Fundargerð 52. fundar Loftslagsráðs

7. apríl 2022

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Árni Finnsson, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Valur Klemensson, Sigurður Thorlacius, Aðalheiður Snæbjarnardóttir og Steingrímur Jónsson. 

Gestir fundarins voru: Hrafnhildur Bragadóttir, lögfræðingur og Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða. 

Fundurinn var haldinn á Skúlagötu 4 kl. 14-16.10. Guðný Káradóttir verkefnastjóri skráði fundargerð

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 51. fundar var samþykkt. 

Meginskilaboð þriðja vinnuhóps IPCC 

Loftslagsráð hefur einsett sér að fylgjast á þessu starfsári vel með afgreiðslu IPCC á sjöttu matsskýrslu þessarar mikilvægu alþjóðlegu stofnunar sem Ísland er aðili að. Niðurstöður þriðju vinnunefndar IPCC (WGIII) sem fjallar um mótvægisaðgerðir (e. mitigation) voru kynntar 4. apríl sl. Brynhildur Davíðsdóttir prófessor og varaformaður Loftslagsráðs, var í sendinefnd Íslands sem tók þátt í þingfundi þegar skýrslan var samþykkt. Hún kynnti niðurstöður skýrslunnar fyrir fulltrúum í Loftslagsráði og sagði frá upplifun sinni. Fyrir fundinum lá minnisblað um helstu niðurstöður þriðja vinnuhóps IPCC.

Umræður voru í kjölfarið um hvort, og þá hvernig, Loftslagsráð muni bregðast við og tjá sig opinberlega nú þegar allar vinnunefndir IPCC hafa skilað af sér.

Tekið verður upp viðtal við Brynhildi um niðurstöður skýrslunnar líkt og gert var við útkomu skýrslur vinnuhópa 1 og 2, og miðlað á vef ráðsins og samfélagsmiðlum þess. Þá var ákveðið að  koma kynningarefni á framfæri við almenning, hagaðila og aðila innan stjórnsýslunnar með því m.a. að gefa út samantekt um helstu niðurstöður matsskýrslunnar og birta um leið og samtalið við Brynhildi. Mikill áhugi var á að halda opinn fund til að kynna niðurstöðurnar og mun verkefnastjóri kanna möguleika þess í samstarfi við formann og varaformann, auk þess sem kannaður verður möguleiki á frekari stafrænni miðlun með myndrænum hætti. Einnig var samþykkt að vinna úr umræðum og viðbrögðum fulltrúa á fundinum og leggja fram drög að ályktun til afgreiðslu á næsta fundi. Fulltrúar voru beðnir að senda inn áhersluatriði sem nýta mætti við undirbúning ályktunarinnar. Fundurinn var sammála um að tengja afrakstur þessa sex ára starfs IPCC við stefnumörkun Íslands og framkvæmd hér á landi. 

Þekking í þágu loftslagsmála

Á síðasta starfsári beindi Loftslagsráð sjónum að stöðu vísindaráðráðgjafar í loftslagsmálum og réðist í greiningu sem hafði að markmiði að gefa yfirsýn og leggja grunn að sókn í átt að þverfræðilegri og öflugri vísindaráðgjöf um loftslagsmál á Íslandi. Niðurstöðurnar voru gefnar út í samantektinni Þekking í þágu loftslagsmála sem lá fyrir fundinum. Umræður voru um hvernig Loftslagsráð getur beitt sér og haft jákvæð áhrif á stöðu mála á þessu sviði, m.a. í ljósi niðurstaðna úr nýjustu matsskýrslu IPCC.

Samþykkt var að stíga nú það skref sem vikið var að í undirkafla 4.7. í samantektinni og undirbúa tillögu til þeirra ráðherra sem sitja í ráðherranefnd um loftslagsmál og Vísinda- og tækniráði að þeir hlutist til um það að kallað verði eftir greiningu á fjármögnun til rannsókna og vöktunar í loftslagsmálum. Vísað verði til þess að yfirsýn skorti um hversu miklu fjármagni er veitt í loftslagstengd verkefni s.s. úr samkeppnissjóðum, annarri opinberri fjármögnun og fjármagni einkaaðila og hver þörfin sé í ljósi þeirra áskorana og tækifæra sem Ísland stendur nú frammi fyrir á þessu sviði. 

Formaður og varaformaður munu undirbúa drög að slíku erindi sem lagt verður fyrir til samþykktar á næsta fundi ráðsins.

Önnur mál

Engin önnur mál voru tekin fyrir á fundinum.