Framgangur COP26 ræddur í nýjum viðtalsþætti
Yfirlit
2
3

Nú stendur yfir fyrri vika loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, í Glasgow. Loftslagsráð beitir sér fyrir upplýstri umræðu um loftslagsvána sem þjóðir heims standa frammi fyrir og væntingarnar sem bundnar eru við samstarf ríkja og markmiðin sem rædd verða á ráðstefnunni. 

Annar viðtalsþátturinn sem Loftslagsráð sendir frá sér af þessu tilefni, með fréttum frá Glasgow, er nú kominn í loftið. Í honum ræðir Gunnar Dofri Ólafsson við Halldór Þorgeirsson formann Loftslagsráðs, sem staddur er  á ráðstefnunni.

Í þessum 2. þætti ræða þeir um opnun þingsins sem fram fór sunnudaginn 31. október, leiðtogafundinn á mánudag og þriðjudag og þemadaga sem hófust á miðvikudag með umræðu um umskipti í fjármálakerfi heimsins. 

Bretar tóku formlega við formennsku á fyrsta degi ráðstefnunnar 31. október og var lagður traustur grunnur að fundinum þegar dagskrá þingsins var samþykkt. Á sunnudag hófust samningaviðræður og er unnið að þeim í tvær vikur en í lok fundarins verður niðurstöðunni skilað. Þá koma ráðherrar til Glasgow til að ljúka samningaferlinu.

Leiðtogafundurinn er mikilvægur þáttur í ráðstefnunni sem nú fer fram þar sem um er að ræða stöðumat gagnvart Parísarsamningum sem fram fer á fimm ára fresti. Margir leiðtogar koma til þingsins og fjölmörg ríki hafa skilað langtímasýn eins og kveðið er á um í samningnum.  Indland hefur lýst því yfir að langtímasýn þjóðarinnar í loftslagsmálum liggi nú fyrir og stefnir landið að kolefnishlutleysi árið 2070. Þetta eru stórar fréttir. Þá kom fram að helmingur af raforku Indlands verði með endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2030. Yfirlýsing Indlands hefur leitt til þess að útreikningar um hugsanlega röskun veðrakerfanna er í fyrsta skipti komin undir 2,0°C. 

Yfirlýsing bandalags ríkja um að stöðva eyðingu regnskóga verður að teljast merkilegt. 90% af skógum jarðar tilheyrir þeim ríkjum sem tilheyra bandalaginu. Ríki, fjármagn og matvælakeðjan kemur að þessu og eru væntingar til að þetta muni skila miklum árangri.

Á þemadegi um fjármálakerfi var rætt um þörfina fyrir að umbylta fjármálakerfinu í tenglsum við viðbrögð við loftslagsvánni. Fjöldi fjármálaráðherra er staddur í Glasgow til að taka þátt í þeirri umræðu. Möguleiki fjármálakerfisins að verðleggja kolefnisáhættu var eitt af þeim lykilatriðum sem rædd voru; hvernig meta beri þessa áhættu. Fjárfestingar í endurnýjanlegri orku eru taldar mun ábyrgari en að ná í meiri olíu og kol; þær muni ekki skila arði.  

Samstarf loftslagsráða á alþjóðavísu var kynnt þann 1. nóv. Tilgangurinn er að læra hvert af öðru, bera saman bækur sínar og byggja á reynslu þeirra sem starfað hafa um lengri tíma. Loftslagsráðin geta verið brú milli hins alþjóðlega og þjóðlega sem og brú milli vísinda og ákvarðana í loftslagsmálum. Þetta samstarf er mjög gagnlegt fyrir Loftslagsráð og getur hjálpað stjórnvöldum, ekki bara á Íslandi, að meta hvernig svona loftslagsráð eigi að þróast í takt við aukinn þroska stjórnkerfisins. 

Þriðji og síðasti þátturinn mun fara í loftið í næstu viku.