16. janúar 2024
Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Halldór Björnsson, Helga Jóhanna Bjarnadóttir, Ingibjörg Svala Jónsdóttir, Stefán Þór Eysteinsson, Þorgerður María Þorbjarnardóttir.
Fundurinn var haldinn í Veðurstofu Íslands, kl. 12:00-14:00.
Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri skráði fundargerð.
Fundargerð seinasta fundar
Fundargerð 77. fundar, sem haldinn var 13. desember var samþykkt á fundinum.
Stefnumótunardagur Loftslagsráðs
Stefnumótunardagur Loftslagsráðs var haldinn 13. janúar 2025. Fundað var allan daginn og ráðgjafar frá Hugsýn fengnir til að leiða samráðið og taka saman niðurstöður. Útgangspunkturinn var væntingar fulltrúa í ráðinu til starfsins og þeirrar óskastöðu sem stefna þyrfti að. Farið var yfir stöðu og hlutverk Loftslagsráðs innan stjórnkerfisins, vinnulag ráðsins, áherslu og tón í útgáfu og miðlun og þau viðfangsefni sem ráðið telur þörf á að takast á við á næstu misserum.
Fulltrúar voru sammála um að náðst hafi gagnleg umræða á stefnumótunardeginum en vinna þarf áfram með niðurstöður fundarins þannig að þær leggi grunn að starfsáætlun og skilgreiningar á verkefnum.
Hagrænir hvatar og gjaldtaka í samhengi loftslagsmarkmiða
Á fundi Loftslagsráðs þann 29. nóvember 2024 var fjallað um stjórnarfrumvarp um kílómetragjald og kolefnisgjald á ökutæki sem sett var fram í samráðsgátt stjórnvalda stuttu áður. Komu fram áhyggjur af því að boðaðar breytingar hefðu ekki verið nægilega vel undirbúnar og myndi það hafa neikvæð áhrif á framgang orkuskipta í samgöngum. Þetta birtist meðal annars í því að fjölmargar gagnlegar athugasemdir bárust í samráðsgáttina. Boðuðum breytingum á fyrirkomulagi gjaldtöku var síðan frestað. Í nefndaráliti kallaði efnahags- og viðskiptanefnd eftir því að lagabreytingar yrðu undirbyggðar með frekara samráði, greiningu og áhrifamati.
Umræða hélt áfram á næsta fundi Loftslagsráðs, þann 13. desember, þar sem farið var m.a. yfir svar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um undirliggjandi greiningar og gögn og ákvað ráðið að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin og í kjölfarið voru útbúin drög að áliti skv. fyrirmælum ráðsins sem send voru til fulltrúa fyrir fundinn.
Ákveðið var að vinna áfram í álitinu og var settur á fót vinnuhópur sem mun vinna áfram í drögunum með framkvæmdastjóra á milli funda. Stefnt er að því að afgreiða álitið endanlega á fundi ráðsins þann 6. febrúar.
Önnur mál
Vinnustofa um hlutverk loftslagsráða og dómstóla.
Formaður og framkvæmdastjóri Loftslagsráðs munu í lok janúar sækja vinnustofuna Climate Democracy: The Role of Independent Advisory Bodies and Courts in the EU. Vinnustofan er hluti af Horizon Europe RETOOL verkefninu sem miðar að því að dýpka skilning á því hvernig hægt er að takast á við loftslagsvá og á sama tíma styrkja lýðræðislega stjórnarhætti. Á vinnustofunni verða fulltrúar ýmissa loftslagsráða í Evrópu og mun því gefast gott tækifæri til að kynnast störfum systurstofnanna og alþjóðlegu neti loftslagsráða (International Climate Councils Network).