Fundargerð 31. fundar Loftslagsráðs

9. desember 2020

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Guðmundur Þorbjörnsson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Maríanna Traustadóttir, Ragnar Frank Kristjánsson, Sævar Helgi Bragason, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Sigurður Loftur Thorlacius, Steingrímur Jónsson, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Árni Finnsson, Guðfinna Th Aðalgeirsdóttir og Sigurður Eyþórsson. Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð. Gestir fundarins voru Hrafnhildur Bragadóttir frá Skipulagsstofnun (liður 2), Halla Sigrún Sigurðardóttir skrifstofustjóri loftslagsmála hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu (liður 3) og Bryndís Skúladóttir frá VSÓ (liður 2).  

Fundurinn var haldinn á Teams. 

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.

Viðauki við landsskipulagsstefnu 

Loftslagsráði barst beiðni frá Skipulagsstofnun, beiðni um umsögn um tillögu að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 sem auglýst hefur verið til kynningar ásamt umhverfismati í samræmi við lög nr. 123/2010 og 105/2006 og reglugerð nr. 1001/2011. Fulltrúar höfðu fengið viðaukann fyrir fundinn. 

Hrafnhildur Bragadóttir sviðsstjóri stefnumótunar og miðlunar hjá Skipulagsstofnun kynnti gögn málsins, markmið og kynnti ferlið sem verið er að vinna eftir. Í tillögunni er sett fram sýn og stefna um skipulagsmál á landsvísu, leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga og aðra áætlanagerð um landnotkun og byggðaþróun. Landsskipulagsstefna 2015-2026 var samþykkt á Alþingi árið 2016. Umhverfis- og auðlindaráðherra óskaði árið 2018 eftir viðbótum við gildandi stefnu út frá loftslagsmálum, landslagi og lýðheilsu, auk þess að óska eftir að stefnu um skipulag haf- og strandsvæði yrði yfirfarin.  Skipulagið á að stuðla að kolefnishlutleysi og viðnámsþrótti gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga. Fram kom í máli hennar að hugtakið loftslagsmiðað skipulag nær bæði til mótvægisaðgerða og aðlögunar. Kynningartími stefnunnar er til 8. janúar 2021.  

Í umræðum var m.a. rætt um tengsl við aðrar áætlanir og stefnur, sem og mikilvægi þess að meta loftslagsáhrif áætlana. Hlutverk sveitarstjórna er talið mikilvægt en geta þeirra til að setja sig inn í loftslagsvíddina talin mismunandi eftir stærð þeirra. Rætt var um mikilvægi vals á landi undir byggð og samgöngur sem og um mat á kolefnisspori og tengsl skipulags við kolefnisbindingu, val á landi og bindingu í bergi.  

Ákveðið var að veita umsögn um viðaukann og taka tillit til tengsla við landsáætlun í skógrækt. Bryndís Skúladóttir mun vinna með ráðinu að því að rýna viðaukann og leggja grunn að áliti með vísan til fyrri umsagna ráðsins og greinargerða sem lagt verður fram til samþykktar á fundi ráðsins 13. janúar nk.

Nýr skrifstofustjóri loftslagsmála

Halla Sigrún Sigurðardóttir sem ráðin hefur verið sem skrifstofustjóri loftslagsmála í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, kom á fundinn og kynnti sig og starfið framundan á skrifstofu loftslagsmála.

Fram kom að Anna Sigurveig Ragnarsdóttir sérfræðingur á skrifstofu loftslagsmála er tengiliður við Loftslagsráð. 

Starfsreglur

Lokadrög að starfsreglur lágu fyrir fundinum til afgreiðslu og voru þær samþykktar samhljóða. 

Verkefnastjóra var falið að birta starfsreglurnar á vef ráðsins.

Starfsáætlun

Kynntar voru ítarlegri útfærslur á viðburðarröð sem er á starfsáætlun í tengslum við lið 3. Kolefnishlutleysi og aðrar skuldbindingar. Skipulagðir verði 3-4 viðburðir í vetur og vor  sbr. áherslur í starfsáætlun. Hefja skipulagningu tveggja strax og velja næstu viðfangsefni í janúar. Markmiðin voru rifjuð upp og ákveðið  að fyrsti viðburðurinn yrði helgaður kolefnishlutleysi og sá næsti sjávarútvegi. Stefnt að því að halda fyrsta fundinn fyrri hluta febrúar og þann næsta í mars.

Önnur mál

Verkefnastjóri kynnti samskiptayfirlit sem fulltrúar höfðu aðgang að fyrir fundinn. Í því er tekið saman það helsta sem gert hefur verið í kynningar- og samskiptamálum ráðsins s.s. vefur, samfélagsmiðlar, fyrirlestrar og skipulag viðburða á vegum ráðsins, erindi til ráðsins og fundir sem haldnir hafa verið. Einnig umfjöllun fjölmiðla um loftslagsmál og Loftslagsráð. Fulltrúar lýstu ánægju með það aukna gagnsæi sem felst í reglulegri upplýsingagjöf frá skrifstofu ráðsins. 

