Fundargerð 48. fundar Loftslagsráðs

27. janúar 2022

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Unnsteinn Snorri Snorrason, Sigurður Loftur Thorlacius, Auður Alfa Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Árni Finnsson, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Steingrímur Jónsson og Aðalheiður Snæbjarnardóttir. 

Gestir fundarins: Gestir fundarins undir lið 2 voru Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra, Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri og Halla Sigrún Sigurðardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu loftslagsmála. 

Fundurinn var haldinn í fjarfundi á Teams kl. 14-16.15. Guðný Káradóttir verkefnastjóri skráði fundargerð. 

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 47. fundar var samþykkt.

Áherslur og nálgun að verkefnum fram undan 

Fundurinn var helgaður innra samtali meðal ráðsmeðlima til að stilla saman strengi varðandi áherslur og nálgun að mikilvægum viðfangsefnum fram undan með það að markmiði að hafa sem jákvæðust áhrif til vors.

Þrjár kynningar voru áður en að umræðum fulltrúa kom. 

Fyrir fundinum lá uppfærð samantekt um millilandasamgöngur. Verkefnastjóri og undirbúningshópur að viðburðinum Samtal og sókn, þar sem fjallað verður um millilandasamgöngur, kynntu stöðu undirbúnings og það helsta sem fram kemur í samantektinni. 

Varaformaður kynnti þá aðferð sem beitt er við útreikning á hlutdeild Íslands í sameiginlegu markmiði með Noregi og ESB um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030. Einnig var fjallað um sjálfstætt markmið Íslands um 55% samdrátt í losun sem boðað var í nýlegum stjórnarsáttmála.   

Formaður var með kynningu á fyrsta hnattræna stöðumatinu (Global Stocktake eða GST) undir Parísarsamningnum sem mun ljúka í lok næsta árs á COP28. Það mun m.a. byggjast á 6. matsskýrslu IPCC en framlag 2. og 3. vinnunefndar IPCC verða lögð til samþykktar aðildarríkjanna í febrúar og mars nk. Fyrir fundinum lá yfirlit með dagsetningum á útkomu skýrslna frá IPCC árið 2022.

Umræður um viðfangsefni ráðsins og áherslur. 

Önnur mál

Ábending kom fram um villandi orðalag við kynningu á kolefnisbindingu tveggja fyrirtækja þar sem vísað er í kröfur Loftslagsráðs. Verkefnastjóra var falið að hafa samband við viðkomandi aðila sem að verkefnunum koma og leita skýringa á hvað átt er við. 

Umræða um Janúarráðstefnu Festu sem haldin var fyrr um daginn og áhugaverð erindi erlendra fyrirlesara.