20. mars 2025
Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Bjarni Már Magnússon, Halldór Björnsson, Helga Jóhanna Bjarnadóttir, Ingibjörg Svala Jónsdóttir, Þorgerður María Þorbjarnardóttir.
Fundurinn var haldinn á Veðurstofu Íslands, kl. 14:00-16:00. Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri skráði fundargerð.
Fundargerð seinasta fundar
Fundargerð 80. fundar, sem haldinn var 27. febrúar var samþykkt.
Framvinda áhersluverkefna
a) Tölur um losun settar í samhengi.
Myndaður var undirhópur um verkefnið sem fundaði í seinustu viku. Unnið hefur verið að gagnasöfnun og því að skilgreina verkefnið nánar.
b) Losun frá landi – votlendi.
Verkefnið snýr að því að meta stöðu þekkingar á losun frá votlendi við mismunandi aðstæður og áhrifaþáttum hennar. Megináherslan verður hins vegar á leiðir til að skapa hvata til endurheimtar og markvissrar uppbyggingar þekkingar og reynslu. Undirhópur um verkefnið hefur hist og er unnið að nánari skilgreiningu verkefnisins og tímalínu.
NDC og lög um loftslagsmál
Framhald umræðu frá seinasta fundi um landsframlag Íslands og endurskoðun laga um loftslagsmál.
Komið er að þeim tímamótum í innri takti Parísarsamningsins að aðildarríki tilkynni um þann samdrátt sem þau hyggjast ná á næsta fimm ára tímabili þ.e. 2031-2035. Ráðið fylgist með þeim vísbendingum sem felast í landsframlögum annarra ríkja og viðbrögðum greiningaraðila við þeim. Tekið verður saman yfirlit um meginlínurnar. Einnig verður fylgst með samningaviðræðum innan ESB um markmiðin og umfjöllun Loftslagsráðs Evrópu um þau. Íslensk stjórnvöld verða hvött til að nota tilkynninguna um landssframlagið til að lýsa megindráttunum í loftslagsstefnu Íslands og þeim leiðum sem farnar verða að settu marki.
Hnattverkfræði í þágu loftslags
Hnattverkfræði í þágu loftslags má almennt skipta í tvo megin flokka. Inngrip í inngeislun sólarinnar (e. Solar Radiation Management) og brottnám koltvíoxíðs (e. Carbon Dioxide Removal). Eins og staðan er í dag fellur hnattverkfræði ekki undir neinn alþjóðasamning eða stofnun. Nokkrar aðgerðir falla undir bann í svæðisbundnum samningum við varpi í hafið en lagaramminn um varp í hafið gerir þó ekki ráð fyrir þessu. Myndbirtingar hér á landi eru m.a. leiðir til að auka á basavirki sjávar og varanleg binding koldíoxíðs í bergi. Rætt var um hugsanleg viðbrögð ráðsins og ákveðið að ráðið setji sig inn í þau svið sem til skoðunar eru hér á landi til að vera tilbúin ef til ráðsins verður leitað.
Önnur mál
Umræða um orkumál
Meðlimur í ráðinu óskaði eftir því að ráðið stigi inn í umræðu um orkumál. Ákveðið var að ráðið myndi taka saman upplýsingar um orkuöflun í samhengi loftslagsaðgerða.
Vinnulag við frágang álita.
Meðlimur í ráðinu lýsti yfir áhyggjum af því hversu langan tíma það hefur tekið ráðið að ganga frá endanlegu orðalagi álita. Verður unnið betur að því að setja upplýsingar fram skipulega og álykta svo á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja fyrir. Ráðið sammæltist jafnframt um að formaður leggi fram tillögur um orðalag eftir umfjöllun í ráðinu svo fundartími verði betur nýttur.
Sagt var frá fundum framkvæmdastjórnar með fjármála- og efnahagsráðherra, Daða Má Kristinssyni og Helgu Jónsdóttur skrifstofustjóra skattamála í fjármálaráðuneytinu 12. mars og framkvæmdastjórnar með forstjóra Lands og skógar, Ágústs Sigurðssyni, á Veðurstofu Íslands sama dag.
Að lokum var rætt um fyrirhugaðan fund ráðsins með umhverfis-, orku og loftslagsráðherra þriðjudag 25. mars. Þar mun ráðherra kynna helstu stefnumál á kjörtímabilinu og loftslagsráð kynna fyrir honum þau verkefni sem það vinnur að. Jafnframt mun ráðið ítreka skilaboð í áliti ráðsins frá nóvember, með áherslu á aðgerðaáætlun og endurskoðun hennar.