Fram kom sú hugmynd að bjóða fleiri ráðherrum eða ráðuneytisstjórum til samráðs við ráðið. Var hugmyndinni vel tekið og mun framkvæmdastjórn skoða möguleika á framkvæmd hennar. 

Kynnt var fyrirhugað samstarf við Staðlaráð um að halda vinnustofu í tengslum við ábyrga kolefnisjöfnun og vottunarmál. Tilgangurinn er að leiða saman gerendur og hagaðila í samtal til að greina þarfir og kröfur til ramma um markað um kolefniseiningar, framleiðslu, viðskipti og skráningu þeirra (sem og afskráningu). Ráðið fagnaði þessu.

Fyrir fundinum lá fundaáætlun fyrir seinni hluta starfsársins 2020-2021. Engar athugasemdir bárust við fundadagsetningar og mun verkefnisstjóri boða níu fundi á tímabilinu janúar til júní 2021.

Að lokum tilkynntu tveir fulltrúar að þeir væru að víkja úr ráðinu vegna breytinga á starfsvettvangi. Það eru þau Ragnar Frank Kristjánsson sem er annar fulltrúa sveitarfélaga og Maríanna Traustadóttir fulltrúi ASÍ. Þau tóku til máls og kvöddu ráðið. Að lokum voru þeim þökkuð góð störf í þágu ráðsins. 

Fréttir

Málþing um stjórnun loftslagsmála og hlutverk loftslagsráða

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Loftslagsráð boða til málþings um stjórnun loftslagsmála og hlutverk loftslagsráða. Á málþinginu verður fjallað á fræðilegan hátt um stjórnun loftslagsmála (e. climate governance) og hlutverk...

Breytingar á Loftslagsráði í undirbúningi hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu

Í minnisblaði sem Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti á dögunum fyrir ríkisstjórninni kemur fram að hann hyggst þróa og efla Loftslagsráð svo það geti sinnt lögbundnu...

Uppgjör Loftslagsráðs

Loftslagsráð lýkur senn fjögurra ára skipunartíma sínum. Af því tilefni lagði ráðið mat á þann árangur sem náðst hefur, eða ekki náðst, síðustu fjögur árin í viðureigninni við loftslagsvá hérlendis og gaf út í skjali er nefnist: Uppgjör...

Tölum skýrt og verum hreinskilin til að vita hvar við stöndum

Á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, í lok þessa árs verður í fyrsta skipti kynnt svokallað stöðumat heimsins, eða global stock take. Stöðumatinu er ætlað að gefa nákvæma mynd af því hvar þjóðir veraldar eru staddar þegar kemur að...

Bráðnun jökla að aukast

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar alþjóðlegrar rannsóknar hafa jöklar á Suðurskautslandinu og á Grænlandi bráðnað mun hraðar á undanförnum áratugum en áður var talið. Árleg bráðnun jöklanna hefur sexfaldast frá 1992 og sjö verstu árin hvað varðar...

Hlýnun stefnir yfir 1,5 gráðu mörkin á næstu árum

Fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 hefur nú verið kynnt. Hún hefur að geyma áætlun um þróun ríkisútgjalda og tekna, og þar eru lagðar á borðið þær áherslur sem einkenna skulu umsvif hin opinbera á komandi árum. Áætlunin er byggð á spálíkönum sem...

Áform um alþjóðlegt vöktunarnet á losun og bindingu GHL

Nýjasta talan yfir magn koltvísýrings í andrúmsloftinu, þegar þetta er skrifað, er 424,32 ppm. Sú tala þýðir að af hverjum milljónum einingum í andrúmsloftinu eru 424,32 koltvísýringur. Talan er fengin frá rannsóknarstöðinni í Mauna Loa í Hawaii,...

Góð dæmi um réttlát umskipti – Ný skýrsla

Með því að gera ráð fyrir þjálfun starfsfólks og að því sé gert kleift að beita nýrri tækni og höndla nýjar áskoranir er hægt að auka líkurnar á því að loftslagsaðgerðir skili árangri til langs tíma. Þessa ályktun má draga af nýrri skýrslu UN...

Binda einhver ríki meira kolefni en þau losa?

Alls hafa 93 lönd í heiminum, samkvæmt Climatewatch, lýst því yfir formlega að þau stefni að kolefnishlutleysi. Ísland er á meðal þeirra tuttugu landa sem hafa bundið slíkt markmið í lög, en Ísland skal verða orðið kolefnishlutlaust samkvæmt lögum...

Hitastig sjávar og loftslagsbreytingar

Meðalyfirborðshiti sjávar á jörðinni hefur aldrei mælst jafnhár og nú í apríl, eða 21,1 gráða. Þar með hefur metið verið slegið frá því í mars 2016, en þá mældist hitinn 21 gráða. Mælingar undanfarinna áratuga hafa leitt í ljós að hitastig sjávar...