Fundargerð 17. fundar Loftslagsráðs

27. nóvember 2019

Mætt: Brynhildur Davíðsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Sigurður Thorlacius, Maríanna Traustadóttir, Sigurður Eyþórsson, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Gunnar Dofri Ólafsson, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir og Árni Finnsson. Í fjarfundarbúnaði: Ragnar Frank Kristjánsson, Steingrímur Jónsson, Halldór Þorgeirsson.

Varafulltrúar: Helga Ögmundardóttir

Anna Sigurveig, starfsmaður Loftslagsráðs, sat fundinn og ritaði fundargerð.

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð seinasta fundar var samþykkt.

Aðlögun að loftslagsbreytingum

  • Loftslagsráð hefur látið vinna umræðuskjal um aðlögun að loftslagsbreytingum. Skjalið var kynnt á seinasta fundinn og var eftir fundinn sent á fulltrúa ráðsins og á þá aðila sem sóttu vinnustofu um aðlögun að loftslagsbreytingum þar sem þeim var gefið tækifæri á að koma með athugasemdir.
    Gefið var færi á að gera athugasemdir við allt skjalið en til viðbótar voru aðilar beðnir um að skoða sérstaklega nokkur atriði þ.e. notkun hugtaka, fyrirkomulag stjórnsýslu, vísindaráðgjöf, ábyrgð á sviðsmyndum ábyrgð á viðmiðum um skipulagsvinnu og uppbyggingu innviða.
  • Svör bárust frá alls 10 aðilum sem starfa að aðlögun Reykjavíkurborg, Skipulagsstofnun, Orkuveitu Reykjavíkur, Grænni byggð, Náttúrufræðistofnun, Sambandi Sveitarfélaga og skipulagsstofnun auk fulltrúa í Loftslagsráði.
    Nokkrum aðilum þótti frestur til að koma með athugasemdir heldur lítill en almennt var mikil ánægja með skjalið, það þykir umfangsmikið og fengum við athugasemdir um að þegar væri efnið farið að nýtast í vinnu stofnanna.
    • Þær athugasemdir sem bárust vörðuðu helst áherslu á náttúruvernd og lífbreytileika, orða og hugtakanotkun m.a. notkun hugtaksins hamfarahlýnun. Nauðsyn þess að forgangsraða rétt og aukin skilning á því að aukið fjármagn og mannafla þarf til að takast á við þau verkefni sem loftslagsbreytingar gefa okkur. Tekið var tillit til athugasemda en ekki er um efnislegar breytingar að ræða, fremur áherslumun í umfjölluninni eftir að tekið var tillit til athugasemda
  • Ekki náðist að setja athugasemdir frá tveimur aðilum inn í skjalið og senda fulltrúum tímanlega og var því farið yfir breytingarnar sem gerðar voru á fundinum sjálfum.
  • Umræða var tekin um notkun orðsins hamfarahlýnun en nokkrir aðilar höfðu sent athugasemdir um notkun orðsins. Á fundinum var ákveðið að nota fremur orðið loftslagsvá og verður það breytt í skjalinu áður en það verður gefið út.
  • Skýrslan var samþykkt án frekari athugasemda. Ákveðið var að ekki er þörf á að skýrslunni fylgi álit ráðsins enda góð samantekt i upphafi skjalsins.
  • Skýrslan fer í yfirlestur og umbrot og myndir verða sem flestar íslenskaðar.
  • Ákveðið var að fylgja skýrslunni eftir með málstofu/vinnustofu í byrjun næsta árs, þar sem aðilum sem sátu vinnustofuna yrði boðið en hópurinn einnig víkkaður út.

Starfsáætlun

  • Starfsáætlun ársins 2020 sem kynnt var á seinasta fundi var lögð fram til samþykktar með þeim breytingum sem gerðar voru eftir fund ráðsins 16. nóvember. Einnig var lögð fram fjárhagsáætlun.
  • Starfs- og fjárhagsáætlun voru samþykktar, en þó lagt til að hún yrði uppfærð reglulega eftir því sem starfið þróast á næsta ári.
  • Kom fram sjónarmið sumra fundarmanna að koma þarf skýrar fram í starfsáætlun það hlutverk ráðsins að rýna áætlanir stjórnvalda á undirbúningsstigi.
  • Fulltrúar í ráðinu lýstu því yfir að hálft starfshlutfall væri ekki mikið miðað við það hlutverk sem ráðinu er sett og telja margir nauðsynlegt að ráðið hafi starfsmann í fullu starfi. Nefnt var að nýstofnaður samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífsins hafi nú þrjá starfsmenn þó hlutverk þess sé að sumu leiti ólíkt.
  • Fulltrúar telja mikilvægt að ráðið taki sér pláss í umræðunni og vill gera átak í fræðslumálum.
  • Einnig er mikilvægt að ráðið hafi yfirsýn yfir hvað er verið að gera í loftslagsmálum annars staðar í samfélaginu og geti nýtt þá vinnu.

