Fundargerð 14. fundar Loftslagsráðs

2. október 2019

Mætt: Halldór Þorgeirsson, Sigurður Thorlacius, Maríanna Traustadóttir, Sigurður Eyþórsson, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Gunnar Dofri Ólafsson, Hrönn Hrafnsdóttir, Hrefna Karlsdóttir og Árni Finnsson.

Varafulltrúar: Helga Ögmundardóttir

Anna Sigurveig, starfsmaður Loftslagsráðs, sat fundinn í forföllum starfsmanns ráðsins og ritaði fundargerð.

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð seinasta fundar var samþykkt með breytingu samkvæmt tillögu sem borist hafði fyrir fundinn.

Kolefnishlutleysi 2040

Miklar væntingar standa til þess að umfjöllun ráðsins bæti skilning á hvað átt er við með kolefnishlutleysi og hver myndbirting þess gæti orðið í íslensku samhengi. Ljóst er að það er ekki vænlegt að ráðið setji sér það markmið að útfæra í smáatriðum hvernig markmiðum verði náð. Gagnlegra er að ramma inn stóru myndina svo stjórnvöld og aðrir ákvörðunaraðilar geti tekið upplýstar ákvarðanir. Kolefnishlutleysi er nauðsyn til að stöðva hækkun hita á jörðinni og gerir Parísarsamningurinn ráð fyrir að kolefnishlutleysi (jafnvægi í bindingu og losun) náist um eða eftir 2050. Ísland mun leggja fram sína framtíðarsýn eigi síðar en á aðildaríkjafundi loftslagssamningsins (COP26) sem haldinn verður í nóvember 2020.

 • Hvað er kolefnishlutleysi? (Sjá nánar kafla 1, 2 og 4 í skjali Darra) Hugtakið kolefnishlutleysi er enn ekki búið að afmarka, en það snýst um að jafnvægi komist á milli losunar og bindingar. Hvernig það er gert tengist vegferð þjóða til framtíðar og því nokkuð opið, en mikilvægt er að horft sé til þess að setja íslenskan vinkil á hugtakið. Ákveða þarf hvað beri að taka með í reikninginn og hvað er fyrir utan.
 • Losunarþættir, kolefnisbókhald og sviðsmyndir (sjá k. 3, 5 og 6) Mikilvægt er að átta sig á helstu stærðum hvað varðar losun og bindingu. Í skýrslunni er unnið með þrjár sviðsmyndir.
  • Grunnsviðsmynd (losunarþættir innan tölulegra skuldbindinga Íslands gagnvart UNFCCC).
  • Grunnsviðsmynd og landnotkun
  • Grunnsviðsmynd, landnotkun og alþjóðlegar samgöngur
   • Ein mikilvægasta spurningin varðar við hvaða grunnástand landnotkunar er miðað, þ.e.a.s hvenær er hið náttúrulega ástand. Alla jafna eru lönd að miða við 1990 eða 2005 í langtíma stefnumótun um kolefnishlutleysi. Komu fram sjónarmið á fundinum um að ef til vill væri rétt að færa grunnlínuna enn aftar í tíma. Aðrir bentu á að rétt væri að horfa til annarra þjóða og hvaða tímabil þau miða við.
   • Bent var á að nota þarf sömu reglur fyrir debit og kredit, þ.e.a.s. ekki er hægt að telja sér til tekna árangur aðgerða sem beinast að losun sem búið er að taka út fyrir reikningsdæmið.
   • Fundarmönnum þykja reglur um skuldbindingar hvað varðar kolefnisbindingu flóknar og óska eftir frekari lýsingu á þessum hluta. Fram komu áhyggjur af því að losun frá landi gæti verið meiri en sú sem binst núna og skv. reglum ESB getum við ekki talið kolefnisbindingu okkur til tekna til að uppfylla skuldbindingar.
   • Sum ríki hafa sett í lög að stefna skuli að kolefnishlutleysi.
   • Skoða þarf viðskipti með kolefni m.t.t. kolefnisjöfnunar. M.a. vottunarmál og hvernig aðrar þjóðir hafa tekið slík viðskipti inn í lagaumgjörðina.
   • Mikilvægt er að skoða kostnað í þessu samhengi og leggja áherslu á hvar ódýrustu tonnin eru að finna.
   • Afar mikilvægt er að vinna að því að minnka losun en ekki leggja eingöngu áherslu á að auka bindingu

Næstu skref

 • Fulltrúar í ráðinu eru hvattir til þess að kynna sér skýrsluna vel fyrir næsta fund þar sem haldið verður áfram umræðum um forsendur og greiningar. Tekin verður saman stutt lýsing á skuldbindingunum, sérstaklega hvað varðar kolefnisbindingarhlutann.

Upplýsinga- og fræðslumál

Umræður og næstu skref

 • Á seinasta fundi var ákveðið að Sævar, Sigurður Thorlacius og Maríanna taki þátt í því að kortleggja aðkomu loftslagsráðs að fræðslu- og upplýsingamálum. Ákveðið var að fela starfsmanni ráðsins að vinna með hópnum.
 • Hópurinn mun hittast til að ramma inn sviðið fyrir næsta fund ráðsins þar sem fræðslu – og upplýsingamál verða sérstakur dagskrárliður,
 • Fundarmenn telja mikilvægt er að halda aðskildum fræðsluþættinum annars vegar og upplýsingaþættinum hins vegar.

Önnur mál

Starfsmaður loftslagsráðs tekur að sér að dreifa upplýsingum um áhugaverða viðburði til fulltrúa ráðsins í tölvupósti sé þess óskað. Nokkrir áhugaverðir viðburðir verða á næstu dögum og vikum sem fundarmenn vöktu athygli á.

 • Verkkeppni Viðskiptaráðs um stefnumótandi lausnir um hvernig Ísland dregur úr losun koltvísýringsígilda https://vi.is/malefnastarf/frettir/verkkeppni/
 • Málþing ASÍ um umhverfismál, Engin störf á dauðri jörð.
 • Málstofa Nátturuverndasamtaka Íslands um bann við svartolíu á Norðurslóðum https://natturuvernd.is/Samtokin
 • Kallað eftir tilnefningum til loftslagsviðurkenningar Reykjavíkurborgar og Festu https://reykjavik.is/frettir/loftslagsvidurkenning-2019-tilnefningar- oskast
 • Málfundur Reykjavíkurborgar: Eru peningarnir þínir loftslagsmál? https://www.facebook.com/events/472847606642605/
 • Loftslagsmaraþon (Climathon). Á Íslandi er viðburðurinn á vegum Reykjavíkurborgar og Matís https://climathon.climate-kic.org/en/reykjavik

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 11:10