Fundargerð 44. fundar Loftslagsráðs

28. október 2021

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Aðalheiður Snæbjarnardóttir, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Unnsteinn Snorri Snorrason, Sigurður Loftur Thorlacius, Auður Alfa Ólafsdóttir, Árni Finnsson, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Steingrímur Jónsson, Sveinn Margeirsson og Brynhildur Pétursdóttir. 

Gestir fundarins: Gestir fundarins voru Guðmundur Sigbergsson framkvæmdastjóri Loftslagsskrár Íslands og iCert og Gunnar Sveinn Magnússon hjá EY sem jafnframt er stjórnarmaður í Loftslagsskrá. 

Fundurinn var haldinn í Skuggasundi 3 kl. 14-16. Guðný Káradóttir verkefnastjóri skráði fundargerð.

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 43. fundar var samþykkt.

Stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum

Umfjöllun um lið 2 og 3 fór fram samhliða.

Fulltrúar fengu kynningu á stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar á síðasta fundi og fór nú fram efnisleg umræða um stöðuskýrsluna. Markmið þessa fundar var að eiga samráð og taka ákvarðanir um hvort og þá hvernig og hvenær Loftslagsráð muni bregðast við skýrslunni.

Fulltrúar kynntu sjónarmið sín og var m.a. vísað til álits sem ráðið sendi frá sér við útkomu aðgerðaáætlunar 2020 og meginatriða sem þar komu fram, varðandi form og framsetningu. Samþykkt að ráðið sendi frá álit sem afgreitt verður frá ráðinu á næsta fundi. Formanni, varaformanni og verkefnastjóra var falið að undirbúa drög að slíku áliti.

Eldsneytisspá 2021-2060

Rætt var um hvort Loftslagsráð tjái sig um þá eldsneytisspá sem kynnt var nýlega. Í áliti Loftslagsráðs um endurskoðaða aðgerðaáætlun 2020 lýsti ráðið áhyggjum af veikleikum í eldsneytisspá frá 2016. Sú eldsneytisspá sem nú hefur verið kynnt felur ekki í sér fullnægjandi úrbætur. Einnig skortir á samþættingu eldsneytisspár við raforkuspá. 

Eftir umræður var niðurstaðan sú að full ástæða væri til þess að ráðið tjái sig opinberlega um stöðuna en skoða þarf betur hvernig og hvenær slíkt útspil yrði til mests gagns. Einnig var samþykkt að hefja undirbúning að málþingi um hvað læra megi af reynslu annarra af gerð orkuspár.

Starfsáætlun Loftslagsráðs 2021-2022

Fyrir fundinum lágu drög að starfsáætlun. Athugasemd kom fram við drögin og var gerð tillaga að breytingu á áætluninni. Verkefnastjóra var falið í samráði við formann að uppfæra hana og tryggja að tillaga um breytingu skili sér í uppfærðri útgáfu. Starfsáætlunin verður síðan birt á vef Loftslagsráðs.

Kynning frá Loftslagsskrá Íslands ehf.

Guðmundur Sigbergsson og Gunnar Sveinn kynntu Loftslagsskrá Íslands og hvernig tilkoma hennar gæti stuðlað að aukinni ábyrgð í kolefnisjöfnun hér á landi. 

Önnur mál

Sagt var frá dagskrá og miðlun Loftslagsráðs í tengslum við COP26 í Glasgow.