Fundargerð 28. fundar Loftslagsráðs

14. október 2020

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Guðmundur Þorbjörnsson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Maríanna Traustadóttir, Sævar Helgi Bragason, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Sigurður Eyþórsson, Sigurður Thorlacius, Ragnar Frank Kristjánsson, Steingrímur Jónsson, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir og Kristín Vala Ragnarsdóttir varamaður fyrir Árna Finnsson. Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð.  

Fundurinn var haldinn á Teams kl. 10-12 miðvikudaginn 14. oktbóber.  

Fundarritari var Guðný Káradóttir.

Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.

Starfsáætlun 2020-2021  

Undir þessum lið voru til umfjöllunar þrjú atriði: álit um ábyrga kolefnisjöfnun, fyrstu drög að starfsáætlun og samskiptaáætlun.

Formaður kynnti drög að áliti um ábyrga kolefnisjöfnun sem lá fyrir fundinum. Almenn ánægja var með þessi drög. Í umræðum komu fram breytingatillögur á texta. Samþykkt var að formaður fengi umboð til að færa inn þær breytingar sem voru samþykktar og ganga frá endanlegu áliti. Einnig var samþykkt að senda álitið til hagaðila sem tóku þátt í viðburði Loftslagsráðs um kolefnisjöfnun í mars 2020 og á neytendastofu. Einnig að koma álitinu á framfæri við fjölmiðla.

Fyrir fundinum lágu drög að starfsáætlun sem formaður kynnti. Í umræðum komu fram tillögur að breytingu á orðalagi og viðbótum. Formaður lagði til að hann og starfsmaður ráðsins fengju umboð fundarins til að uppfæra og birta starfsáætlun dagsetta 14.október, með þeim breytingum sem fundurinn lagði til. Það var samþykkt og einnig að endurskoða hana innan starfsársins, upp úr áramótum.

Undir liðnum samskiptaáætlun fór verkefnisstjóri yfir helstu atriðin í áætluninni sem lýst er í skjali sem lá fyrir fundinum; markmið og aðgerðir. Meðal annars greindi hún frá framgangi í undirbúningi fundar 10. nóvember sem kynnir loftslagsráðstefnuna í Glasgow (COP26) sem haldin verður 2021 sem og fyrstu skrefunum á samfélagsmiðlum.

Þá fór formaður yfir lýsingu á markmiðum og aðferðafræði við viðburðaröðina sem tengist skuldbindingum til 2030. Einnig lagði hann fram tillögur um viðfangsefni og komu fulltrúar með fleiri hugmyndir á fundinum. Leitað verður til fagaðila við undirbúning. Fundurinn samþykkti að vinna áfram út frá þeim hugmyndum sem kynntar voru og ræddar.

Önnur mál

Sagt var frá vinnu við mótun á starfsreglum og verða fyrstu drög lögð fram á næsta fundi.

Einnig var sagt frá þátttöku formanns í vel heppnuðum fundi Stjórnvísi um loftslagsmál, Stóra myndin, stefna og aðgerðir, sem haldinn var 9. október