Fundargerð 26. fundar Loftslagsráðs

26. ágúst 2020

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Maríanna Traustadóttir, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Sigurður Eyþórsson, Gunnar Dofri Ólafsson, Sigurður Thorlacius, Árni Finnsson, Steingrímur Jónsson, Pétur Blöndal varamaður fyrir Hildi Hauksdóttur og Páll Björgvin Guðmundsson varamaður fyrir Hrönn Hrafnsdóttur (vék af fundi kl. 11).   Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð.  

Fundurinn var haldinn að Skúlagötu 4, í húsakynnum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.  

Fundarritari var Guðný Káradóttir.

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.

Starfsreglur fyrir Loftslagsráð

Fyrir fundinum lá samantekt sem verkefnastjóri kynnti. Þar var m.a. litið til hugsanlegrar hliðstæðu við hluta af starfsreglum Fjármálaráðs. Markmið verklags- eða starfsreglna væri að greiða fyrir upplýsingaflæði milli aðila og stuðla að trausti og trúnaði í samskiptum, auðvelda ákvarðanatöku og afgreiðslu mála sem berast Loftslagsráði.  

Formaður opnaði umræðu um vinnulag Loftslagsráðs í ljósi reynslunnar af fyrstu tveimur starfsárum ráðsins. Almenn samstaða var um að nú væri tímabært að móta  slíkar starfsreglur. Rætt var um aðgengi að gögnum og meðferð þeirra, notkun á Teams og mikilvægi trúnaðar í ráðinu. Verkefnisstjóri er að endurskipuleggja Teams svæðið, aðgengi að skjölum og flokkun og merkingum.  

Samþykkt var að fela verkefnisstjóra að vinna málið áfram; gera frumdrög að verklagsreglum, með efnisyfirliti, og taka mið af því sem fram kom á fundinum. Einnig að líta til þess hvernig loftslagsráð erlendis haga slíkum reglum, einkum á Norðurlöndunum. Stefnt er að því að starfsreglur liggi fyrir í desember. 

Starfsáætlun 2020-2021  

Verkefnastjóri  kynnti vinnuplagg um mótun starfsáætlunar 2020-2021 sem lá fyrir fundinum. Í því var m.a. vísað til síðustu starfsáætlunar, samantekt um árangur af starfi síðasta starfsárs, nýrrar aðgerðaáætlunar, breytinga á lagalegu og stjórnsýslulegu umhverfi, sem og stöðu og þróunar í loftslagsmálum á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, þ.m.t. vísindi og COVID. Samantektinni er ætlað að vera kveikja að umræðu fulltrúa í ráðinu um viðfangsefni og áherslur í starfinu.  

Formaður bað alla að leggja sitt af mörkum við mótun starfsáætlunar og koma með hugmyndir og sjónarmið sem munu nýtast við gerð starfsáætlunar og tillögur um ákveðin viðfangsefni. Varpaði upp spurningunni um hvaða árangri ráðið vildi hafa náð að starfsárinu loknu.  

Flestir nefndu aðgerðaáætlunina og mikilvægi þess að fylgja eftir álitsgerðum og sinna aðhalds- og ráðgjafahlutverki. Hugmynd um eftirfylgni – halda viðburði í tengslum við ákveðna kafla í áætluninni, kanna stöðu, hvetja og veita aðhald og eftirfylgni. Bent á að aðgerðir sem eru í mótun, s.s. sem tengjast sjávarútvegi, landbúnaði og þungaflutningum, skapi tækifæri fyrir gagnlega aðkomu Loftslagsráðs.

Kolefnishlutleysi 2040; hvað þýðir það? Stuðla að því að þeirri spurningu verði svarað, hvað stjórnvöld eigi við. Minnt á tillögur Loftslagsráðs í samantekt um þetta efni, m.a. um að lögfesta markmið um kolefnishlutleysi. Ítrekað var það álit Loftslagsráðs að markmið um nettólosun 2030, sem liggur til grundvallar endurskoðaðri aðgerðaáætlun stjórnvalda, gangi ekki nægjanlega langt í átt að kolefnishlutleysi sem þarf að verða að raunveruleika eigi síðar en 2040.

