Fundargerð 41. fundar Loftslagsráðs

2. september 2021

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Aðalheiður Snæbjarnardóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Unnsteinn Snorri Snorrason, Sveinn Margeirsson, Sigurður Loftur Thorlacius, Brynhildur Pétursdóttir, Steingrímur Jónsson og Agla Eir Vilhjálmsdóttir varafulltrúi. 

Fundurinn var haldinn á Teams kl. 14-16. Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð. 

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt með orðalagsbreytingu.

Áherslur í starfi  

Fyrir fundinum lá samantekt frá vinnufundi ráðsins þann 19. ágúst sl. en á þeim fundi voru sem engar ákvarðanir teknar eðli málsins samkvæmt. Markmið þessa fundar var að taka ákvarðanir, á grundvelli umræðunnar á vinnufundinum, um áherslur ráðsins á þessu starfsári og setja þá vinnu í farveg.  

Verkefnisstjóri fór yfir meginniðurstöður fundarins 19. ágúst sem snertu áherslur í starfinu, viðfangsefni, miðlun og þætti í innra starfi ráðsins.

Ákveðið var að ráðið leggi áherslu á eftirfarandi meginviðfangsefni á yfirstandandi starfsári: 

  • 1. Framtíð óháð jarðeldsneyti 
  • 2. Fjármálaáætlun og beiting stjórntækja í hagkerfinu
  • 3. Kolefnishlutleysi og árangur aðgerða stjórnvalda
  • 4. Landnotkun og losun frá landi
  • 5. Millilandasamgöngur (Samtal og sókn)
  • 6. Aðlögun að röskun loftslags
  • 7. Þekking í þágu loftslagsmála 

Ákveðið að leggja áherslu á meginviðfangsefni 1, 3, 4, 6 og 7 fram að COP26 í Glasgow í nóvember en nota þann tíma jafnframt til undirbúningsvinnu fyrir aðkomu ráðsins að 2 og 5 í desember og janúar.  

Ákveðið að taka 1. viðfangsefnið (Framtíð óháð jarðeldsneyti) til umfjöllunar á næsta fundi ráðsins (42. fundur, 16. september) og að bjóða nýskipuðum orkumálastjóra til samráðs. Einnig verður varpað ljósi á hvernig aðrar þjóðir eru að nálgast verkefnið.  

Ákveðið að taka 6. viðfangsefnið (Aðlögun að röskun loftslags) til umfjöllunar á 43. fundi ráðsins 7. október. Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum: Drög að stefnu. Verður tekin til umfjöllunar og verður formanni starfshópsins sem vann hana boðið til fundar. Einnig mun ráðið kynna sér fyrirætlanir nýrrar skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofunni með því að bjóða skrifstofustjóra hennar til fundar. 

Ráðið mun taka 4. viðfangsefnið (Landnotkun og losun frá landi) þegar formaður hefur lokið þeirri frágangsvinnu sem honum var falin á lokafundi síðasta starfsárs. 

Í tengslum við valdeflingu fulltrúa í ráðinu var ákveðið var fela verkefnisstjóra að skipuleggja fræðandi fyrirlestra fjórum sinnum á starfsárinu fyrir fulltrúa og varafulltrúa utan hefðbundinna funda í ráðinu.

Formaður, varaformaður og verkefnastjóri munu setja aðrar niðurstöður fundarins í framkvæmd.  

Önnur mál

Verkefnastjóri sagði frá farvegi fyrir reglulega upplýsingamiðlun til fulltrúanna um útgáfu rita um loftslagsmál, viðburði og ýmislegt sem er á döfinni sem tengist beint og óbeint starfinu í ráðinu. 

Sigurður Loftur sagði frá „Sólinni“ sem er mat sem Ungir umhverfissinar munu birta á stefnu stjórnmálaflokkanna í loftslagsmálum í komandi kosningum. 

Formaður sagði frá því að á ráðið verði upplýst á næsta fundi um undirbúning 26. Aðildarríkjaþings loftslagssamningsins sem haldið verður í Glasgow í nóvember og teknar ákvarðanir um mögulega þátttöku ráðsins í því.