Hlýnun stefnir yfir 1,5 gráðu mörkin á næstu árum

Fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 hefur nú verið kynnt. Hún hefur að geyma áætlun um þróun ríkisútgjalda og tekna, og þar eru lagðar á borðið þær áherslur sem einkenna skulu umsvif hin opinbera á komandi árum. Áætlunin er byggð á spálíkönum sem notuð eru til þess að meta hver hagþróun næstu ára verður að gefnum ákveðnum forsendum og hvernig hún getur breyst.

Nálgun við gerð slíkra spálíkana í nágrannaríkjunum hefur tekið breytingum á undarförnum árum vegna loftslagsvár. Slíkar breytingar hafa ekki átt sér stað hér á landi. Æ fleiri lönd hafa áttað sig á nauðsyn þess að taka þarf áhrif loftslagsvár á grunnforsendurnar með í reikninginn í hagspám. Tvennt er hér talið mikilvægt: Annars vegar þarf að taka tillit til nauðsynlegra fjárfestinga í tækni og innviðum til að draga úr losun. Hins vegar þarf að vega og meta áhættu og tilheyrandi í félagslegum og efnahaglegum óstöðugleika í kjölfar tjóns og áfalla, sem óhjákvæmilega hafa veruleg áhrif á allar forsendur. Slík áhrif þekkjum við Íslendingar vel af eigin reynslu. Svokölluð kvik líkön, þar sem skoðuð eru ýtarlega áhrif ólíkra sviðsmynda yfir tíma og hversu næmur þjóðarbúskapurinn er fyrir áhættuþáttum, eru ómissandi verkfæri í slíkri greiningarvinnu.

Samkvæmt nýjum spágögnum frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO) hafa líkurnar aukist allverulega á því að hnattræn hlýnun fari yfir 1,5 gráðu mörkin, miðað við hitastig fyrir iðnbyltingu, innan næstu fjögurra ára. Eins og kunnugt er skipta 1,5 gráðu mörkin verulegu máli í viðureigninni við loftslagsvána, en sú viðmiðun er lykilþáttur í Parísarsamningnum frá 2015. Þar sammæltust þjóðir heims um það, að reynt yrði að halda hlýnun innan þessara mikilvægu marka.

Því er ekki spáð að hitinn muni að þessu sinni fara varanlega yfir 1,5 gráðu mörkin, heldur verði um afmarkað tímaskeið að ræða, og jafnvel fleiri en eitt því tíðni slíkra tímaskeiða gæti líka aukist.  Nánar tiltekið metur Alþjóðaveðurfræðistofnunin horfurnar þannig að 66% líkur séu á því að meðalhiti á a.m.k. einu ári, fram til 2027, fari yfir viðmiðunarmörkin.  Jafnframt metur stofnunin það svo, að 98% líkur séu á því að minnst eitt ár af næstu fimm árum verði það hlýjasta sem nokkurn tímann hafi mælst, og að næstu fimm ár í heild sinni, verði þau hlýjustu sem mælst hafa.

Ástæður þessa hita eru einkum tvær. Annars vegar hafa gróðurhúsalofttegundir safnast upp í andrúmsloftinu, vegna útblásturs af mannavöldum, og hins vegar gengur nú í garð hlýnunarskeið vegna El Niño veðurfyrirbrigðisins. Á undanförnum árum hefur systirin La Niña ráðið ríkjum og haldið aftur af þeirri hlýnun sem annars hefði líklega orðið.

Hvað þýðir þessi hiti?

Undanfarin ár hafa verið þau hlýjustu sem mælst hafa. Þessi hitaaukning er farin að hafa veruleg áhrif á líf fólks víða um heim. Lofthitinn einn og sér hefur margskonar áhrif á starfsemi mannslíkamans. Eftir því sem hann er hærri verður erfiðara fyrir líkamann að halda líkamshita í 37 gráðum. Það leiðir til þess að líkamshitinn getur hækkað til muna með alvarlegum og bráðum áhrifum á heilsu. Samspil hærri lofthita og mikils raka, eins og til dæmis er orðið æ algengara á Indlandi, getur aukið lífshættuleg áhrif til muna.

