Fundargerð 61. fundar Loftslagsráðs

26. janúar 2023

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Árni Finnsson, Guðmundur Þorbjörnsson Ragnhildur Freysteinsdóttir, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Hjörleifur Einarsson, Ingibjörg Svala Jónsdóttir, Páll Björgvin Sigurðsson varafulltrúi, Páll Erland varafulltrúi og Smári Jónas Lúðvíksson.

Gestir fundarins voru undir lið tvö: Ásta Karen Helgadóttir og Sigríður Rós Einarsdóttir frá loftslagsteymi Umhverfisstofnunar og Anna Sigurveig Ragnarsdóttir og Helga Barðadóttir frá skrifstofu stefnumótunar og innleiðingar í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Fundurinn var haldinn í húsakynnum Eflu, Lynghálsi 4, Reykjavík kl 10:00-12:00. Þórunn Wolfram framkvæmdastjóri skráði fundargerð.

Formaður bauð fólk velkomið og þakkaði Guðmundi Þorbjörnssyni fulltrúa Viðskiptaráðs fyrir að hýsa fundinn.

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerðir 59. og 60. fundar voru samþykktar.

Formlegt mat á áætluðum árangri loftslagsaðgerða

Þann 15. mars annað hvert ár skilar Umhverfisstofnun (UST), fyrir hönd Íslands, skýrslu og upplýsingum til ESB um stefmörkun og aðgerðir Íslands sem hafa það markmið að skila samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) samkvæmt skuldbindingum Íslands innan Parísarsamningsins. Lýsingunni fylgja framreikningum á losun GHL; það er, formlegu mati á væntum árangri loftslagsaðgerða til framtíðar (e „Policies and Measures and Projections“; PaMs). Fyrstu skýrslunni var skilað til ESB árið 2019, þá 2022 og næstu skil þurfa að berast eigi síðar en 15. mars 2023.

Gestir fundarins frá UST fóru yfir stöðuna í vinnslu PaMs skýrslunnar. Þær útskýrðu hvernig framreiknuð losun Íslands er unnin í skýrslunni, það er hvaða tölulegar forsendur liggja að baki greiningunum og framreikningunum og að hve miklu leyti þeir munu ná að endurspegla stefnumörkun og aðgerðir stjórnvalda. Síðasta skýrsla byggði á upplýsingum úr þágildandi eldsneytisspá sem unnin var af Orkustofnun og Eflu en skýrslan sem er í vinnslu byggir á nýrri orkuskiptaspá Orkustofnunar. Fram kom að hingað til hefur aðeins verið unnið með grunnsviðsmynd við gerð skýrslunnar (e. With Existing Measures – WEM) en í skýrslu þessa árs verður einnig birt sviðsmynd sem gerir ráð fyrir viðbótaraðgerðum (e. With Additional Measures – WAM).

Að kynningu lokinni ræddu gestir fundarins og fulltrúar ráðsins um framreikningana og hversu vel þeir væru að ná að spegla formlegt mat á áætluðum árangri loftslagsaðgerða. Fram kom að meirihluti aðgerð í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum hafa ekki bein áhrif á framreikningana, þar sem þær eru enn í mótun og eða vegna þess að ekki liggja fyrir hermilíkön sem ráða við að meta vænt áhrif aðgerða. . Það á meðal annars við um meirihluta aðgerða í samgöngum og landbúnaði. Umræðurnar héldu áfram innan ráðsins eftir að gestirnir viku af fundi.

Kolefnisjöfnun í ljósi lífríkis- og loftslagsverndar

Áframhald varð á umræðum síðasta fundar um samþættingu lífríkis- og loftslagsverndar og kolefnisjöfnun sem tengist samdrætti í losun frá landi eða aukinni bindingu í jarðvegi og gróðri.

Rætt var hvernig undirbúa megi frekari aðkomu Loftslagsráðs í ljósi stöðunnar hér á landi varðandi kolefnisjöfnun, nú þegar tækniforskrift Staðlaráðs liggur fyrir. Einnig er vilji innan ráðsins að fylgja eftir skýrslunni um losun og bindingu frá landi í samhengi markmiða Íslands fyrir 2030 annars vegar og 2040 hins vegar. Nefnt var að forsenda þess að Loftslagsráð geti fjallað um hugtök eins og kolefnisjöfnun sé að fyrir liggi gögn um hvernig unnt verði að ná slíku ástandi. Ákveðið að skrifstofan taki saman umræðuskjal um efnið til að leggja fyrir ráðið í mars.

Önnur mál og næsti fundur

Framkvæmdastjóri kynnti að hún hygðist hitta á alla fulltrúa ráðsins á næstu vikum, meðal annars til að ræða hvernig skrifstofan getur unnið enn frekar með fulltrúum ráðsins og baklandi þeirra.

Næsti fundur er áætlaður 9. febrúar, kl 14:00-16:00