Fundargerð 24. fundar Loftslagsráðs

29. apríl og 6. maí 2020

Fundurinn var haldinn í fjarfundabúnaði í ljósi Covid-19 en Halldór og Guðný voru í fundaraðstöðu í Skuggasundi.

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Maríanna Traustadóttir, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Gunnar Dofri Ólafsson, Sigurður Thorlacius, Árni Finnsson, Steingrímur Jónsson, Hildur Hauksdóttir, Sigurður Eyþórsson og Guðný Káradóttir. Brynhildur Davíðsdóttir og Hildur Hauksdóttir komu seinna inn á fundinn og Sigurður Eyþórsson vék af fundi kl. 11. 

Halldór opnaði fundinn, sagði frá nýrri aðstöðu Loftslagsráðs og kynnti dagskrána.  

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð síðustu funda var samþykkt.

Samskiptastefna 

Fyrir fundinum lá greinargerð dagsett 28. apríl 2020 frá Atón JL um samskiptastefnu ásamt viðaukum með fundafrásögn frá stefnumótunarfundi 15. janúar 2020 og greiningu Atón JL á fjölmiðlaumfjöllun og viðhorfi almennings til loftslagsmála.

Halldór kynnti viðfangsefnið og nálgunina í umfjölluninni á fundinum. Sagði að ekki væri verið að leggja til að taka endanlegar ákvarðanir heldur að setja lokapunktinn við tiltekinn áfanga – vinnuna með Atón JL – og leggja grunn að framkvæmd stefnunnar sem er næsti áfangi og jafnframt lykilhlutverk verkefnastjóra.

Guðný sagði frá nálgun sinni á verkefnið framundan. Hún er að rýna gögn og upplýsingar og kynnti útdrátt úr greinargerðinni með meginatriðum sem vinnan mun byggja á. Sagði að farið yrði í frekara rýni á markhópum, útfærslur hugmynda, forgangsröðun og gerð heildaráætlunar um samskipti. Nefndi einnig að vefsíða væri eitt af forgangsverkefnum næstu vikna og í sumar.

Halldór óskaði eftir umsögn fundarmanna um samskiptastefnuna, samskiptaleiðir og hugmyndir um aðgerðir. Almenn ánægja var með greinargerðina og var það mat fundarmanna að hún muni nýtast vel í framhaldinu. Fjölmargar hugmyndir og ábendingar komu fram í umræðunni; rætt um sjálfstæði Loftslagsráð og samstarf (við hverja og á hvaða forsendum), fræðsluhlutverk, viðburðir nauðsynlegir, vefsíða forgangsmál, loftslagsdagatal á vef (með viðburðum annarra líka, innanlands og erlendis), bein samskipti og nýta málefnin sem Loftslagsráð er ábyrgt fyrir inn í samskiptaáætlun. Þessar hugmyndir sem fram komu verða nýttar, ásamt fyrirliggjandi gögnum, í framhaldsvinnunni í sumar og við að leggja drög að áherslum og starfsáætlun fyrir haustið.

Verkefnastjóra var falið að undirbúa áætlun um verkefni og samskipti undir leiðsögn formanns og varaformanns þar til ráðið kemur aftur saman.

Önnur mál

Stjórnsýsla loftslagsmála

  • Halldór kynnti framgang vinnunnar við stjórnsýsluúttektina sem kynnt var á síðasta fundi Loftslagsráðs og áætlanir um kynningu á fyrirliggjandi drögum fyrir þeim sem tekin voru viðtöl við. Þá stendur til að Loftslagsráð muni afgreiða stjórnsýsluúttektina endanlega á fundi ráðsins í júní. Endanleg útgáfa verður gerð aðgengileg fulltrúum í ráðinu með góðum fyrirvara fyrir fundinn. Þá verður rætt hvernig úttektin verður gerð opinber og kynnt – formaður og varaformaður munu koma með tillögu um það.

Hagræn stjórntæki

  • Brynhildur greindi frá vinnu ráðgjafa við úttekt og greiningu á hagrænum stjórntækjum loftslagsmála. Um er að ræða stutt yfirlit yfir hagræn stjórntæki og kolefnishagkerfið þar sem losun er sett í samhengi við virðisauka. Verkefnið felur einnig í sér samantekt á tekjum og gjöldum ríkisins tengdum hagrænum stjórntækjum sem beitt er í samhengi loftslagsmála. Komin eru frumdrög sem rædd hafa verið í undirhópi ráðsins sem myndaður var til að fylgja þessu verkefni eftir, en enn eru í vinnslu ákveðin atriði. Þegar endanleg drög liggja fyrir, verða þau lögð fyrir ráðið á fundi 10.júní ásamt tillögu hópsins að ályktun til samþykktar. Fulltrúum í ráðinu býðst að taka þátt í undirhópnum fram að því.

Næsti fundur

  • Halldór sagði frá því að stefnt sé að því að hittast hjá Loftslagsráði í Skuggasundi á fundinum 10. júní. Það verður kynnt nánar þegar endurskoðaðar COVID reglur liggja fyrir.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið