Fundargerð 29. fundar Loftslagsráðs

28. október 2020

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Guðmundur Þorbjörnsson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Maríanna Traustadóttir, Sævar Helgi Bragason, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Sigurður Eyþórsson, Sigurður Thorlacius, Steingrímur Jónsson, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir og Árni Finnsson. Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð. Gestur fundarins var Þröstur Eysteinsson frá Skógræktinni. 

Fundurinn var haldinn á Teams miðvikudaginn 28. október kl. 10-12. 

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.

Kynning á landsáætlun í skógrækt

Loftslagsráði barst erindi frá Skógræktinni þann 20.oktbóber sl. í tengslum við samráðsferli við gerð landsáætlunar í skógrækt. Skógræktarstjóra Þresti Eysteinssyni var boðið að koma á fund ráðsins og kynna samráð um áætlunina. 

Markmið landsáætlunar í skógrækt er að draga stefnu Íslendinga í skógrækt saman og móta aðgerðir til að ná henni fram. Skógrækt tengist loftslagsmálum sífellt meira og er það ástæða þess að leitað var til Loftslagsráðs í þessu samráði. Þröstur var m.a. spurður um tengsl áætlunarinnar við landsskipulagsstefnu og sagði hann mikilvægt að ekkert ósamræmi komi upp.  Einnig var spurt hvort viðhorf Íslendinga til skógræktar hafi verið kannað og vitnaði hann í  viðhorfskannanir sem sýna að það er mjög jákvætt. 

Formaður lagði til að umræða um landsáætlun í skógrækt færi fram síðar og að fulltrúar fengju erindi Skógræktarinnar sent. Það var samþykkt. 

Starfsreglur

Fyrir fundinum lágu fyrstu drög að starfsreglum. Formaður kynnti að á þessum fundi gæfist fulltrúum tækifæri til að bregðast við og benda á atriði sem þeir telja að þurfi að breyta eða vinna frekar í að móta. Athugasemdum verður síðan safnað saman og unnið úr þeim með lögfræðingi sem er til ráðgjafar við mótun starfsreglnanna. Þá nefndi formaður að þessi drög hafi verið send ráðuneytinu og viðbrögð þess liggja nú fyrir. 

Meðal þess sem kom fram í máli fulltrúanna var hvort varafulltrúar komi að mótun á reglunum og/eða fái upplýsingar um þær, upplýsingar um skipan í ráðið, afgreiðsla mála og ákvarðanir, hvernig fulltrúar geti unnið með upplýsingar sem lagðar eru fram í ráðinu í baklandi sínu og samfélagsábyrgð og siðferði. Varafulltrúar munu fá næstu útgáfu til yfirlestrar. 

Umræða um orkustefnu

Vísað var í kynningu á nýrri orkustefnu á síðasta fundi. Nú var lagt upp með eftirfarandi spurningar í umræðunni: Hvaða tækifæri felast í orkustefnunni? Hvernig getur Loftslagsráð beitt sér? 

Samstaða var um að það fælust tækifæri fyrir Loftslagsráð í þessari stefnumörkun og stóð þar hæst útfösun á jarðefnaeldsneyti. Loftslagsráð hefur kallað á áætlanagerð í þessu sambandi. Einnig felast tækifæri í umræðu um orkulausnir til framtíðar, loftslagsáhrif ýmissa orkugjafa, grænar orkulausnir og orkuöryggi. Tillaga kom fram um að Loftslagsráð sendi erindi til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Orkustofnunar um að hafist verði handa um gerð áætlunar um útfösun notkun á jarðefnaeldsneyti. Samþykkt var að hefja undirbúning að slíku erindi.  

Samskipta- og upplýsingamál

Verkefnastjóri Guðný kynnti það helsta á vettvangi samskiptamála, nýja facebook síðu, LinkedIn síðu og breytingar á vefsíðu Loftslagsráðs. Sagði einnig nánar frá málfundi sem verður 10. nóv. nk. kl. 14.30-16.00 og framgangi annarra mál.

Önnur mál

Formaður kynnti hlutverk Grænvangs og setu sína í stjórn þess samstarfsvettvangs. Þar situr hann að ósk forsætisráðherra. Hann kynnti einnig nýorðnar breytingar á skipan stjórnarinnar. 

Formaður vakti athygli fulltrúa á frumvarpi til laga um breytingar á lögum um loftslagsmál sem lagt var fram 13. október sl. Verkefnisstjóri sagði frá helstu breytingum sem felast í frumvarpinu. Einnig var bent á að á frumvarp um kolefnishlutleysi er væntanlegt í janúar samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.