Fundargerð 36. fundar Loftslagsráðs

7. apríl 2021

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Sigurður Loftur Thorlacius, Hildur Hauksdóttir, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Guðmundur Þorbjörnsson, Árni Finnsson, Steingrímur Jónsson, Sveinn Margeirsson, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir og Unnsteinn Snorri Snorrason. 

Fundurinn var haldinn á Teams. Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð síðasta fundar þann 17. mars var samþykkt með einni breytingu.  

Ábyrg kolefnisjöfnun 

Fyrir fundinum lá samantekt úr þriðju vinnustofu Loftslagsráðs og Staðlaráðs um ábyrga kolefnisjöfnun sem fram fór 18. mars sl. Verkefnisstjóri kynnti helstu atriði úr henni sem og markmið, framkvæmd, niðurstöður og næstu skref í þeirri vinnu. Sammæli náðist á vinnustofunni um að stofna tækninefnd á vettvangi Staðlaráðs sem mun fylgja eftir niðurstöðum. 

Umræður voru um hlutverk Loftslagsráðs í framhaldinu. Loftslagsráð mun fylgjast með framgangi þessarar vinnu en mun ekki eiga beina aðkomu að henni. Jafnframt var ákveðið að hafa samband við Neytendastofu varðandi þætti sem lúta að samkeppni og fullyrðingum í auglýsingum varðandi kolefnisjöfnun. 

Samtal og sókn 

Fyrir fundinum lágu samantektir um sjávarútveg og ferðaþjónustu og lýsing á markmiðum og aðferðafræði viðburða undir merkjum Samtals og sóknar. Umræður voru um sýn fulltrúa í ráðinu, áherslur og fyrirkomulag viðburðanna sem eru áætlaðir í byrjun maí (ferðaþjónusta) og byrjun júní (sjávarútvegur). Almenn ánægja var með formið og markmiðin. Gögn verða unnin fyrir viðburðina varðandi losun í þessum geirum og kynnt í ráðinu. Þessir viðburðir yrðu upphaf af samtali sem halda þarf áfram. 

Aðgerðaáætlun orkustefnu 

Fyrir fundinum lágu athugasemdir sem borist höfðu við drög að umsögn ráðsins um aðgerðaáætlun orkustefnu. Formaður og varaformaður hafa dregið tillögu sína til baka þar sem ekki hefur náðst nægjanleg samstaða í ráðinu um hvernig fylgja skuli eftir tillögu þess frá apríl 2020 um að sett verði fram samhliða orkuspá „raunhæf áætlun um hvernig útfösun jarðefnaeldsneytis verði náð“. 

Umræður um hugtakanotkun og leiðir fyrir ráðið að hafa jákvæð áhrif. M.a. kom fram hugmynd um að varpa ljósi á hvað aðrar þjóðir eru að gera varðandi útfösun á jarðefnaeldsneyti. Formaður og varaformaður munu koma með tillögu á næsta fundi um næstu skref. 

Reikniregla fyrir hlutdeild Íslendinga í skuldbindingum Evrópusambandsins 

Brynhildur Davíðsdóttir kynnti reiknireglu sem beitt var þegar hlutdeild Íslands í sameiginlegum skuldbindingum um 40% samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda með Evrópusambandinu og Noregi var reiknuð. Niðurstaða þeirra útreikninga var 29%.

Í kjölfarið voru umræður. Fram kom að Evrópusambandið hefur ekki komist að niðurstöðu um hvernig skuldbindingar einstakra ríkja, þar með talið Íslands, í nýjum markmiðum verða reiknaðar af hálfu Evrópusambandsins. 

Ákveðið var að setja hugsanleg viðbrögð við landsframlagi Íslands á dagskrá á næsta fundi. 

Önnur mál

Fyrir fundinum lá samskiptayfirlit frá verkefnisstjóra. Ekki voru umræður um það á fundinum. Tvö önnur mál lágu fyrir undir önnur mál, en ákveðið var að fresta þeim til næsta fundar.