Framtíðarfyrirkomulag stjórnsýslu loftslagsmála
júní, 2020

Umfjöllunarefni

Loftslagsráð leitaði til ráðgjafa og óskaði eftir samstarfi um að ráðist yrði í ítarlega úttekt á stjórnskipulagi loftslagsmála og á þeim grunni lagt mat á hvernig opinberum aðilum hefur tekist að sinna lögbundnum og ólögbundnum skyldum sínum og hvernig auka mætti þá getu.

Meginniðurstöður úttektarinnar eru að það háir öllum aðgerðum stjórnvalda, fyrirtækja og heimila að ekki liggi fyrir skýr sýn um hvernig Ísland hyggst ná þeim markmiðum sem fram koma í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og hvernig íslenskt samfélag hyggst búa sig undir nýjan veruleika í grænu hagkerfi. Markmið um kolefnislaust Ísland 2040 er í hugum flestra óljóst.

Helstu ábendingar

 • Móta þarf skýra framtíðarsýn og tengja markmið í loftslagsmálum við breytta atvinnuhætti, öra tækniþróun og samfélagsbreytingar. Æskilegt er að slík sýn yrði mótuð með þverpólitískum hætti undir forystu Alþingis eða forsætisráðuneytis og staðfest af Alþingi.
 • Styrkja þarf pólitíska forystu í loftslagsmálum með skýrri verkaskiptingu ráðuneyta og skýrri ábyrgð einstakra ráðherra. Þar mætti horfa til þess hvernig Finnar vinna að meginmarkmiðum stjórnvalda með skýrri ráðherraábyrgð.
 • Styrkja þarf pólitíska forystu í loftslagsmálum með skýrri verkaskiptingu ráðuneyta og skýrri ábyrgð einstakra ráðherra. Þar mætti horfa til þess hvernig Finnar vinna að meginmarkmiðum stjórnvalda með skýrri ráðherraábyrgð.
 • Koma þarf á fastanefnd ráðuneytisstjóra og samhæfa vinnu innan Stjórnarráðsins. Samhæfa verður vinnu innan Stjórnarráðsins og tryggja að loftslagsmál fái þann sess sem fylgir því að vera eitt helsta forgangsverkefni samfélagsins til næstu áratuga. Komið verði á fastanefnd ráðuneytisstjóra þeirra ráðuneyta er bera meginábyrgð á þessu sviði.
 • Formfesta þarf samstarf á milli ráðuneyta og tryggja gagnsæi. Samstarf embættismanna þeirra ráðuneyta sem vinna að verkefnum á sviði loftslagsmála verði formfest og tryggt með virkum hætti að gagnsæi ríki um stefnumótun og aðgerðir á sviði loftslagsmála til að opna umræðu í samfélaginu.
 • Tryggja þarf beina aðkomu sveitarfélaga að stefnumótun og samhæfa aðgerðir ríkis og sveitarfélaga. Stjórnsýsla loftslagsmála er á tveimur stjórnsýslustigum. Forsenda árangurs er að samspil sé á milli stjórnsýslustiganna. Tryggt verði að sveitarfélög eigi ávallt aðkomu að opinberri stefnumótun í loftslagsmálum og að ákvarðanir um aðgerðir ríkis og sveitarfélaga í loftslagsmálum séu samhæfðar. Hér þarf ekki síst að horfa til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, annarra stærri sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
 • Veita þarf Loftslagsráði sjálfstæðan fjárhag og aðgreina betur tvíþætt hlutverk þess. Horft verði til þess að auka sjálfstæði Loftslagsráðs, veita því sjálfstæðan fjárhag en ekki síður að aðgreina betur það tvíþætta hlutverk sem ráðinu hefur verið falið, þ.e. annars vegar að veita stjórnvöldum markvissa ráðgjöf og hins vegar að draga gerendur í loftslagsmálum að borðinu.
 • Leggja þarf reglulega faglegt mat á árangur stjórnvalda, t.d. með skýrslugerð til þingsins. Mikilvægt er að faglegt og hlutlaust mat sé reglulega lagt á árangur stefnumörkunar og aðgerðaáætlanir stjórnvalda líkt og á Norðurlöndunum og í Bretlandi, t.d. með skýrslugerð til þingsins. Breiður samvinnuvettvangur hagaðila í loftslagsvinnu þarf að vera til staðar. Verði ráðinu áfram falið þetta tvíþætta hlutverk þarf að aðgreina betur á milli. Þá er mikilvægt að formfesta ráðgjafarhlutverkið frekar líkt og dæmi eru um á Norðurlöndunum.
 • Stefna stjórnvalda í loftslagsmálum þarf að vera sýnileg og efla þarf opinbera umræðu. Mikilvægt er að stefna stjórnvalda í loftslagsmálum verði sýnilegri almenningi sem og atvinnulífi og öðrum hagaðilum. Efla þarf opinbera umræðu um þær breytingar sem samfélagið stendur frammi fyrir, jafnt hættu af loftslagsvá sem og um tækifæri er felast í breyttum atvinnuháttum, nýsköpun og grænu hagkerfi.
 • Samhæfa þarf starfsemi stofnana og tryggja markvissara flæði upplýsinga. Endurskoða þarf stöðu og hlutverk þeirra stofnana er vinna að markmiðum Íslands í loftslagsmálum með það að markmiði að samhæfa betur starfsemi og tryggja markvissara flæði upplýsinga þegar kemur að loftslagsmálum. Meta kosti og galla þess að styrkja og stækka stofnanir með sameiningum og skýra þannig verkaskiptingu og ábyrgð einstakra stofnana.
 • Tryggja þarf sess vísindaráðgjafar til grundvallar stefnumörkun. Þá er brýnt að efla rannsóknir á þeim sviðum er líklegust eru til að hafa veruleg áhrif á hagsæld og lífsgæði á Íslandi til framtíðar sem og á þáttum er tengjast vöktun og aðlögun.
 • Meta verður hugmyndir um Loftslagssetur er yrði samhæfingarvettvangur gagnvart aðlögun og vöktun. Slíku setri mætti einnig fela að vinna sviðsmyndir um líklega þróun loftslags líkt og til dæmis er gert í Sviss.
 • Tengja verður saman sýn og vinnu stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum með beinum hætti. Þetta á ekki síst við um tækifæri til nýsköpunar sem gegnir mikilvægu hlutverki í að takast á við áskoranir í loftslagsmálum og auka samkeppnishæfni. Fyrirmyndir sem horft hefur verið til eru ekki síst markaðs- og nýsköpunarstarf Dana á vettvangi State of Green og samhæfing stjórnvalda og atvinnulífs og stefnumótun einstakra atvinnugreina í Svíþjóð á vettvangi Fossilfritt Sverige. Hér hefur Grænvangi verið ætlað þetta tvískipta hlutverk.
 • Tryggja þarf gagnsæi í forgangsröðun loftslagsverkefna og tengja saman fjármagn og ábyrgð. Tryggja verður að skýrt sé hvernig fjármagni er forgangsraðað til einstakra verkefna og á hvaða forsendum, hvort sem er í gegnum aðgerðaáætlun, Loftslagssjóð eða fjármálaáætlun, sem og gagnsæi í meðferð fjármuna og í mati á tilætluðum árangri. Tengja verður saman fjármagn og ábyrgð á verkefnum og forðast að útbúin verði of mörg kerfi til úthlutunar fjármagns.