Fundargerð 20. fundar Loftslagsráðs

5. febrúar 2020

Mætt: Ragnhildur Freysteinsdóttir, H, Guðfinna, Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Ragnar Frank Kristjánsson, Sigrður Thorlacius, Árni Finnsson, Gunnar Dorfi Ólafsson, Jóhanna Harpa Árnadóttir.  Varafulltrúar: Heimir Janusarson f.h. ASÍ, Pétur Blöndal f.h. SA, Berglind Ósk Alfreðsdóttir f.h. BÍ, Helga Ögmundardóttir f.h. HÍ. 

Anna Sigurveig, starfsmaður Loftslagsráðs, sat fundinn og ritaði fundargerð.

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð seinasta fundar var samþykkt.

Innviðir kolefnisjöfnunar

Umræðuplagg Environice um kolefnisjöfnun

 • Stefán Gíslason hefur unnið skjalið ásamt Birnu Hallsdóttur að beiðni Loftslagsráðs. Umræðuplaggið var gert aðgengilegt fyrir fundinn og kom Stefán fyrir ráðið til að kynna plaggið. 
 • Umræða um kolefnisjöfnun og kolefnishlutleysi hefur komið reglulega upp á fundum ráðsins og ákveðið var að taka málið til umfjöllunar. Margt er óljóst varðandi kolefnisjöfnun og hvernig þeir aðilar sem taka að sér kolefnisjöfnun hérlendis haga henni. Ákveðið var að fá ráðgjafafyrirtækið Environice til að vinna greiningu á stöðunni til að auðvelda ráðinu að fjalla um málið og átta sig á stöðunni.  
 • Tilgangur vinnunnar var m.a. að fjalla um kolefnisjöfnun og hvernig nýta má hana á ábyrgan hátt sem hluta af viðbrögðum við loftslagsvá. Innviðir (þ.m.t. markaður fyrir kolefnisjöfnun) þróast hratt og brýnt að formgera þau skilyrði sem markaðurinn þarf að uppfylla til að tryggja áreiðanleika, gagnsæi og heilbrigt samkeppnisumhverfi. Í skjalinu gefur Environice yfirlit yfir helstu innviði en ekki nákvæma greiningu á einstökum þáttum. 
 • Kom m.a. fram:
  • Yfirlit yfir helstu hugtök.
  • Reglur um útreikninga á losun GHL (e. GHG protocols).
  • Mikilvægt er að draga úr losun eins og unnt en hægt er að auka bindingu vegna þeirrar losunar sem ekki er unnt að draga úr með aðgerðum.
  • Farið var yfir lágmarkskröfur til kolefniseininga en þær skulu vera, raunverulegar, mælanlegar, varandlegar, viðbót við það sem ella hefði orðið, einnota, lekafríar og staðfestar (vottaðar) af óháðum aðila.
  • Kolefniseiningar ættu að vera gefnar út og skráðar í samræmi við árangur verkefna.
  • Innviðir innanlands lausir í sér og í örri þróun
  • Engin eiginleg vottun skv. óháðum staðli
  • Ólíklegt að þeir sem reiða sig á eigin yfirlýsingar eða heimatilbúna vottun endist lengi á markaði, nema þá á e-s konar B-markaði
  • Vottun skv. staðli sem ICROA viðurkennir besta fáanlega tryggingin fyrir trúverðugleika.
 • Megintillaga umræðuplaggs:  Að íslensk stjórnvöld hafi frumkvæði að því að styrkja innviði kolefnisjöfnunar hérlendis með því að: 
  • Vekja athygli á mikilvægi trúverðugrar vottunar 
  • Greiða götu íslenskra aðila sem vilja afla sér slíkrar vottunar 
  • Beina eigin viðskiptum til aðila með viðurkennda vottun

Næstu skref:

Ákveðið var að fá gerendur að borðinu í samtal um kolefnisjöfnun og vottanir. Loftslagsráð myndi bjóða fulltrúum Skógræktar, Landgræðsluverkefna ásamt fulltrúum UST, UAR o.fl. aðila á fund þar sem rætt yrði:

 • Aðferðafræði við mat á hraða bindingar og útgáfu kolefniseininga 
 • Mat á varanleika bindingar og ráðstafanir til að vega upp viðsnúning  
 • Vottun á verkefnum, mælingum og vinnuferlum við kolefnisjöfnun 
 • Skráning á kolefniseiningum (nýskráning, eignarhald, viðskipti, afskráning) 

Mikilvægt er að tryggja að innviðir séu góðir því þetta snýst um ábyrgð, gagnsæi, trúverðugleika og góða viðskiptahætti sem er nauðsynlegt til að tryggja að raunverulegur árangur náist í verkefnum er tengjast landnotkun.

