IPCC – Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna

Eitt fyrsta skrefið í alþjóðlegri samvinnu um loftslagsmál var stofnun IPCC (e. Intergovernmental Panel on Climate Change), eða Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Nefndin var sett á laggirnar árið 1988 og hefur það hlutverk að yfirfara, meta og draga saman alla þá vísindalegu þekkingu sem til er um loftslagsbreytingar. Tilgangurinn er að upplýsa þá sem eru við stjórnvölinn hverju sinni með greinagóðum skýrslum sem taka saman þá þekkingu sem til er á hverjum tíma um eðli loftslagsbreytinga, orsakir og afleiðingar. Jafnframt metur nefndin framtíðaráhættu miðað við mismunandi sviðsmyndir og setur fram hugmyndir um mótvægisaðgerðir og aðlögun.

Starf milliríkjanefndarinnar er þannig mikilvægur grunnur fyrir alþjóðlegar samningaviðræður um aðgerðir til að bregðast við þeirri sameiginlegu ógn sem ríki heims standa frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Skýrslur nefndarinnar veita mikilvæga leiðsögn fyrir stefnumörkun bæði á alþjóðavettvangi og á einstökum svæðum.

Flest öll ríki heims, eða 195, eru meðlimir í IPCC og þúsundir vísindamanna leggja hönd á plóg í vinnu nefndarinnar við að yfirfara rannsóknir, samþætta upplýsingar og draga þannig fram fyrirliggjandi þekkingu. Nefndin stendur ekki fyrir eigin rannsóknum heldur er hlutverk hennar að safna saman, rýna og meta vísindalegar rannsóknir sem varða loftslagsbreytingar, bæði á sviði raun- og náttúruvísinda og félags- og hugvísinda.

Milliríkjanefndin gefur út með nokkurra ára millibili svokallarðar matsskýrslur (e. assessment reports) þar sem farið er ítarlega yfir stöðu mála hvað vísindalega þekkingu varðar. Þrír vinnuhópar vinna þessar skýrslur. Sá fyrsti fjallar um vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum, hópur númer tvö leggur mat á áhrif loftslagsbreytinga á lífríki og samfélög og skoðar möguleika á aðlögun og sá þriðji beinir sjónum að aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Auk þessara matsskýrslna gefur nefndin einnig út stöðuskýrslur um afmörkuð málefni.

Fyrstu matsskýrslurnar komu út árið 1990 og lögðu grunn að fyrsta alþjóðasamningi um loftslagsmál, sem var Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC). Einnig voru gefnar út matsskýrslur árið 1995, 2001, 2007 og 2014. Sjötta matsskýrsla IPCC (AR6) samanstendur af efni, unnu af þremur vinnuhópum: vinnuhópi 1 (Mat á vísindalegri þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum), gefin út í ágúst 2021, vinnuhópi 2 (Afleiðingar og aðlögun að loftslagsbreytingum), gefin út í febrúar 2022 og vinnuhópi 3 (Mótvægisaðgerðir vegna loftslagsbreytinga), gefin út í apríl 2022. Matsskýrslan inniheldur líka samantektarskýrslu sem kom út í mars 2023. Í samantektarskýrslunni er efni úr skýrslum vinnuhópanna þriggja, ásamt efni úr þremur öðrum sérútgáfum sem komu út 2018 og 2019, dregið saman og samþætt. Sjá nánar hérog hér.