Kolefnishlutleysi

Umræðuplagg um kolefnishlutleysi og drög að áliti ráðsins.

  • Ljóst er að umræðuplaggið verður fyrsta skrefið sem ráðið tekur til að koma af stað umræðu um kolefnishlutleysi, enn skortir þó frekari greiningar, m.a. á tæknilegum fýsileika aðgerða og kostnaði. Fyrirvarar sem setja þarf plagginu eru margskonar og er talið mikilvægt að þeir fylgi plagginu, þegar það verður sett fram.
  • Farið var yfir drög að áliti ráðsins sem fylgja mun umræðuplagginu, margskonar sjónarmið komu fram og ýmislegt er í skjalinu sem hægt er að skoða betur. Mikilvægt er að álitið fylgi umræðuplagginu.
  • Drög að umræðuplaggi um kolefnishlutleysi voru samþykkt, en fundarmönnum verður gefið færi á að koma með athugasemdir þar fram til miðvikudags í næstu viku.

Stefnt er að því að ljúka málinu á næsta fundi ráðsins.

Samkomulag Íslands, Noregs við ESB á sviði loftslagsmála

Fulltrúar Loftslagsráðs sendu spurningar um samkomulag Íslands, Noregs og ESB um samstarfs á sviði loftslagsmála til Loftslagsráðs og var þeim spurningum svarað skriflega. Fulltrúar ráðuneytisins Hugi Ólafsson og Vanda Hellsing kynntu samkomulagið stuttlega og stóðu fyrir svörum.

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum

Fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins kynntu stöðu aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum sem kynnt í september í fyrra með auknu fjármagni í málaflokkinn.

Einkum er unnið að þrennu:

  1. Margt hefur verið gert hvað varðar þær aðgerðir sem boðaðar voru, stærstu aðgerðirnar varða átak í skógrækt og landgræðslu og innviði fyrir orkuskipti í samgöngum. Margt hefur verið sett af stað.
  2. Nýjar aðgerðir hafa verið settar fram t.d. aukningar á margs konar ívilnunum m.a. fyrir stærri, vistvæna bíla, F-gasa skattur hefur verið settur á.
  3. Mikilvægt er að meta hvaða árangur næst, veðið var eftir spá Umhverfisstofnunar varðandi árangur aðgerðaáætlunar. Sú áætlun er vel gerð en uppskriftin íhaldssöm og var ekki mikið reynt að meta aðgerðirnar. Matið styðst að mestu við orku og eldsneytisspá frá 2016. Nauðsynlegt er að fá betra mat og unnið er hörðum höndum að því.

Spurt var hvort kolefnisgjöld væru til umræðu og var því svarað þannig að allt er til umræðu. Í stjórnarsáttmálanum er forskrift að hækkun kolefnisgjalda og boðuð hefur verið 10% hækkun á kolefnisgjöldum um um áramótin. Ráðuneytið hefur óskað eftir greiningum t.d. varðandi kolefnisgjald. Áhrif á heimili hafa verið skoðuð og nú er næsta skref að greina áhrif hækkunar kolefnisgjalda á fyrirtæki. Fulltrúar ráðuneytisins munu vera tilbúnir til samtals við Loftslagsráð hvenær sem er.

Upplýsinga- og fræðslumál

Upplýsinga og fræðsluhópurinn hefur hist nokkrum sinnum, m.a. hefur hópurinn lagt línurnar varðandi helstu markmið og leiðir í samskiptum.
Á næsta fundi ráðsins munum við vinna áfram með þessar hugmyndir með öllu ráðinu á lengri fundi og eru allir hvattir til að taka þátt í umræðunum.

Önnur mál

Hópur um skatta-, gjöld og ívilnanir

  • Hluti loftslagsráðs mun skoða hagræn tæki s.s. skatta, gjöld og ívilnanir sem til staðar eru á Íslandi. Hagræn tæki eru ein helsta lausnin sem notuð er til að ná tökum á og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hópurinn hefur ekki hist en ákveðið hefur verið að óska eftir greiningu á helstu sköttum, gjöldum og ívilnunum til að fá upplýsingar um stöðu mála hérlendis. Nánari upplýsingar verður hægt að veita síðar og mun hópurinn í kjölfarið funda um málið.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið.