Fundargerð 58. fundar Loftslagsráðs

24. nóvember 2022

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Hjörleifur Einarsson, Guðmundur Þorbjörnsson, Auður Alfa Ólafsdóttir, Árni Finnsson, Tinna Hallgrímsdóttir, Smári Jónas Lúðvíksson, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Ingibjörg Svala Jónsdóttir og Aðalheiður Snæbjarnardóttir.

Gestur fundarins var: undir lið tvö, Guðmundur Steingrímsson. Verðandi framkvæmdastjóri ráðsins, Þórunn Wolfram Pétursdóttir, sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

Fundurinn var haldinn í Hörpunni, Austurbakka 2 kl. 14:00-16:04.

Fundargerð síðustu funda

Fundargerðir 56 og 57. voru samþykktar.

Stöðumat í kjölfar COP27

Farið var yfir helstu niðurstöður COP27 (27. aðildarríkjaþings Loftslagssamningsins og 4. aðildarríkjaþings Parísarsamningsins) og vísbendingar um stöðuna í hnattrænum viðbrögðum við loftslagsvá. Tveir fulltrúar í ráðinu sóttu þingið fyrir hönd sinna samtaka. Það voru þau Tinna Hallgrímsdóttir og Árni Finnsson. Þau greindu frá sinni upplifun af umræðum og ákvörðunum COP27. Í kjölfarið voru umræður um þingið og væntanlegt stöðumat ráðsins um niðurstöður þess.

Guðmundur Steingrímsson, sem mun vinna stöðumat Loftslagsráðs, fylgdist með umræðunni. Hann mun taka saman fyrstu drög að stöðumatinu og senda það á fulltrúa ráðsins og óska eftir viðbrögðum þeirra. Lokadrög verða svo send út rétt fyrir næsta fund þar sem endanlega verður gengið frá matinu og það samþykkt til opinberrar birtingar, í nafni ráðsins.

Samtal stjórnvalda við atvinnugreinar um aðgerðir og árangur

Á síðasta fundi fékk ráðið kynningu á nýju verkefni og nálgun stjórnvalda að samtali við fulltrúa atvinnugreina um aðgerðir atvinnulífsins sem skila eiga árangri fyrir 2030. Rætt var hvernig Loftslagsráð getur haft jákvæð áhrif á útkomur verkefnisins, til dæmis með því að benda á hvernig megi draga lærdóm af reynslu nágrannaþjóða á þessu sviði og varpa ljósi á fleiri tækifæri til framfara.

Önnur mál og næstu fundir

Næsti fundur verður 8. desember næstkomandi. Hann verður haldinn í húsakynnum samtaka atvinnulífsins,  Borgartúni 35 (fyrstu hæð hússins).