Innviðir kolefnisjöfnunar

Umfjöllunarefni

Í skýrslunni er dregið saman yfirlit yfir helstu skilgreiningar og hugtök sem tengjast kolefnisjöfnun, innviði kolefnisjöfnunar og hvað þurfi að vera til staðar til að hægt sé að tala um slíka jöfnun á trúverðugan hátt. Í henni kemur fram að þetta er aðeins fyrsta skref af mörgum sem þarf að taka til að efla þekkingu og skilning á hvað kolefnisjöfnun er og hvaða fræðilegu forsendur liggja að baki hugtakinu.

Helstu ábendingar

  • Innviðir kolefnisjöfnunar hérlendis eru fjarri því að vera fullmótaðir. Enda þótt viðskipti með kolefnisjöfnun hafi verið stunduð hérlendis í nokkur ár fer því fjarri að innviðir kolefnisjöfnunar séu fullmótaðir. Þrír til fjórir innlendir aðilar bjóða kolefnisjöfnun eða kolefniseiningar til sölu, en einnig hafa fyrirtæki staðið sjálf fyrir kolefnisjöfnun án milligöngu þessara aðila, annað hvort í samstarfi við tilteknar stofnanir eða upp á eigin spýtur, t.d. með starfsmannaferðum út fyrir þéttbýlismörkin þar sem trjáplöntur hafa verið settar niður í hentuga reiti.
  • Kolefnisjöfnunarleiðir í boði eru undir eftirliti óháðra aðila en ekki ekki vottaðar skv. óháðum staðli. Kolefnisjöfnunin sem boðin er til sölu hérlendis er í öllum tilvikum undir eftirliti óháðra aðila, svo sem opinberra stofnana eða endurskoðunarskrifstofa, sem ganga úr skugga um að ráðstöfun fjármuna sé með þeim hætti sem sagt er, að plantað sé réttum fjölda trjáa o.s.frv. Í engu tilviki er þó um að ræða eiginlega vottun skv. óháðum staðli.
  • Óháð vottun kolefniseininga er besta fáanlega tryggingin fyrir trúverðugleika þeirra. Alþjóðasamtök seljenda kolefnisvottorða (International Carbon Reduction and Offset Alliance (ICROA)) hafa byggt upp alþjóðlegt kerfi sem flest bendir til að sé áreiðanlegasti grunnurinn undir ábyrg viðskipti með kolefniseiningar. Samtökin hafa m.a. rýnt mismunandi staðla og gefið út lista yfir þá þeirra sem þau mælast til að seljendur kolefniseininga nýti til að fá einingar sínar vottaðar. Vottun skv. einhverjum þeirra staðla sem ICROA viðurkennir ætti þannig að vera besta fáanlega tryggingin fyrir trúverðugleika kolefniseininga og verkefnanna sem þær endurspegla. Því er eðlilegt að mæla með því að aðilar sem vilja stunda ábyrg viðskipti með kolefniseiningar nýti sér þessa staðla. Þetta á jafnt við um seljendur sem kaupendur eininga.
  • Ólíklegt er að kolefniseiningar sem ekki eru vottaðar með óháðum staðli verði söluvara. Ólíklegt má telja að seljendur kolefniseininga sem hyggjast tryggja trúverðugleika eininganna með eigin yfirlýsingum eða uppáskrift heimatilbúinna vottunarkerfa endist lengi á kolefnismarkaðnum. Þó er alls ekki loku fyrir það skotið að þeir eigi sér framtíð á eins konar B-markaði þar sem óskráðar kolefniseiningar ganga kaupum og sölum á fremur lágu verði og án tilhlýðilegrar vissu um raunverulegan árangur.
  • Eðlilegt að stjórnvöld hafi frumkvæði að styrkingu innviða kolefnisjöfnunar. Eðlilegt virðist að stjórnvöld hafi frumkvæði að því að styrkja innviði kolefnisjöfnunar á Íslandi, í fyrsta lagi með því að vekja athygli á mikilvægi trúverðugrar vottunar, í öðru lagi með því að greiða götu íslenskra aðila sem vilja afla sér slíkrar vottunar og í þriðja lagi með því að beina eigin viðskiptum til aðila með viðurkennda vottun.