Fundargerð 65. fundar Loftslagsráðs

23. mars 2023

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Aðalheiður Snæbjarnarsdóttir, Valur Klemensson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Árni Finnsson, Auður Alfa Ólafsdóttir, Smári Jónas Lúðvíksson, Guðmundur Þorbjörnsson, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Ingibjörg Svala Jónsdóttir, Hjörleifur Einarsson, og Tinna Hallgrímsdóttir.

Fundurinn var haldinn í Safnahúsinu, Hverfisgötu 15, kl. 14:00-16:00.
Þórunn Wolfram framkvæmdastjóri skráði fundargerð.

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerðir 63. fundar og 64. fundar voru samþykktar.

Ákall um heildstæða og markvissa loftslagsstefnu

Loftslagsráð hefur á skipunartíma sínum gefið út fjölbreytt efni í formi greinargerða og álita. Rætt var hvort tilefni væri til að vinna heildstæða samantekt á stöðu loftslagsmála hérlendis á grunni þess sem þegar hefur komið frá ráðinu. Við vinnslu slíks stöðumats gæfist tækifæri til að fylgja frekar eftir þeim ábendingum og umbótatillögum ráðsins sem ekki hafa komist í framkvæmd. Með því gæti ráðið stuðlað enn frekar að almennri meðvitund um það sem bæta þarf til að a) Ísland standi við skuldbindingar sínar innan Parísarsamningsins og b) skerpa framtíðarsýn stjórnvalda, atvinnulífs, fjárfesta, frjálsra félagasamtaka og almennings á hvernig kolefnishlutlausu og loftslagsþolnu samfélagi við stefnum að og hvaða áföngum á þeirri leið við þurfum að ná 2030 og 2040.

Skýr samhljómur var á meðal allra fulltrúa um mikilvægi þess að draga fram heildarsýn á núverandi stöðu, greina hvað hefur áunnist frá útgáfu fyrstu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum árið 2018 og benda á hvað þarf að breytast til að Ísland nái settum markmiðum.

Ákveðið að formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri vinni tillögu að útlínum samantektarinnar og leggi hana fyrir næsta fund ráðsins, til umræðu og ákvörðunar. Fulltrúar í ráðinu muni skipta með sér verkum og vinna saman að samantektinni undir verkstjórn framkvæmdastjóra.

Önnur mál og næsti fundur

Formaður greindi ráðinu frá fyrirhuguðum fundi með umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Varaformaður og framkvæmdastjóri munu einnig sitja þann fund. Fram kom að Fjármála- og efnahagsráðuneytið hafði gefið út skýrslu sem nefnist „Skattar og skattaívilnanir á sviði umhverfismála.“ Innihald hennar fellur vel að ábendingum Loftslagsráðs um uppbyggingu loftslagshagstjórnartækja.

Næsti fundur er áætlaður 13. apríl kl. 14:00-16:00