 

Könnunin er hluti af Alþjóðlegu viðhorfakönnunninni (International Social Survey Programme, ISSP) sem framkvæmd er með reglulegu millibili í fjölmörgum löndum um hin ýmsu málefni. Árin 2010 og 2020 voru viðhorf til umhverfismála könnuð sérstaklega. Hvað Íslendinga varðar er ljóst að hin ýmsu viðhorf til umhverfismála hafa breyst mikið á þessum árum og rými loftslagsmála í hugum fólks hefur stóraukist.

Niðurstöðurnar voru birtar nýverið í skýrslunni Hvað finnst Íslendingum um umhverfismál og loftslagsbreytingar? Höfundar eru þær Sóllilja Bjarnadóttir doktorsnemi í félagsfræði við HÍ, Helga Ögmundsdóttir dósent í mannfræði við HÍ og Sólveig Ólafsdóttir prófessor í félagsfræði við HÍ.

„Íslendingar átta sig á að loftslagsbreytingar eiga sér stað og eru tilbúnir að styðja aðgerðir í loftslagsmálum,“ segja þær í skýrslunni. „Íslendingar telja einnig að aðgerðir í loftslagsmálum muni verða til framþróunar fyrir okkur sem samfélag, t.d. stuðla að bættri heilsu, gefa komandi kynslóðum betra líf og koma í veg fyrir útdauða margra plöntu- og dýrategunda. Það er ljóst að umhverfisvernd er ofarlega í huga margra.“

Tveir þriðju hafa áhyggjur

Um tveir þriðju Íslendinga hafa annað hvort mjög miklar eða miklar áhyggjur af umhverfismálum. Þeim sem hafa litlar sem engar áhyggjur af umhverfismálum hefur fækkið til muna frá 2010, og eru nú um 12%. Þá hefur þeim sem láta sig umhverfismál engu varða fækkað líka. Í samræmi við þetta hefur þeim fjölgað sem telja umhverfismál vera meðal tveggja mikilvægustu málefna í samfélaginu. Hlutfall þeirra er nú 25,1%, en var 17%. Aðeins heilbrigðismál og efnahagsmál eru talin mikilvægari.

Þegar rýnt er í hvaða hliðar umhverfismála valda mestum áhyggjum kemur í ljós að hlutur loftslagsmála hefur þar mjög aukist. Árið 2010 töldu 13% Íslendinga að stærsti umhverfisvandinn væri loftslagsmál, en nú hefur það hlutfall stækkað í 43%. Áður var ofnýting náttúruauðlinda stærsta áhyggjuefnið.

Það er í takti við þessar vaxandi áhyggjur af loftslagsmálum, að mun fleiri telja nú að hækkandi hitastig vegna loftslagsbreytinga hafi skaðleg áhrif á umhverfið.

Litlar efasemdir

Þeim hefur fækkað mjög sem telja að fullyrðingar um umhverfisógnir séu ýktar. Einnig hefur þeim fækkað sem telja að vísindin muni leysa vandann, eins og í loftslagsmálum, án þess að fólk þurfi að breyta lifnaðarháttum sínum.

Yfirgnæfandi meirihluti, eða um 95% Íslendinga, telur að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum, en þar af telja 35% að náttúrulegar orsakir séu líka fyrir hendi. Einungis 5% telja að orsakirnar séu einungis náttúrulegar, og nánast enginn telur að loftslagsbreytingar séu ekki að eiga sér stað. Um 85% telja að loftslagsbreytingar séu vandamál sem þurfi að takast á við, en einungis um 13% telja þær ekki vandamál.

Jákvæðni í garð aðgerða

Íslendingar virðast bjartsýnir á að aðgerðir í loftslagsmálum muni skila góðu. Rétt yfir 80% telja að aðgerðirnar muni skapa komandi kynslóðum betra líf, og jafnmargir telja að þær muni stuðla að bættri heilsu fólks. Um 65% telja að aðgerðir í loftslagsmálum muni leiða til þess að mörgum plöntu- og dýrategundum verði bjargað frá útdauða.

Mun færri eru á því að aðgerðir vegna loftslagsbreytinga muni hafa neikvæð áhrif. Um 35% telja að aðgerðirnar muni leiða til hærra orkuverðs, um 28% að þær muni auka framfærslukostnað, 13% að þær muni fækka störfum og skaða efnahagslífið og einungis 8,4% að þær muni hafa skaðleg áhrif á eigin atvinnu.

Fólk er tilbúið að færa fórnir

Meirihluti Íslendinga telur að einstaklingar geti með gjörðum sínum haft einhver áhrif í þá átt að draga úr loftslagsbreytingum. Þá eru Íslendingar í vaxandi mæli reiðubúnir að greiða hærra verð, hærri skatta og sætta sig við skerðingu á lífskjörum í þágu umhverfisins.

Þá er athyglisvert að hagvöxtur er ekki lengur í jafnmiklum mæli talin forsenda þess að hægt sé að vernda umhverfið. Árið 2010 töldu 40% svarenda að hagvöxtur væri slík forsenda, en það hlutfall er nú komið niður í 26%.  Vaxandi hluti þjóðarinnar virðist raunar telja að hagvöxtur sé alltaf skaðlegur umhverfinu sem sést á að árið 2010 var það hlutfall 6% en er nú ríflega 11%.

Aðrar rannsóknir á viðhorfum Íslendinga, s.s. Íslenska kosningarannsóknin, hafa áður gefið sterklega til kynna að þjóðin sé reiðubúin að fórna hagvexti í þágu umhverfismála. Það hlutfall mældist til að mynda um 70% árið 2017.

Alþjóðleg þróun – fólk er reiðubúið

Athyglisvert er að bera saman niðurstöður þessarar könnunar við könnun Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna á viðhorfum almennings til loftslagsbreytinga og loftslagsaðgerða, sem var gerð árið 2020 í 50 löndum heims, og með 1,2 milljón þátttakendum. Þegar litið er til meðaltals landanna 50 töku 64% svarenda undir það að neyðarástand ríkti í loftslagsmálum. Meirihluti þátttakenda í öllum heimsálfum mældist þessarar skoðunar.  Í sumum löndum, eins og Bretlandi, mældist þetta hlutfall um 80%.

Skilaboðin til stjórnvalda og annarra virðast því ótvíræð hvert sem litið er. Fólk, bæði á Íslandi og annars staðar, vill grípa til aðgerða í loftslagsmálum og telur það ákaflega brýnt.

Á málþingi um niðurstöður þessarar könnunar, sem hér hefur verið fjallað um, sem fór fram á dögunum tók Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðs eindregið undir þessa túlkun. „Íslendingar eru reiðubúnir til aðgerða í loftslagsmálum,“ sagði hann. „Það er ekki eftir neinu að bíða.“