Fundargerð 19. fundar Loftslagsráðs

22. janúar 2020

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Sigurður Thorlacius, Maríanna Traustadóttir, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Gunnar Dofri Ólafsson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Árni Finnsson, Steingrímur Jónsson, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir og Sævar Helgi Bragason. 

Anna Sigurveig, starfsmaður Loftslagsráðs, sat fundinn og ritaði fundargerð.

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð seinasta fundar var samþykkt.

Samskiptastefna

Loftslagsráð hefur fengið samskiptafyrirtækið AtonJl til liðs við sig við að smíða samskiptastefnu og mun Auður H. Ingólfsdóttir vinna með ráðinu. Auður tengdist inn á fundinn undir þessum lið en Auður hefur fylgt loftslagsmálum lengi í námi og starfi og hefur m.a. unnið við blaðamennsku. Auður kemur inn til aðstoðar við uppbyggingu á efnivið til miðlunar og samskiptastefnu. 

 • Mikil ánægja var meðal fundarmanna með að fá Auði til liðs við ráðið. Í umræðum fundarmanna um samskiptastefnu og miðlun upplýsinga kom m.a. fram að:
 • Mikilvægt er að setja réttan tón í samskiptum. Forðast þarf að hræða fólk, en mikilvægt er að upplýsa. 
 • Aðrir nefndu að til þessa hefur ekki heldur gengið að vera með bjartsýnistal, það má ekki fegra hlutina með of mikilli bjartsýni. 
 • Finna þarf lausnamiðaða nálgun án þess að draga úr alvarleikanum.
 • Mikilvægt er að leggja áherslu á aðra þætti sem eru jákvæðir s.s. samfélagsleg áhrif og framfarir.
 • Skiptir máli að miðla trúverðugri bjartsýni.
 • Mikilvægt er að beina máli til stjórnvalda og fá þau til aðgerða.
 • Einnig mikilvægt að beina upplýsingum til annarra, og fá samtal við fleiri aðila.

Þann 7. janúar verður fundur með Auði og fræðslu- og upplýsingahópnum.  

Aðlögun að loftslagsbreytingum

Umræðuplagg Magnúsar Arnar um aðlögun að loftslagsbreytingum er komið í umbrot og verður að öllum líkindum tilbúið fyrir næsta fund.

Mikill áhugi er á því að fylgja þessari vinnu eftir með vinnufundi. Boðaður yrði um 3 klst. fundur með þeim sem boðaðir voru á vinnustofuna sl. vor en það mætti breikka hópinn. Þar yrði rætt:

 • Hvaða árangur hefur náðst, hvað hefur gerst síðan í maí.
 • Hvernig ætti vinna við aðlögunaráætlun að fara fram?
 • Hvað með aðlögunarstefnu?
 • Vitum við meira um tjónnæmi Íslands, s.s. dreifkerfi raforku og afgreiðsluöryggi en seinasta vor?

Ákveðið var að Loftslagráð myndi standa fyrir slíkum fundi fyrir febrúarlok og að Auður útbúi kynningarefni upp úr skýrslunni. 

Kolefnishlutleysi

Fulltrúar ræddu málin og það álit sem fyrir liggur að setja fram um kolefnishlutleysi. Ræddar voru þær breytingar sem gerðar voru síðan seinasta útgáfa álitsins var sett fram en tekið hefur verið tillit til athugasemda fulltrúa í ráðinu.  

Frekari athugasemdir voru gerðar á fundinum og sumum fundarmanna fannst athugasemdir sínar ekki rata inn í álitið. Tekinn verður frekari snúningur á milli funda um álitið og lausn fundin. Álitið stytt og þær spurningar sem þarf að svara settar fram. 

Önnur mál

Kolefnisjöfnun

 • Starfsmannamál – þörf er á starfsmanni í fullu starfi og er það nú orðið afgreitt. Mun vera auglýst eftir starfsmanni í fullt starf á næstu vikum en jafnframt hafa verið gerðar ráðstafanir til að auka getuna á meðan ráðningarferlinu stefndur, m.a. með því að fá Auði til liðs við ráðið. 
 • Staða aðgerðaáætlunar – Loftslagsráð mun fá kynningu á stöðu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum á næsta fundi ráðsins og mun drjúgur tími fara í þá kynningu. 
 • Kolefnisjöfunun – ráðið hefur látið vinna umræðuskjal um kolefnisjöfnun og innviði kolefnisjöfnunar, sem verður tilbúið fyrir næsta fund ráðsins. I kjölfarið mun ráðið standa fyrir samtali með helstu gerendum. 
 • Stjórnsýsluúttekt – Vinna við stjórnsýsluúttekt er í fullum gangi, en Capacent var fengið til að vinna slíka úttekt. Fyrstu samtöl hafa átt sér stað og fundað verður í lok vikunnar um fyrstu samtölin. Búast má við lokaniðurstöðum í maí. 

Fleira var ekki rætt og fundi slitið.