Hagnýtar upplýsingar um landnýtingu og loftslag

Loftslagsráð gaf nýverið út samantektarskýrsluna: Landnýting og loftslag – losunarbókhald, loftslagsmarkmið og staða aðgerða. Henni er ætlað að auka við almenna þekkingu og skilning á losun frá landi hérlendis, svo sem hvernig losunarbókhald flokksins er uppbyggt, yfirsýn yfir skiptingu landgerða í landsbókhaldsflokka, loftslagsmarkmið stjórnvalda tengd landnýtingu og hvernig hefur gengið að ná settum markmiðum síðustu árin.

Í samantektinni er minnt á að vistkerfahnignun, gróður- og jarðvegseyðing og hlýnun andrúmsloftsins eru nátengd fyrirbrigði og landeyðing vegna landnotkunar hefur verið viðvarandi hérlendis um árhundruða skeið. Jarðvegseyðing, með tilheyrandi kolefnislosun, er þannig enn ein af stærstu umhverfisáskorunum Íslands. Til viðbótar við uppgefna losun frá framræstu votlendi er núverandi losun frá nytjuðu hnignuðu og/eða rofnu þurrlendi líklega viðbótar uppspretta losunar frá Íslandi sem ekki hefur enn verið tekið tillit til í losunarbókhaldi landsins.

Dregið er saman að samkvæmt árlegri landsskýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda nam kolefnisbinding í jarðvegi og gróðri árið 2022 alls 1.740 þúsund tonna CO2-íg. Þar af nam binding innan landbókhaldsflokksins votlendi um 495 þúsund tonnum, um 515 þúsund tonn bundust í lífmassa og jarðvegi innan flokksins skóglendi og 706 þúsund tonn í lífmassa og jarðvegi landgræðslusvæða og náttúrulegs birkikjarrs innan flokksins mólendi. Þegar búið er að draga magn bindingar frá brúttólosun LULUCF stendur eftir að nettólosun frá nytjuðu landi hérlendis árið 2022 var 7.757 þúsund tonn CO2-íg,

Í samantektinni kemur einnig fram að þrátt fyrir öflugt landbótastarf frá árinu 1907 þá teljast yfir 50% vistkerfa landsins hnignuð, rofin eða eydd. Stærstur hluti svæða í landbókhalds-flokknum annað land er með litla vistfræðilega virkni og um helmingur alls mólendis í landbókhaldsflokknum mólendi hefur skerta vistfræðilega virkni. Umtalsverðir möguleikar eru því á að auka umfang landgræðslu/endurheimtar vistkerfa (votlendi og þurrlendi) og skógræktar til að draga úr losun CO2-íg. og auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri.

Að endingu fjallað um gildandi markmið stjórnvalda og skýrsluna, Landnýting í þágu loftslagsmála frá árinu 2019, þar sem stjórnvöld settu fram skýr og mælanleg markmið um samdrátt í losun frá landi og aukinni kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi fyrir árin 2019-2022. Uppgjör tímabilsins sýnir að stjórnvöld náðu ekki að uppfylla loftslagsmarkmið sín.

Sjá nánar hér