Fundargerð 43. fundar Loftslagsráðs

7. október 2021

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Aðalheiður Snæbjarnardóttir, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Unnsteinn Snorri Snorrason, Sigurður Loftur Thorlacius, Auður Alfa Ólafsdóttir, Árni Finnsson, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Steingrímur Jónsson og varafulltrúarnir Eygerður Margrétardóttir og Hafdís Hanna Ægisdóttir. 

Gestir fundarins voru Halla Sigrún Sigurðardóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu loftslagsmála í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og starfsmenn skrifstofunnar þau Helga Barðadóttir sérfræðingur, staðgengill skrifstofustjóra, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, sérfræðingur, og Magnús Örn Agnesar Sigurðsson sérfræðingur.  Einnig Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands. 

Fundurinn var haldinn í Skuggasundi 3 kl. 14-16. Guðný Káradóttir verkefnastjóri skráði fundargerð.

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 42. fundar þann 16. september var ekki borin upp til afgreiðslu á fundinum. Þess í stað var hún send til fulltrúa eftir fundinn og þeim gefinn frestur til að koma með athugasemdir. Þar sem engar athugasemdir bárust skoðast hún samþykkt.

Aðlögun að röskun loftslags 

Markmið  Loftslagsráðs er að beina kastljósinu að afleiðingum loftslagsbreytinga og þeim stefnubreytingum sem þær kalla á og þeim fjárfestingum sem ráðast þarf í til aðlögunar (þar sem slíkt er mögulegt). Markmið þessa fundar var að fá kynningu á stefnumótun stjórnvalda og hlutverki skrifstofu Loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands.  

Halla Sigrún Sigurðardóttir sem var formaður starfshóps um aðlögunarstefnu kynnti stefnu um aðlögun samfélagsins að áhrifum loftslagsbreytinga „Í ljósi loftslagsvár“ sem var birt í september sl. Þá kynnti hún vinnu starfshópsins og ferlið við mótun stefnunnar. Við vinnu sína horfði starfshópurinn m.a. til hliðsjónar skýrslu Loftslagsráðs „Að búa sig undir breyttan heim“ (2020), Skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar (2018) um afleiðingar loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag og náttúru auk stefnumótunar og aðgerða nágrannaríkja Íslands í þessum málaflokki. 

Rætt var m.a. um væntanlega aðgerðaáætlun sem unnin verður á grundvelli skýrslunnar, samráð og fræðslu, greiningar og rannsóknir. 

Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands sagði frá hlutverki skrifstofunnar. Skrifstofunni er ætlað að verða miðstöð loftslagsvísinda og þekkingargrunnur fyrir aðlögun. Hún greindi frá skipulagi starfsins, viðfangsefnum og forgangsröðun verkefna. Skrifstofan er formlegur tengiliður við IPCC og þjónustar vísindanefnd um loftslagsbreytingar sem senn mun taka aftur til starfa. Þá á hún að sinna upplýsingamiðlun og er verið að vinna að því að þróa gagnagátt þvert á stofnanir. 

Í umræðum eftir kynningu Önnu Huldu var m.a. rætt um gerð sviðsmynda, hættumat, hlutverk sveitarfélaga á sviði aðlögunarmála, miðlun og næstu skref í mótun skrifstofunnar. 

Stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar 

Anna Sigurveig Ragnarsdóttir kynnti stöðuskýrsluna, gerði grein fyrir tilurð hennar, flokkun og stöðu aðgerða. Hún sagði einnig frá hlutverki verkefnisstjórnarinnar og því að félagsmálaráðuneytið er nú með fulltrúa í henni. 

Í umræðum var m.a. rætt um eldsneytisspá sem liggur til grundvallar uppfærslu á framreikningum Umhverfisstofnunar, nauðsyn árangursmælikvarða og mælanlegra markmiða. 

Hugsanleg viðbrögð Loftslagsráðs verða tekin til umfjöllunar á næsta fundi ráðsins þann 28. október. Fulltrúar voru beðnir um að senda hugmyndir sínar um hvernig Loftslagsráð bregst við til verkefnastjóra. 

Önnur mál

Fjallað var um aðild Loftslagsráðs að alþjóðasamstarfi loftslagsráða, International Climate Councils Network (ICCN). Tilgangur og áherslur ICCN voru rifjaðar upp og var endanlega samþykkt að taka þátt í samstarfinu sem verður stofnað formlega 1. nóvember nk. á fundi ráðanna á COP26. Einnig var samþykkt að skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu loftslagsráða sem stíluð verður á stjórnvöld allra ríkja sem eiga aðild að Parísarsamningnum. 

Þá var sagt frá fyrirhuguðum vinnu- og fræðslufundi í ráðinu sem boðaður verður 19. október um miðlun fræðslu og upplýsinga um loftslagsmál.