Fundargerð 42. fundar Loftslagsráðs

16. september 2021

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Guðmundur Þorbjörnsson, Aðalheiður Snæbjarnardóttir, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Unnsteinn Snorri Snorrason,  Sigurður Loftur Thorlacius, Brynhildur Pétursdóttir, Steingrímur Jónsson og varafulltrúarnir Eygerður Margrétardóttir, Heimir B. Janusarson, Hlynur Óskarsson og Hrund Gunnsteinsdóttir.  

Fundurinn var haldinn í Skuggasundi 3 kl. 14-16. Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð.

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.

Framtíð óháð jarðefnaeldsneyti 

Gestir fundarins undir þessum lið voru Markus Wråke, Energiforsk AB í Svíþjóð, Kevin Johnsen, Nordic Energy Resarch og frá Orkustofnun, Halla Hrund Logadóttir Orkumálastjóri og Jón Ásgeir H. Þorvaldsson, Verkefnisstjóri í orkuskiptum.

Markus Wråke hélt kynningu sem varpaði ljósi á hvernig aðrar þjóðir eru að nálgast framtíð óháð jarðeldsneyti, þ.m.t. á hreinorkusviðsmyndum sem þróaðar hafa verið fyrir Norðurlöndin og kynntar voru nýverið. 

Halla Hrund Logadóttir Orkumálastjóri kynnti starf Orkustofnunar og lagði út af núgildandi orkustefnu sem felur í sér það markmið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti 2050. Hún ræddi stöðuna og hugsanlegar leiðir að markmiðinu, auk þess að fjalla um breytingar á eldsneytisspá og á skipuriti Orkustofnunar þar sem meiri áhersla verður lögð á loftslagsmál. 

Fulltrúar spurðu gestina spurninga og umræður voru um efnið. 

Önnur mál

Formaður upplýsti ráðið um hlutverk hans í ráðgjafahóp sem skipaður var af umhverfis- og auðlindaráðherra til að veita ráðgjöf og styðja við rannsóknarverkefni um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Hópurinn hefur lokið störfum. 

Fyrir fundinum lá minnisblað um samstarfsvettvang loftslagsráða, International Climate Councils Network sem stofnaður verður formlega 1. nóvember nk. Samþykkt var að Loftslagsráð tæki þátt í samstarfinu. Sagt var frá tveimur viðburðum í september sem haldnir verða á vettvangi ICCN og er annar þeirra vefvarp (webinar) 28. september nk. sem allir fulltrúar í ráðinu geta tekið þátt í. 

Tillaga var borin upp um að Loftslagsráð eigi fulltrúa á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26) sem haldin verður í Glasgow 1.-12. nóvember nk. Hún var samþykkt.