Hitastig sjávar og loftslagsbreytingar

Meðalyfirborðshiti sjávar á jörðinni hefur aldrei mælst jafnhár og nú í apríl, eða 21,1 gráða. Þar með hefur metið verið slegið frá því í mars 2016, en þá mældist hitinn 21 gráða. Mælingar undanfarinna áratuga hafa leitt í ljós að hitastig sjávar hefur hækkað jafnt og þétt frá 1980. Hlýnun hafsins eykur mjög líkur á öfgum í veðurfari og getur haft margvísleg skaðleg áhrif á vistkerfi og fæðukeðjur, auk þess sem sjávarmál hækkar m.a. vegna þensluáhrifa hitans.

Að mati vísindamanna felur hækkandi hitastig sjávar í sér skýrt merki um að hlýnun jarðar af mannavöldum er nú þegar farin að hafa alvarlegar afleiðingar. „Við erum augljóslega að upplifa hraða hlýnun og við munum nú sjá hitametin falla hvað eftir annað,“ sagði Dietmar Dommenget prófessor og loftslagsvísindamaður í viðtali við The Guardian af þessu tilefni. „Við munum sjá metin falla ekki bara í hafinu, heldur líka á landi. “

Viðvarandi hitabylgjur

Árið 2019 var því spáð í vísindagrein að svokallaðar hitabylgjur í hafinu myndu aukast mjög að tíðni á komandi áratugum. Mælingarnar virðast benda til að sú spá sé að raungerast. Í greininni, sem skrifuð var af 13 vísindamönnum, er vel rakið hvernig hitastig hafsins, með aukinni tíðni hitabylgja á afmörkuðum svæðum, getur leitt til eyðingu vistkerfa í hafinu með tilheyrandi áhrifum á fæðukeðjur, sem aftur getur leitt til gríðarlegra áhrifa á lífsviðurværi milljóna jarðarbúa. Líkur eru á að hitabylgjur í hafinu verði sums staðar viðvarandi ástand.

Í hvítbók stjórnvalda hér á landi um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum, sem gefin var út árið 2021, er hlýnun hafsins tilgreind sem einn af augljósum áhrifaþáttum loftslagsbreytinga, sem bregðast þarf við og vakta með rannsóknum. Áhrifin við Íslandsstrendur hafa í raun þegar birst með breytingu í stærðum fiskistofna, bæði til stækkunar og minnkunar, aukinni tíðni nýrra fiskitegunda, og fækkun sjófugla og sjávarspendýra.

Öfgaveður og bráðnun íss

Hærra hitastig sjávar er talið leiða til meira öfga í veðurfari. Ofsaveður verða tíðari og stormar aflmeiri. Þá er hækkun sjávarmáls af völdum hlýnunar þungt áhyggjuefni, en sjávarmál hækkar bæði vegna þensluáhrifa hitans og vegna bráðnunar jökla, sem hitastig hafsins hefur áhrif á.

Ný vísindagrein, sem út kom nú í mars, hefur vakið mikla athygli hvað bráðnun íss á Suðurskautslandinu varðar. Hún varðar samspil mikillar hlýnunar hafsins og bráðnun íshellunnar. Hún virðist mun hraðari en spár gerðu ráð fyrir. Líkur eru taldar á að hlýnandi djúpsjór sé að brjóta sér leiðir að íshellunni, og bræða hana, sem aftur muni hafa þau áhrif að hægja muni á sjávarstraumum á suðurhveli jarðar innan 30 ára, með gríðarlegum áhrifum á lífríkið.