Fundargerð 53. fundar Loftslagsráðs

5. maí 2022

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Árni Finnsson, Hrönn Hrafnsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Valur Klemensson, Auður Alfa Ólafsdóttir, Sigurður Thorlacius, Guðmundur Þorbjörnsson, Steingrímur Jónsson og varamennirnir Pétur Blöndal og Eygerður Margrétardóttir.

Gestir fundarins voru: undir lið 2 þær Ásta Karen Helgadóttir og Sigríður Rós Einarsdóttir sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun og undir lið 3 þau Hrafnhildur Bragadóttir, lögfræðingur og Jónas Atli Gunnarsson hagfræðingur.

Fundurinn var haldinn í Háhyrnu, Skuggasundi 3 kl. 14-16. Guðný Káradóttir verkefnastjóri skráði fundargerð.

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 52. fundar var samþykkt. Formaður tilkynnti að frestað verður leggja fram drög að ályktun sbr. lið 2 í fundargerð, fram á næsta fund og einnig að fjalla um drög að erindi til Vísinda- og tækniráðs sem boðað var undir lið 3.

Staða nettólosunar frá Íslandi 2020 og framtíðarhorfur

Fulltrúar Umhverfisstofnunar kynntu Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi fyrir árið 2020 þar sem fjallað er um m.a. megin breytingar milli áranna 2019 og 2020 og framreikning um losun Íslands til ársins 2040. Helstu niðurstöður eru að nokkur samdráttur er merkjanlegur í losun vegna samdráttar í notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Fram kom í kynningunni að gera má ráð fyrir að sú breyting skýrist að töluverðu leyti af áhrifum heimsfaraldurs Covid-19. Framreikningar sýna að losun mun líklega halda áfram að dragast saman á næstu árum. Þá var vakin athygli á nýjum gagnabirti um losun gróðurhúsalofttegunda sem er aðgengilegur á vef Umhverfisstofnunar. 

Umræður að kynningu lokinni.

Gagnsæi í loftslagshagstjórn

Loftslagsráð hefur ákveðið að ráðast í greiningu sem hefur þann tilgang að stuðla að gagnsæi varðandi ráðstöfun opinberra fjármuna í þágu loftslagsmarkmiða til að bæta samstillingu stefnumörkunar í ríkisfjármálum við stefnumið þjóðarinnar í loftslagsmálum. Á fundinum kynnti varaformaður tilgang og markmið greiningarinnar sem miðar að því að kortleggja og ná yfirsýn yfir þá þætti ríkisfjármálanna sem hafa sérstaka þýðingu fyrir stjórnun loftslagsmála, s.s. tekjur af loftslagstengdri skattlagningu og sölu losunarheimilda, bein og óbein útgjöld til loftslagsmála og styrkveitingar.

Jónas Atli Gunnarsson hagfræðingur og Hrafnhildur Bragadóttir lögfræðingur kynntu upplýsingar sem aflað hefur verið um tekjur og útgjöld til loftslagsmála á Íslandi og alþjóðlega þróun varðandi samstillingu loftslagsstefnu og ríkisfjármála og hvar upplýsinga hefur verið aflað.

Umræður að kynningu lokinni. Málið verður aftur á dagskrá 19.maí nk.

Önnur mál

Brynhildur Pétursdóttir vakti athygli á grein í blaði Neytendasamtakanna um matvælakerfi og loftslagsmál og dreifði eintökum af blaðinu til fulltrúa.

Hrönn Hrafnsdóttir sagði frá því að Reykjavíkurborg hefur verið valin í hóp 100 kolefnishlutlausra snjallborga Evrópu árið 2030 sem er verkefni á vegum Evrópusambandsins. Frekari kynning í ráðinu er áætluð síðar.

Sagt var frá aðalfundi International Climate Councils Network (ICCN) sem haldinn var dagana 27. og 28. apríl, en Loftslagsráð er aðili að ICCN. Einnig var sagt frá málefnastarfi á komandi starfsári ICCN og að Loftslagsráð hefur tekið að sér að leiða undirbúning að umræðu um millilandasamgöngur á þeim vettvangi.

Tilkynnt var um breytingu á tímalengd næstu tveggja funda og að myndataka verði á fundinum 19. maí.

Tilkynnt var að matvælaráðherra verður gestur á fundi ráðsins 19. maí.

Tilkynnt var um starfslok verkefnastjóra 30. júní nk.