Fundargerð 54. fundar Loftslagsráðs

19. maí 2022

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Árni Finnsson, Hrönn Hrafnsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Valur Klemensson, Aðalheiður Snæbjarnardóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Sigurður Thorlacius, Guðmundur Þorbjörnsson, Smári Jónas Lúðvíksson og Helga Ögmundardóttir varamaður. 

Gestir fundarins voru: undir lið 4 þau Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Benedikt Árnason ráðuneytisstjóri matvælaráðuneytisins og undir lið 5 þau Hrafnhildur Bragadóttir, lögfræðingur og Jónas Atli Gunnarsson hagfræðingur. 

Fundurinn var haldinn í Öldu, Skúlagötu 4 kl. 13.00 – 16.15. Guðný Káradóttir verkefnastjóri skráði fundargerð. 

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 53. fundar var samþykkt. Nýr fulltrúi sveitarfélaga, Smári Jónas Lúðvíksson, kynnti sig.  

Reykjavík kolefnishlutlaus snjallborg 2030 

Hrönn Hrafnsdóttir umhverfis- og auðlindafræðingur og starfar sem sérfræðingur á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar (og fulltrúi í Loftslagsráði) kynnti að Reykjavíkurborg hefur verið valin í hóp 100 borga í Evrópu sem munu vinna saman að því að verða kolefnishlutlausar snjallborgir árið 2030. Þetta er einn leiðangur af fimm í Horizon Europe sem er rannsóknar- og nýsköpunaráætlun ESB 2021-2027. 

Viðbrögð Loftslagsráðs við matsskýrslu þriðja vinnuhóps IPCC 

Á 52. fundi Loftslagsráðs þann 7. apríl sl. var matsskýrsla þriðja vinnuhóps IPCC kynnt og í kjölfarið var ákveðið að Loftslagsráð myndi bregðast við og senda frá sér álit í tilefni þess að matsskýrslan er komin út.  

Fyrir fundinum lágu drög að áliti sem rætt var um á fundinum. Samþykkt var að formaður og varaformaður vinni úr þeim ábendingum sem fram komu á fundinum og leggi ný drög að áliti fyrir næsta fund í ráðinu. 

Heimsókn matvælaráðherra

Matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, kom á fund Loftslagsráðs ásamt ráðuneytisstjóra. Hún sagði frá starfsemi og skipulagi hins nýja ráðuneytis, og lýsti hvernig áherslur á loftslagsmál eru innleiddar í stefnu og aðgerðir þvert á öll málefnasvið ráðuneytisins. Spurningar til ráðherra og umræður. Ráðherra var þakkað fyrir gott samtal og var áhugi bæði hjá ráðherra og ráðinu að halda samtalinu áfram síðar.  

Gagnsæi í loftslagshagstjórn

Kynntar voru megin niðurstöður greiningar sem ætlað er að stuðla að gagnsæi varðandi ráðstöfun opinberra fjármuna í þágu loftslagsmarkmiða. Greiningin felst í að kortleggja og ná yfirsýn yfir þá þætti ríkisfjármála sem hafa sérstaka þýðingu fyrir málaflokkinn, tekjur og útgjöld, og afla upplýsinga um stefnumörkun og eftirfylgni varðandi útgjöld til loftslagsmála. Einnig er skoðuð þróun í öðrum ríkjum og á alþjóðavettvangi varðandi stefnumörkun opinberra fjármála og tengsl við markmið í loftslagsmálum. 

Umræður um efni greiningarinnar. Stefnt er að því að lokadrög greiningarinnar verði send fulltrúum fyrir fund ráðsins þann 9. júní nk. og að hún verði afgreidd úr ráðinu á þeim fundi. 

Önnur mál

Formaður sagði frá því að leitað hafi verið til Loftslagsráðs um að skrifa stuðningsbréf til Norrænu ráðherranefndarinnar vegna verkefnis sem kallast „Nordic Municipal Climate Action“. Tilgangurinn er að hvetja norrænar borgir og sveitarfélög til að móta áætlanir til að vinna að markmiðum Parísarsamningsins í loftslagsmálum, veita þeim fræðslu og sérfræðiráðgjöf til að byggja upp hæfni og móta verkferla. Stuðningsbréfið ásamt upplýsingum um verkefnið verður sent á fulltrúa.