Góð dæmi um réttlát umskipti – Ný skýrsla

Með því að gera ráð fyrir þjálfun starfsfólks og að því sé gert kleift að beita nýrri tækni og höndla nýjar áskoranir er hægt að auka líkurnar á því að loftslagsaðgerðir skili árangri til langs tíma. Þessa ályktun má draga af nýrri skýrslu UN Climate Change – stofnunar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Réttlát umskipti, þar sem til dæmis er gætt að því að loftslagsaðgerðir leiði ekki til þess að fólk sé skilið eftir atvinnulaust og án lífsviðurværis vegna nýrra framleiðsluhátta, eru lykilþáttur í vel heppnuðum aðgerðum til að takast á við loftslagsvána.

Í skýrslu SÞ er farið vandlega í saumana á dæmum sem þykja til fyrirmyndar þegar kemur að réttlátum umskiptum vegna loftslagsbreytinga. Skoðað er hvað einkennir þau og hvaða lærdóm megi draga af þeim. Þessi dæmi eru hvaðanæva að úr heiminum. Öll draga þau fram mikilvægi þess að gætt sé að því að loftslagsaðgerðir, eins og til dæmis orkuskipti í þjóðfélögum eða umbreytingar í framleiðsluháttum í landbúnaði, leiði ekki til þess að hópar fólks sitji eftir með sárt ennið, afskipt á vinnumarkaði, sjái sér ekki fært að taka þátt í umbreytingunum og verði þar með jaðarhópur í samfélaginu. Ef vel er haldið á spöðunum geta loftslagsaðgerðir jafnvel aukið lífsgæði og tækifæri hópa, sem nú teljast á jaðrinum, og þannig aukið jöfnuð og réttlæti frá því sem nú er.

Hugtakið réttlát umskipti

Rætur hugtaksins „réttlát umskipti“ hafa verið raktar til málflutnings bandarísku verkalýðshreyfingarinnar á tíunda áratug síðastu aldar. Eins og fram kemur í umfjöllun BSRB um hugtakið, var það einn lykilþáttur í þeirri baráttu, að tryggja að verkafólki sem missti vinnu sína vegna umhverfislöggjafar yrði mætt með stuðningi. Síðan hefur Alþjóðaverkalýðshreyfingin tekið hugtakið upp á sína arma og það hefur jafnframt rutt sér mjög til rúms í orðræðu innan Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að loftslagsaðgerðum. Í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París árið 2015 gaf Alþjóðavinnumálastofnunin út svokallaðan leiðarvísi fyrir réttlát umskipti, sem hafði mikil áhrif.

Nauðsynlegt er að hámarka árangur af loftsaðgerðum, á sama tíma og kostnaður sem leggst á herðar launafólks vegna þeirra er lágmarkaður.  En einnig þarf að huga að því að tækifærum sem kunna að skapast, til að mynda vegna nýrrar tækni, sé dreift af réttlæti. Eins og segir í skýrslu um réttlát umskipti, sem ASÍ, BSRB og BHM gáfu út í mars 2021, er mikilvægt að bæði kostnaði og ábata sem skapast vegna loftslagsaðgerða sé skipt af sanngirni í samfélaginu.

Fyrirmyndardæmi

En hvernig er hægt að gera það? Úr skýrslu Sþ má lesa að dæmin um vel heppnuð réttlát umskipti eru af ákaflega mismunandi toga. Mismunandi aðferðir og nálganir henta mismunandi verkefnum og staðháttum.

Í skýrslunni er til að mynda rakið hvernig Marshalleyjar hafa efnt til metnaðarfullrar áætlunar um að innleiða 100% endurnýjanlega orkugjafa fyrir árið 2050 og hvernig konum hefur sérstaklega verið boðið upp á tækniþjálfun í að setja saman, tengja, stjórna og viðhalda sólarorkubúnaði. Þannig er leitast við að orkuskiptin verði einnig atvinnuskapandi og auki jafnfrétti í samfélaginu.

Þá er einnig greint frá því hvernig stjórnvöld í Bangladesh hafa hafið innleiðingu á sjálfbærri framleiðsluháttum í framleiðslu á hraðtískufatnaði og hvernig Spánverjar hafa gert samninga um réttlát umskipti að nauðsynlegum fylgifiski þess að kolaverum sé skipt út fyrir vind- og sólarorkugarða.

Engin dæmi eru tiltekin frá Íslandi, en tekið er dæmi frá nágrönnum okkar í Danmörku. Þar hefur gamalli skipasmíðastöð verið breytt í grænan iðngarð, ekki ósvipað og ákveðið hefur verið að gera hér á landi í hinu tóma álveri í Helguvík. Um 3000 manns misstu vinnuna þegar stöðinni í Lindö var lokað árið 2012, en nú hafa þar um 100 fyrirtæki aðsetur, sem öll starfa með einhverjum hætti að innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa. Um 2500 manns vinna nú hjá þessum fyrirtækjum og um 3000 manns að auki hafa atvinnu af því að þjónusta starfsemina í nágrenni iðngarðanna með einum eða öðrum hætti.

Víða í veröldinni er að finna ákaflega krefjandi aðstæður þegar kemur að réttlátum umskiptum, og mörg dæmi eru um það að áhrif loftslagsbreytinga hafi gert það að verkum að þjóðfélög eru í raun neydd til hraðra umskipta. Í þeim tilvikum er ekki síður brýnt að umskiptin séu réttlát. Nígera er dæmi um þetta. Þar starfa um 70% vinnuaflsins í landbúnaði eða sjávarútvegi. Vegna tíðari öfga í veðurfari og þurrka hefur framleiðsla fallið mjög. Þjóðin þarfnast því snöggra umbreytinga í atvinnu- og framleiðsluháttum. Metnaðarfullu og víðtæku samráðsverkefni milli vinnumarkaðarins, hins opinbera og sveitarfélaga hefur því verið ýtt úr vör þar í landi, við að koma á réttlátum umskiptum á vinnumarkaðnum nánast í heild sinni.

Réttlát umskipti á Íslandi

Í ofannefndri skýrslu íslensku verkalýðsfélaganna um réttlát umskipti hérlendis, eru raktar nokkrar megináherslur sem hafa verður í huga að þeirra mati við umbreytingu samfélagsins í átt til meiri sjálfbærni. Að mati verkalýðsfélaganna skal ávallt hugað að sköpun starfa, réttindum launafólks og félagsvernd þegar loftslagsstefna er mótuð og stéttarfélög þurfa að vera með í ráðum. Einnig þarf að tengja slíka stefnumótun við markmið í atvinnu- og menntamálum, s.s. áherslu á endurmenntun.  Þá þarf einnig að gæta að því að hvatar til tæknibreytinga séu til langs tíma og að leikreglur séu „skýrar svo að atvinnurekendur og fyrirtæki geti fjárfest í tæknilausnum og endurmenntun starfsfólks síns,“ eins og segir í skýrslunni.

Síðast en ekki síst benda verkalýðsfélögin á að þörf sé á frekari rannsóknum til að „skoða áhrif loftslagsstefnu á atvinnugreinar, landsvæði og vinnumarkað, og sérstaklega á launafólk,“ og að einnig sé „þörf á rannsóknum á þeim óbeinum áhrifum sem umskiptin hafa á konur og karla.“

Í mörg horn er að líta þegar kemur að réttlátum umskiptum. Skýrsla Sþ varpar mikilvægu og bitastæðu ljósi á þessa mikilvægu hlið loftslagsaðgerða. Hún er í raun brunnur hugmynda og verkfæra þegar kemur að réttlátum umskiptum.