Fundargerð 2. fundar Loftslagsráðs

14. september 2018

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Sigurður Ingi Friðleifsson, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Sigurður Eyþórsson, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Steingrímur Jónsson, Árni Finnsson, Ragnhildur Freysteinsdóttir og Bergþóra Halldórsdóttir (staðgengill Péturs Reimarsonar).

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018 – 2030

Umhverfis- og auðlindaráðherra kom á fund ráðsins, gerði grein fyrir nýkynntri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og lýsti sinni sýn á næstu skref og hvernig Loftslagsráð getur best stuðlað að árangursríkri framkvæmd. Með honum var Hugi Ólafsson, formaður verkefnisstjórnar innan Stjórnarráðsins sem undirbjó ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Eftir samtalið við ráðherra ræddi ráðið hvernig það ætti að taka á því verkefni að rýna áætlunina og var þar litið til e.f. þátta:

  • Markmið með rýningu, um hvað á hún að snúast?
  • Hvaða aðgerðir vantar? Hvernig er hægt að gera aðgerðirnar markvissari?
  • Horfa þvert á aðgerðirnar, hlutir sem hafa áhrif á allt, t.d. fræðsla?
  • Hvað getur ráðið gert til að stuðla að frekari árangri t.d. með því að virkja almennan vilja? Ráðið komst ekki að niðurstöðu eftir þessa fyrstu umræðu og ákvað að ræða þetta frekar á næsta fundi.

Mótun annarra þátta starfsáætlunar

Ráðið fór yfir verkefni ráðsins eins og þau eru tilgreind í skipununarbréfinu og ræddi næstu skref.

Ákveðið að taka beiðni um tillögur um framtíðarfyrirkomulag stjórnsýslu loftslagsmála fyrir á næsta fundi. Ráðherra féllst á beiðni ráðsins um frest svo að ráðrúm gefist til að gera þessu verkefni skil. Ákveðið að fá sérfróðan aðila til taka saman yfirlit um núverandi stöðu til að auðvelda ráðinu umfjöllum um hvað betur mætti fara. Formaður óskaði eftir ábendingum frá fulltrúum í ráðinu um hver gæti unnið slíkt.

Forgangsatriði að ná betur utan um það verkefni ráðsins að veita markvissa ráðgjöf um hvernig efla má viðnámsþol gagnvart afleiðingum veðurfarsbreytinga. Fyrsta skrefið að fá betra yfirlit yfir stöðuna í dag bæði hvað varðar ríkisvaldið, sveitarfélög, atvinnulífið og heimilin. Áhugi á samtali við Veðurstofustjóra og að starfsmanni ráðsins verði falið að vinna yfirlit yfir stöðu mála. Rætt hvort Hrönn Hrafnsdóttir gæti kynnt ráðinu stöðuna hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum.

Rætt var hvernig ráðið getur nálgast það stóra verkefni að vinna greinargerð um kolefnisshlutleysi 2040 og hvernig sé unnt að ná því. Samstaða um að fyrsta skrefið sé að skoða hvað átt er við varðandi kolefnishlutleysi og hvaða valkostir eru í því hvernig markmiðið verður betur skilgreint og afmarkað. Einnig mikilvægt að kynna sér hvernig aðrar þjóðir eru að nálgast þetta.

Mikill áhugi er á að meta stöðuna gagnvart loftslagssvænni tækni og hvernig Loftslagssjóður getur best náð árangri.

Samráð

Formaður greindi frá fundi sem hann átti með Ungmennaráði heimsmarkmiðanna. Þau hafa mikinn áhuga á samráði og samstarfi varðandi fræðslu til ungmenna. Þau hafa áhuga á að hitta Loftslagsráð 1. desember þegar þau koma saman.

Lagt til að komið verði á samráði við Vísinda-og tækniráð og Rannís.

Fundaáætlun og vinnulag

  1. Tímasetning og fyrirkomulag funda. Þriðji fundurinn verður 2. nóvember frá 9-12. Boðið verður á fjarþáttöku í öllum fundum. Full þörf talin á þriggja tíma fundum enn um sinn. Auður mun kanna tímasetningu fyrir 4. og 5. fund í nóvember og f.h. desember.
  2. Staðgenglar. Samstaða um að fulltrúar geti valið staðgengla ef þeir hafa ekki tök á þátttöku beint eða með fjarfundabúnaði.

Önnur mál

  1. Ráðning starfsmanns: Formaður upplýsti ráðið um stöðu ráðningar starfsmanns sem er á lokastigi.
  2. Fram kom áhugi á kynningu á stöðunni í samningaviðræðum gagnvart ESB. Formaður mun kanna hvernær það er mögulegt.
  3. Fram kom áhugi á kynningu frá Skipulagsstjóra um stöðuna varðandi landskipulagstefnu.