Aðgerðaáætlun

Kynning frá umhverfisráðuneyti um stöðu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.  elga Barðadóttir, sérfræðingur á skrifstofu hafs, vatns og loftslags hjá UAR kynnir stöðuna. 

 • Unnið er að annarri útgáfu aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum.
 • Dreift var lista yfir aðgerðirnar eins og þær líta út núna en hann gæti breyst.
 • Hlutverk Loftslagsráðs er að rýna áætlanir á undirbúningsstigi og finna þarf réttan takt hvernig best er að koma því við. Þetta er í fyrsta skiptið sem það er gert.
 • Verkefnið fram undan er að draga úr losun og orka er stór hluti í losun Íslands, þar er mest losun frá samgöngum og fiskiskipum – lögð er áhersla á þá þætti þar sem mest er losunin.
 • Margar aðgerðir hafa verið útfærðar betur, sumar þeirra eru næstum óbreyttar einnig eru nýjar aðgerðir.
 • Verið er að meta kostnað og greina áhrif á losun. Unnið með greiningar frá ráðgjöfum, s.s. greining á f-gösum o.s.frv. Flókið er að leggja mat á árangurinn og það hefur m.a. tekið tíma að afla gagna til að byggja útreikninga á.
 • Brynhildur Davíðsdóttir hefur verið fengin til að skoða gögnin og meta árangur með UST og UAR.
 • Verður útgefið plagg, en jafnframt verður sett verður upp vefsíða – einfaldur og aðgengilegur háttur til að vinna með og auðvelda uppfærslu aðgerða án þess að gefa út nýja aðgerð. 
 • Yfirflokkarnir hafa breyst til að auðvelda samanburð við bókhald Umhverfisstofnunar og horft er á allt samfélagið í áætluninni. 
 • Aðgerðir eru mislangt komnar í framkvæmd, sumt er framtíðarmúsík, annað er verið að vinna nú þegar. 

Fram undan er:

 • Yfirlestur í ráðuneytunum. Í kjölfar fundar í næstu viku verður hægt að meta stöðu áætlunarinnar og hvenær tímabært sé að senda hana til rýningar í ráðinu en áður en það getur gerst þarf pólitískt samþykki að liggja fyrir.
 • Nákvæmt tímaplan liggur ekki fyrir en mjög mikil pressa er frá pólitíkinni og stefnt er að því að hún komi út í mars. 
 • Ljóst er að tími til rýningar verður ekki mjög mikill.

Önnur mál

Fræðslu og upplýsingahópur 

 • Hópurinn mun hittast á föstudag með Auði Ingólfsdóttur sem kemur til að koma að útgáfu fræðsluefnis. 

Ívilnanahópur 

 • Brynhildur Davíðsdóttir mun vinna með hópnum. Von er á drögum að greiningu á hagrænum stjórntækjum og rétt er að hópurinn taki snúning á drögunum þegar þau eru tilbúim.

Frumvarp um breytingu á loftslagslögum

 • Alþingi er að fjalla um frumvarp um breytingu á lögum um loftslagsmál sem lýtur að breytingu á hlutverki Loftslagsráðs. Umsagnarfrestur rennur út á morgun. Þeir sem tilnefna tjái sig við Alþingi. Ekki er rétt að ráðið í heild taki afstöðu. 

Kolefnishlutleysi 

 • Í framhaldi umræðu á seinasta fundi, tillögur til breytinga á álitinu. Athugasemdir bárust frá Náttúruverndarsamtökum Íslands. Lagt var til að formaður og varaformaður fundi með fulltrúa samtakanna og í framhaldinu komi ákvörðun um hvort að ráðið geti skilað sameiginlegu áliti.  
 • Lagt er til að eftir samtalið verði lagðar til breytingar á skjalinu sem sendar verði fyrir ráðið. 

Fleira var ekki rætt og fundi slitið.