Þá fylgja hitanum ýmsir veðuröfgar, eins og tíðari stormar, þurrkar og gróðureldar og aukin úrkomuákefð. Við höfum séð ófá dæmin um skelfilegar afleiðingum slíkra veðuröfga, nú síðast frá Norður Ítalíu. Áhrifin á vistkerfin, á fæðuhringinn og heimkynni dýra og plantna, eru líka gríðarleg.

Staðbundin hitamet falla nú hver á fætur öðru.  Hitabylgjur herjuðu t.a.m. á Asíulönd, Evrópu og Norður-Ameríku í fyrra með fjölda staðbundinna hitameta. Sumarið 2022 var það heitasta og þurrasta sem mælst hefur í Evrópu og víða í Suður-Evrópu fór hitinn yfir 40 gráður í maí og júní sama ár. Í Bandaríkjunum náði maíhitinn nýjum hæðum í San Antonio í Texas, með 38,3 gráðum.  Í Pakistan, Indlandi og Kína geysaði hitabylgja einnig þá um vorið. Hiti mældist 51 gráða í Jacobabad í Pakistan í maí í fyrra.

Lítið lát er á hitanum á þessu ári. Spár gera ráð fyrir að hitinn nái 46 gráðum í Turbat í Pakistan þessa dagana. Og undanfarið hefur hitabylgja geysað á Spáni. Hitinn náði 38,7 gráðum í Cordoba í lok apríl, en það er hæsta hitastig sem mælst hefur nokkurn tímann í Evrópu á þessum árstíma.

Vaxandi áhrif

Áhrifa hitans og annarra tengdra breytinga í veðurfari og umhverfi er farið að gæta á mörgum sviðum, allt frá athyglisverðum breytingum í neyslumynstri og hegðun, til yfirgripsmikils félagslegs umróts. Greiningaraðilar í ferðaþjónustu sjá til að mynda merkjanlegar breytingar á ferðavenjum. Hitabylgjur virðast vera farnar að hafa áhrif á það hvert fólk vill ferðast og hvenær. Aðdráttarafl suðrænna stranda í Evrópu yfir hásumarið er að minnka, en staðir norðar eru að verða vinsælli. Fólk virðist leita á svalari slóðir.

En beinhörð áhrif á búsetu eru líka orðin veruleg. Ný könnun sýnir að um þriðjungur íbúa í Bandaríkjunum nefnir loftslagsbreytingar sem hvata til flutninga, og víða í veröldinni neyðist fólk beinlínis til þess að yfirgefa heimili sín. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 22 milljónir manna hafi neyðst til að yfirgefa heimili sín árlega síðan 2008 vegna þurrka, storma, flóða eða óbærilegs hita. Því hefur verið spáð að um 1,2 milljarður manna muni neyðast til að flytjast búferlum vegna loftslagsbreytinga fyrir árið 2050.

Samofin veröld

Sífellt verður augljósara að loftslagsbreytingar virða engin landamæri. Staðbundin hitamet, veðuröfgar og óbærileg skilyrði til búsetu á einum stað, varða aðra íbúa jarðarinnar með ýmsum hætti. Hin landamæralausa, eða yfirþjóðlega, ógn sem stafar af loftslagsbreytingum er farin að vekja æ meiri athygli greiningaraðila og alþjóðastofnana, sem mikilvægt rannsóknarefni og liður í að undirbúa veröldina fyrir það sem koma skal.

Í nýlegri skýrslu stofnunarinnar Adaptation Without Borders, eða Aðlögunar án landamæra, er bent á fjölmarga mikilvæga áhættuþætti sem nauðsynlegt er að vakta. Þjóðir eiga í ýmsum marghliða samskiptum vegna þess að þær deila t.d. auðlindum, vistkerfum, eiga í viðskiptasamböndum af ýmsu tagi og eiga sameiginlega fjárhagslega hagsmuni. Félagslegur óstöðugleiki á einum stað getur leitt til átaka sem breiðast út og hafa áhrif um allan heim. Nýir sjúkdómar sem spretta upp vegna breytinga umhverfinu og t.d. áhrifa hitabreytinga á lífsmynstur lífvera og samneyti fólks og dýra, geta haft gríðarleg áhrif um allan heim, eins og heimsbyggðin þekkir.

Af þessu má ljóst vera, að hiti er ekki bara tala á hitamæli og fregnir af hitametum vegna sívaxandi meðalhita eru ekki bara tölur á blaði, heldur býr mun flóknari og válegri veruleiki að baki.