Fundargerð 56. fundar Loftslagsráðs

20. október 2022

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Árni Finnsson, Hrönn Hrafnsdóttir, Smári Jónas Lúðvíksson, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Ingibjörg Svala Jónsdóttir, Hjörleifur Einarsson, Valur Klemensson, Aðalheiður Snæbjarnardóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Guðmundur Þorbjörnsson og Tinna Hallgrímsdóttir.

Gestir fundarins undir lið 3 voru Bjarni Snæbjörn Jónsson og Hildur Magnúsdóttur frá DECIDEACT

Fundurinn var haldinn í húsnæði Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, kl. 14.00 – 16.00. Halldór Þorgeirsson formaður skráði fundargerð.

Opnun

Forstjóri Umhverfisstofnunar, Sigrún Ágústdóttir, bauð fulltrúa velkomna og gerði ásamt formanni grein fyrir góðri reynslu af samkomulagi milli Loftslagsráðs og Umhverfisstofnunar um skrifstofu- og fundaaðstöðu sem gert síðasta starfsári.

Þórunn Wolfram Pétursdóttir, verðandi framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, var gestur fundarins og kynnti sig fyrir fulltrúum í ráðinu. Hún var boðin velkomin en hún mun hefja störf 1. janúar 2023.

Tveir nýir fulltrúar háskólasamfélagsins hafa verið skipaðir fulltrúar í ráðinu samkvæmt tilnefningu frá Samstarfsnefndar háskólastigsins. Það eru þau Ingibjörg Svala Jónsdóttir prófessor við Háskóla Íslands og Hjörleifur Einarsson prófessor við Háskólann á Akureyri. Þau kynntu sig og voru boðin velkomin í til starfa.

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 55. fundar var samþykkt. 

Áherslur og forgangsröðun viðfangsefna

Ráðið kom saman til vinnufundar á Selfossi 18. ágúst til að leggja grunn að áherslum og forgangsröðun viðfangsefna á yfirstandandi starfári. Bjarni Snæbjörn Jónsson og Hildur Magnúsdóttur frá DECIDEACT aðstoðuðu ráðið í þeirri vinnu og tóku niðurstöðu samtalsins saman. Sú samantekt var send fulltrúum í ráðinu fyrir fundinn sem innra vinnuplagg ráðsins.

Mikill samhugur var á vinnufundinum á um þá óskastöðu að Loftslagsráð verði forystuafl í loftslagsmálum hér á landi á grunni styrkleika sem tengjast gagnsæi og upplýsingamiðlun, víðtæku samstarfi, og eftirliti og aðhaldi. Góð umræða átti sér einnig stað um áskoranir á leiðinni að óskastöðunni og hugsanleg viðbrögð við þeim. Mótun hugsanlegra áherslusviða hófst en hún þarfnast nánari útfærslu og forgangsröðunar.

Fulltrúar tjáðu sig á fundinum um hvar þeir telja að Loftslagsráð ætti að setja krafta sína núna, hvaða áföngum mætti ná fyrir vorið og þá hvernig. Hildur Magnúsdóttir skráði áherslur fulltrúa sem áfram einkenndist af miklum samhug. Ákveðið að formaður fundi með ráðgjöfunum um næstu skref í þessari stefnumótunarvinnu.

Önnur mál og næsti fundur

Ákveðið að næsti fundur ráðsins verði fimmtudaginn 3. nóvember. Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið hefur óskað eftir tækifæri til að kynna nálgunina að nýhöfnu atvinnugreinasamtali og tengja það við næstu skref í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Verður þeim boðið á næsta fund ráðsins.

Umræða hófst um hvernig Loftslagsráð ætti að beita sér meðan COP27 (26. aðildarríkjaþing Loftslagssamningsins og 4. aðildarríkjaþing Parísarsamningsins) stendur yfir í Sharm el-Sheikh, Egyptalandi en þingið hefst sunnudaginn 6. nóvember. Ákveðið að halda þeirri umræðu áfram á næsta fundi.