Fundargerð 18. fundar Loftslagsráðs

18. desember 2019

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Sigurður Thorlacius, Maríanna Traustadóttir, Sigurður Eyþórsson, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Gunnar Dofri Ólafsson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Árni Finnsson, Ragnar Frank Kristjánsson, Steingrímur Jónsson og Hrönn Hrafnsdóttir.

Varafulltrúar: Helga Ögmundardóttir

Anna Sigurveig, starfsmaður Loftslagsráðs, sat fundinn og ritaði fundargerð.

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð seinasta fundar var samþykkt.

Fræðslu- og upplýsingamál

Huginn Freyr Þorsteinsson, Gunnar Þorvaldsson og Elías Jón Guðjónsson frá fyrirtækinu AtónJL komu til að kynna þá vinnu sem fram undan er með Loftlagsráði í kring um samskiptastefnu.

  • AtónJL kynnti greiningu sína á samfélagsumræðunni um loftslagsmál.
    Loftslags- og umhverfismál eru meðal þess sem Íslendingar telja helstu áskoranir þjóðarinnar og fer hlutfall þeirra sem telja hana mestur áskorunina vaxandi. Með aukinni þekkingu, fréttum og fræðslu breytist hegðun skv. könnunum.
  • Mikilvægt er að Loftslagsráð nái að beita sér markvisst og skapa sér sérstöðu í umræðunni. Næsta skref verður að setjast niður í dýpra samtal með starfsmönnum fyrirtækisins á vinnustofu í janúar.

Kolefnishlutleysi

  • Fulltrúar ræddu drög að áliti ráðsins um kolefnishlutleysi sem lá fyrir fundinum. Álitið mun verða meira stefnumarkandi en sú greiningarvinna sem farið hefur fram. Fram komu áhyggjur um að sú greining gæti e.t.v. afvegaleitt umræðuna ef hún er ekki sett í rétt samhengi. Fram kom hugmynd um að draga niðurstöður hennar saman í eina skýringarmynd.
  • Fulltrúar lýstu þeirri skoðun sinni að það þarf að koma skýrt fram í álitinu hversu áríðandi er að bregðast við strax. Það þarf að fara í aðgerðir nú þegar og við erum alls ekki á réttri leið.
  • Mikilvægt er að setja fram stutt álit og skýrt. Formanni og varaformanni var falið að koma með tillögu að lokaáliti og að leita eftir skriflegum viðbrögðum við þeim drögum milli funda áður en gengið verður frá lokadrögum til samþykktar á næsta fundi

Öflug stjórnsýsla loftslagsmála

  • Ráðið var upplýst um stöðu mála varðandi undirbúning að stjórnsýsluúttekt.
  • Gert hefur verið samkomulag við Capacent sem mun vinna úttektina sem m.a. mun byggja á djúpviðtölum. Úttektinni verður lokið í maí.
  • Markmiðið er að fá upplýsingar um hvernig stjórnsýslan getur orðið betri til að hægt verði sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Engar athugasemdir voru gerðar við lýsinguna á verkefninu.

Skattar og gjöld

Kynnt var fyrirhuguð greining um skatta og gjöld sem tengjast loftslagsmálum. Um grunngreiningu er að ræða og verða niðurstöður hennar tilbúnar í janúar.

Önnur mál

Kolefnisjöfnun

  • Fyrir fundinum lá lýsing á verkefni sem felur í sér að greinargerð verði tekin saman um innviði kolefnisjöfnunar hér á landi til að leggja grunn að umfjöllun ráðsins. Samkomulag hefur verið gert við Environice um að taka saman þessa greinargerð og verður hún tilbúin í janúar.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið.