Fundargerð 27. fundar Loftslagsráðs

16. september 2020

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Guðmundur Þorbjörnsson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Maríanna Traustadóttir, Sævar Helgi Bragason, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Sigurður Eyþórsson, Sigurður Thorlacius, Árni Finnsson, Steingrímur Jónsson, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir. Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð.  Guðmundur Þorbjörnsson var boðinn velkominn en hann sat sinn fyrsta fund í Loftslagsráði.

Fundurinn var haldinn í Háhyrnu, Skuggasundi 3. 

Fundarritari var Guðný Káradóttir.

Fundargerð síðaar fundar

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt með breytingum.

Starfsreglur fyrir Loftslagsráð

Formaður lagði til ákveðið ferli og verklag við mótun starfsreglna. Fyrsti áfangi var umræða á síðasta fundi, nú er verið að ræða efni þeirra, næst verður innihald og orðalag rætt og stefnt að því að samþykkja starfsreglurnar fyrir lok ársins. Þetta var samþykkt.

Fyrir fundinum lá samantekt með tillögu að efnisyfirliti og efnisatriðum í starfsreglum Loftslagsráðs sem verkefnastjóri kynnti. Starfsreglum er ætlað að setja umgjörð og viðmið um starfsemi Loftslagsráðs. Markmið þeirra er að stuðla að trausti og trúnaði í samskiptum og við meðferð upplýsinga, sem og að stuðla að gagnsæi í starfinu. Reglunum er ætlað að gilda um starf fulltrúa í Loftslagsráði og starfsfólk.

Fulltrúar voru sammála um að hafa reglurnar einfaldar í byrjun og skýrar, en hægt er að endurskoða reglulega og bæta við þær. Í umfjöllun um meðferð upplýsinga og stjórnarhætti kom fram þörf fulltrúa í ráðinu fyrir að geta kynnt upplýsingar í baklandinu. Einnig kom ábending um að hafa inni ákvæði í reglunum um hvernig verklag er viðhaft í kringum ákvæði í lögunum um verkefni Loftslagsráðs. Mikilvægt talið að kveða skýrt á um hverjir eru talsmenn ráðsins út á við. Rætt um þagnar- og trúnaðarskyldu og þörf á að tryggja líka trúnað verktaka sem vinna fyrir ráðið. Ábending kom fram um að vísindin séu útgangspunktur í starfinu, auk lagarammans. Einnig var rætt um hversu miklar kröfur eru gerðar til fulltrúa í ráðinu, um hæfni og að vera óháður hagaðilum, ekki megi þiggja gjafir o.fl.

Samþykkt var að fela verkefnisstjóra að gera fyrstu textadrög að starfsreglum, sem byggja á umræðum á fundunum og tillögum, og leggja fram fyrir næsta fund. 

Starfsáætlun 2020-2021  

Formaður kynnti að á þessum fundi væru tvö atriði rædd; fundaröð Loftslagsráðs og ábyrg kolefnisjöfnun.

Verkefnisstjóri rifjaði upp atriði úr samskiptastefnu og sagði frá helstu verkefnum á sviði greiningar og miðlunar. Þá var kynnt tillaga um viðburði, annars vegar fundarröð um markmið og aðgerðaáætlun til 2030 og hins vegar samstarf við breska sendiráðið á Íslandi um að halda viðburð til að kynna COP26 sem haldið verður í Glasgow í nóvember 2021. Samþykkt var að halda áfram undirbúningi við þessa viðburði.

Formaður rifjaði upp umfjöllun og álit Loftslagsráðs um ábyrga kolefnisjöfnun.  Rætt var um hvernig mál hafi þróast síðan í vor. Fundurinn samþykkti að veita formanni umboð til að gera drög að áliti um ábyrga kolefnisjöfnun og bera það undir næsta fund.

Þá var rætt um framgang við mótun starfsáætlunar og mun verkefnisstjóri vinna heildstæð drög að starfsáætlun sem lögð verða fyrir næsta fund.  

Önnur mál

Engin önnur atiriði undir önnur mál.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið