Fundargerð 30. fundar Loftslagsráðs

11. nóvember 2020

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Guðmundur Þorbjörnsson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Maríanna Traustadóttir, Sævar Helgi Bragason, Jóhanna Harpa Árnadóttir,  Sigurður Loftur Thorlacius, Steingrímur Jónsson, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Árni Finnsson og Berglind Ósk Alfreðsdóttir (varamaður fyrir Sigurð Eyþórsson). Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð. Gestir fundarins voru Richard Baron framkvæmdastjóri 2050 Pathways Platform og Þórður Bogason hæstaréttarlögmaður hjá Magna. 

Fundurinn var haldinn á Teams 11. nóvember kl. 10:00-11:40. 

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.

Kolefnishlutleysi – þróun á alþjóðavettvangi nýverið

Formaður kynnti dagskrárliðinn og sagði mikið hafa gerst á þessu sviði á alþjóðavettvangi síðustu tvo mánuði. Nægir þar að nefna yfirlýsingar Kína, Japan og Suður-Kóreu um tímasetningu þeirra kolefnishlutleysis. 

Gestur fundarins, Richard Baron, framkvæmdastjóri 2050 Pathways Platform hélt kynningu og lýsti sínu mati á stöðunni á alþjóðavettvangi. Hann færði einnig fréttir af starfi 2050 Pathways Platform en Loftslagsráð er aðili að því samstarfi og greindi frá nýlegri skýrslu World Resources Institute um framsetningu markmiða um kolefnishlutleysi og kynningu á þeim. Sýndi m.a. myndrænt hvaða lönd hafa skilað inn langtímastefnumótun um kolefnishlutleysi til Parísarsamningsins eða eru með slíka stefnumótun í undirbúningi. Hann sagði frá átakinu Race to Zero sem UNFCCC stendur fyrir og hnattrænu samtali um loftslagslausnir undir merkjum Race to Zero Dialogues sem hófst mánudaginn 9. nóvember og stendur í tvær vikur. Richard fékk ýmsar spurningar og góðar umræður sköpuðust. Hann mun einnig sendar ítarefni til fróðleiks um þau mál sem komu til umfjöllunar. 

Starfsreglur

Fyrir fundinum lágu lokadrög að starfsreglum, en unnið hefur verið úr athugasemdum sem ræddar voru á síðasta fundi og bárust ráðinu. Þórður Bogason hjá Magna er ráðinu til ráðgjafar við mótun starfsreglnanna og var hann gestur fundarins og hlustaði á umræðu og svaraði spurningum sem til hans var beint. Búið er að kynna lokadrögin fyrir varafulltrúum. 

Umræður voru um að skerpa þyrfti á og breyta atriðum í texta varðandi starfshætti og þagnar- og trúnaðarskyldu. Var verkefnisstjóra falið að vinna úr þeim athugasemdum með Þórði og formanni. Endanleg drög verða send fulltrúum tímanlega fyrir næsta fund og stefnt að afgreiðslu reglnanna á þeim fundi.

Önnur mál

Sagt var frá vel heppnuðum málfundi undir yfirskriftinni Loftslagsvænar framfarir í kjölfar COVID-19 sem haldinn var miðvikudaginn 10. nóvember í samvinnu við breska sendiráðið á Íslandi. Fundurinn heppnaðist vel og fylgdist mikill fjöldi með honum. Fundinum var m.a. streymt á Vísi.is. Myndbönd frá fundinum verða gerð aðgengileg á vef og samfélagsmiðlum Loftslagsráðs. Þá sagði verkefnisstjóri frá því sem áunnist hefur varðandi miðlun og samskipti.