Þörf var talin á að fylgja af festu eftir tillögum í skýrslu Loftslagsráðs um framtíðarskipulag stjórnsýslu loftslagsmála. Vakin var athygli á að nokkur atriði hafi þegar verið framkvæmd af hálfu stjórnvalda; skrifstofa um loftslagsmál verið stofnuð innan umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, ríkisstjórnin hefur samþykkt að stofna ráðherranefnd um loftslagsmál og að tryggja reglulegt samráð milli ráðuneytisstjóra.  

Vinna áfram með ábyrga kolefnisjöfnun, einkum í tengslum við vottun; hvaða vottun eigi að miða við, hvaða vottun samþykkja stjórnvöld, hver ber ábyrgð á að vottunarmál og miðlæg skráning kolefniseininga komist í skýrari farveg.  

Margir nefndu vísindin og alþjóðlega þróun; mikilvægt í allri nálgun að hafa í huga að loftslagsmál eru alþjóðlegt viðfangsefni. Margt framundan á þeim vettvangi, í vísindastarfi á vettvangi IPCC og alþjóðlegu samráði og viðburðum (UNFCCC COP26 í nóvember 2021).  

Afleiðingar af COVID í tengslum við loftslagsmál, jafnréttismál og réttlát umskipti. Áhrif COVID eru enn að koma í ljós. Áhugavert að nálgast áskoranir út frá hugmyndum um loftslagsvæna endurreisn; endurbyggja á loftslagsvænan hátt. Þar getur Loftslagsráð haft hlutverk. Fyrir liggur að eftir er að meta áhrif COVID á loftslagsmál og önnur samfélagsleg viðfangsefni. Bent var á hættuna á að ríki segi sig frá alþjóðasáttmálum og skuldbindingum. Útlit fyrir varnarbaráttu þegar kemur að fjármagni í loftslagsmál. Þau eru nú í vissri samkeppni við COVID og því þarf að halda loftslagsmálum á lofti í umræðu og stefnumótun af ýmsu tagi. 

Þá voru nefnd atriði eins og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og réttlát umskipti; skoða áhrif loftslagsbreytinga á ólíka hópa samfélagsins, efla umræðu um og þekkingu á þessum málefnum. Einnig tillaga Loftslagsráðs um að unnin verði áætlun um útfösun á jarðefnaeldsneyti. 

Tillaga kom fram um að fundaráætlun fyrir allt starfsárið lægi fyrir fljótt og hvaða efni verði tekið fyrir á hverjum fundi. Reglulegir viðburðir taldir mikilvægir og að gera áætlun fram í tímann.  

Velt var upp spurningunni um hvernig meta ætti árangur af starfi Loftslagsráðs. Bent var á að Loftslagsráð hafi það hlutverk að rýna aðgerðaáætlun stjórnvalda og beri mikla ábyrgð sem rýnir. Mikilvægt að svara því hverju ráðið vill koma til leiðar og hafa mælikvarða til að skoða árangur. 

Tillaga formanns var samþykkt um að fela verkefnastjóra að vinna úr samtalinu og leggja grunn að drögum að starfsáætlun sem ráðið vinnur áfram með. Jafnframt að skoða hvaða vinnu þarf að láta utanaðkomandi vinna fyrir ráðið.  

Önnur mál

Gunnar Dofri Ólafsson, fulltrúi Viðskiptaráðs Íslands í ráðinu, tilkynnti um breytingar. Hann mun láta af störfum í ráðinu og Guðmundur Þorbjörnsson framkvæmdastjóri Eflu mun taka sæti hans frá og með næsta fundi. Honum voru þökkuð góð störf og óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.  

Verkefnastjóri  kynnti nýjan vef Loftslagsráðs sem opnaður var í júlí sl. Formaður hvatti ráðsmenn til að rýna vefinn og koma með ábendingar um efni og framsetningu þess.  

Fleira var ekki rætt og fundi slitið