Fundargerð 32. fundar Loftslagsráðs

13. janúar 2021

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Guðmundur Þorbjörnsson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Sigurður Loftur Thorlacius, Steingrímur Jónsson, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Árni Finnsson, Guðfinna Th Aðalgeirsdóttir og varafulltrúarnir Halldóra Kristín Hauksdóttir (f.h. Bændasamtakanna), Eygerður Margrétardóttir (f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga) og Hafdís Hanna Ægisdóttir (f.h. Neytendasamtakanna). Undir lok fundar mætti Sveinn Margeirsson. Gestir fundarins voru Halla Sigrún Sigurðardóttir skrifstofustjóri hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og Halldór Björnsson frá Veðurstofunni, starfsmaður starfshóps á vegum ráðuneytisins (liður 5). Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð. 

Fundurinn var haldinn á Teams. 

Í upphafi fundar kynnti formaður breytingar á skipan ráðsins. Nýir fulltrúar eru Auður Alfa Ólafsdóttir f.h. ASÍ og Sveinn Margeirsson f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þau kynntu sig stuttlega á fundinum. Einnig var sagt frá því að Bændasamtökin munu skipa nýjan fulltrúa á næstunni í stað Sigurðar Eyþórssonar sem hefur látið af störfum hjá samtökunum. 

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.

Umsögn um viðauka við landsskipulagsstefnu

Fyrir fundinum lágu lokadrög að umsögn Loftslagsráðs um viðauka við landsskipulagsstefnu. Farið var yfir hvaða breytingar höfðu verið gerðar eftir ábendingar sem bárust frá fulltrúum í ráðinu við útgáfu sem þeim var send 30. des. sl. Fulltrúar voru almennt ánægðir með umsögnina. Ábendingar bárust á fundinum um smávægilegar breytingar auk þess sem einn fulltrúi óskaði eftir að fá tækifæri til að senda athugasemdir að fundi loknum. Umsögnin var samþykkt og ákveðið að taka mið af framkomnum athugasemdum. Formanni og varaformanni var falið að ganga frá endanlegri umsögn og senda nk. föstudag á Skipulagsstofnun. 

Kolefnishlutleysi: óvissa varðandi nettólosun frá landi 

Vísað var til samantektar Loftslagsráðs um kolefnishlutleysi sem grundvöll umræðna undir þessum dagskrárlið. Í niðurlagi samantektarinnar segir um næstu skref: „Loftslagsráð mun hafa frumkvæði að því að leyst verði úr óvissu varðandi viðmiðunarár kolefnishlutleysis hvað varðar nettólosun frá landi og hvetja til frekari rannsókna og vöktunar á losun frá landi.“ Óskað var eftir tillögum frá fulltrúum í ráðinu um hvernig best verður staðið að því að leysa úr þessari óvissu þannig að hún hamli ekki nauðsynlegu samtali meðal þjóðarinnar um framtíðarsýn um kolefnishlutlaust Ísland. 

Fulltrúar eru sammála um að þetta væri mikilvæg umræða og að Loftslagsráð ætti að beita sér í að stjórnvöld leysi úr óvissu um viðmiðunarár o.fl. Vísað var m.a. til rannsóknarrita sem gefin hafa verið út af Landbúnaðarháskóla Íslands um losun frá landi. Samþykkt var að formaður gerði tillögu að vinnulagi sem byggi á tillögum fundarins; byrjað verði á samantekt um rannsóknir og vöktun og uppgjör gagnvart Loftslagssamningnum. Ákveðið var að hefja undirbúningsvinnu við að koma á samtali sérfræðinga og Loftslagsráðs, utan hefðbundinna funda í ráðinu. 

Viðburðaröð Loftslagsráðs

Upplýst var um framgang undirbúnings viðburða sem kynntir voru á síðasta fundi. Þá var lögð fram tillaga um að taka fyrir ferðaþjónustu í viðburðaröðinni. Verkefnisstjóri kynnti helstu atriði úr samantekt um stöðu og tækifæri, hvað sé framundan hjá greininni og sagði frá samtölum við nokkra hagaðila. Þær upplýsingar styðja það með rökum að tækifæri felist í að taka ferðaþjónustu fyrir í viðburðaröðinni. Ráðið ákvað að setja ferðaþjónustuna á dagskrá í viðburðaröðinni. Jafnframt var ákveðið að óska eftir þátttöku fulltrúa í undirbúningi einstakra viðburða.  

Áhættumat, aðlögun og viðnámsþol 

Gestir fundarins undir þessum dagskrárlið voru Halla Sigrún Sigurðardóttir skrifstofustjóri loftslagsmála hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, formaður starfshóps um aðlögunarmál sem ráðherra skipaði 16. des. sl., og Halldór Björnsson frá Veðurstofunni sem er starfsmaður hópsins. 

Fyrir fundinum lá minnisblað þar sem m.a. var vísað í umræðuplagg Loftslagsráðs „Að búa sig undir breyttan heim“. Lagt var upp með að ræða þrjú atriði á fundinum:  

1. Leggja mat á stöðu aðlögunarmála hér á landi í upphafi árs 2021 m.a. í ljósi áfalla nýliðins árs.
2. Fara yfir hlutverk nýstofnaðs starfshóps um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum og hvernig ráðið getur stutt við starf hans.
3. Endurmeta þær fjórar leiðir sem tilgreindar eru í starfsáætlun ráðsins og ákveða hvernig ráðið mun láta til sín taka á þessu sviði.

Halla Sigrún og Halldór Björnsson sögðu frá hlutverki starfshópsins og vinnu hans sem er þegar hafin; gagnaöflun er farin af stað sem og samtöl við hagaðila. Hópnum er ætlað að móta stefnu og munu drög verða tilbúin um miðjan mars. Fulltrúar lýstu ánægju með að vinnan væri hafin og að stefnt væri að því að vinna hratt. Í umræðum kom fram að mikilvægt væri að skilja áhættu, beita aðlögun og auka viðnámsþol. Rætt m.a. um mikilvægi þess að vísindanefnd í loftslagsmálum verði endurskipuð og að gerðar verði sviðsmyndir eins og Loftslagsráð hefur áður lagt til. Einnig rætt um hvernig Loftslagsráð getur orðið að liði í starfinu, komið með ábendingar, rýnt stefnuna o.þ.h. 

Önnur mál

Sagt var frá því að breyta þyrfti fundartímum á nokkrum fundum á vormisseri.