Mánudaginn 15. febrúar kl. 15-16 halda Loftslagsráð og sendiráð Bretlands viðburð þar sem ungt fólk verður í forgrunni. Fundurinn verður í beinu streymi á Zoom. Sjá einnig upplýsingar á Facebook

Framtíð jarðarinnar snertir ungt fólk með beinum hætti. Í aðdraganda COP26 ráðstefnunnar í Glasgow í nóvember 2021 verður lögð rík áhersla á þátttöku ungs fólks í ákvarðanatökuferlinu um loftslagsmál. Sendiráð Bretlands og Loftslagsráð vilja bjóða ungu fólk sem starfar að loftslagsmálum á alþjóðavettvangi að hringborðinu til að ræða tengsl loftslagsmála við alþjóðamál. 

Þátttakendur í hringborði unga fólksins eru: 
– Salka Sigurðardóttir, forsætisráðuneyti Bretlands (Cabinet Office)
– Dr. Mikael Allan Mikaelsson, utanríkisráðuneyti Bretlands (FCDO)
– Aldís Mjöll Geirsdóttir, Forseti Norðurlandaráðs æskunnar
– Þorgerður M. Þorbjarnardóttir, formaður Ungra umhverfissinna, og þátttakandi í MOCK COP 

Sigurður Loftur Thorlacius, fulltrúi unga fólksins í Loftslagsráði og Pétur Gunnarsson, loftslagsfulltrúi sendiráðs Bretlands á Íslandi, stjórna umræðum. 

Markmið hringborðs unga fólksins er að vekja athygli á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs til að auka metnað í baráttunni gegn loftslagsvánni með áherslu á hlutverk ungs fólks og leiðir til að efla þátttöku þess enn frekar. Markmiðið er líka að auka umræðu ungs fólks um loftslagsmál á Íslandi, og þá sérstaklega alþjóðlegt samstarf í tengslum við loftslagsmál og hvernig aðkoma ungs fólks er og getur orðið. Þátttakendur eru ungir einstaklingar sem sinna spennandi viðfangsefnum á sviði loftslagsmála og starfa á erlendum vettvangi. Þau munu deila reynslu sinni, þekkingu og framtíðarsýn í loftslagsmálum.

Með viðburðinum er ætlað að vekja ungt fólk til umhugsunar um hvernig loftslags- og alþjóðamál tvinnast saman, fræða og miðla þekkingu á umfjöllunarefninu. Þá er viðburðinum einnig ætlað að koma á tengslum á milli ólíkra ungra aðila sem starfa við loftslagsmál.