Fundargerð 39. fundar Loftslagsráðs

9. júní 2021

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Sigurður Loftur Thorlacius, Hildur Hauksdóttir, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Árni Finnsson, Guðmundur Þorbjörnsson, Hrönn Hrafnsdóttir, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir og Unnsteinn Snorri Snorrason. 

Varafulltrúar sem sátu fundinn: Helga Ögmundardóttir og Eygerður Margrétardóttir. 

Gestir fundarins: undir lið 2, Hafdís Hanna Ægisdóttir forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða og Sóllilja Bjarnadóttir doktorsnemi og undir lið 3, Bryndís Skúladóttir ráðgjafi hjá VSÓ.

Fundurinn var haldinn í Háhyrnu, Skuggasundi 3 kl. 9-12. Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð. 

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.

Vísindaráðgjöf 

Fyrir fundinum lá samantekt með helstu niðurstöðum kortlagningar á vísindaráðgjöf. Gestir fundarins þær Hafdís Hanna Ægisdóttir og Sóllilja Bjarnadóttir kynntu þemu í viðtölum sem tekin voru og ályktanir sem dregnar hafa verið fram í kortlagningunni. 

Umræður og ábendingar varðandi efnið og framsetningu, m.a. um á hverju þurfi að skerpa og draga betur fram. Mikil ánægja með þessa vinnu. Meðal atriða sem komu fram í umræðunni var þörf sveitarfélaga fyrir ráðgjöf og greiningar og hvert þau geta leitað, hvaða gögn eru aðgengileg og þurfa að vera aðgengileg, hvaða þekking það er sem skiptir máli og þörf á formlegum farvegi fyrir vísindaráðgjöf í loftslagsmálum. Unnið verður úr þeim ábendingum sem fram komu og fyrir næsta fund 23. júní verður lögð fyrir ráðið samantekt sem ætlunin er að afgreiða úr ráðinu á þeim fundi. 

Nettólosun frá landi 

Bryndís Skúladóttir kynnti stöðu úttektar á stöðu rannsókna, vöktunar og mats á losun frá landi sem VSÓ er að vinna í samstarfi við Loftslagsráð. Fulltrúar fögnuðu úttektinni og tillögum sem fram komu. Komið var inn á umbótaáætlun sem sett hefur verið af stað á vegum stjórnvalda, breytingar á reglugerðum ESB og innleiðingu hennar hér á landi. 

Umræður, spurningar og ábendingar frá ráðinu. Nú verður gengið frá úttektinni til birtingar og verður hún send ráðinu fyrir næsta fund 23. júní nk. þar sem hún verður lögð fram til samþykktar. 

Samtal og sókn 

Verkefnisstjóri gerði grein fyrir viðburði um sjávarútveg undir merkjum samtals og sóknar sem sendur var út 2. júní sl., áhorfi á streymið og efni sem framleitt var í tengslum við fundinn sem miðlað verður á samfélagsmiðlum. 

Farið var yfir reynslu og lærdóm af fundinum. Almenn ánægja var með viðburðinn og var verkefnisstjóra þakkaður vandaður undirbúningur. Fleiri viðburðir verða settir á dagskrá í haust. 

Önnur mál

Rætt var um starf ráðsins á komandi starfsári, tímasetningu funda o.fl.