Þann 5. maí sl. átti Loftslagsráð samtal við fólk í ferðaþjónustu um tækifæri og áskoranir í loftslagsvænni uppbyggingu greinarinnar. Samtalið er það fyrsta undir kjörorðinu Samtal og sókn í loftslagmálum sem Loftslagsráð mun eiga við atvinnulífið og sérfræðinga. Markmiðið er að varpa ljósi á sóknarfæri sem felast í krefjandi markmiðssetningu og loftslagsvænum fjárfestingum. Tilgangurinn er að koma á virkara samtali við framfaraöfl innan atvinnugreina og um nýsköpunarstarf, sem og að setja umræðu um 2030 markmið í loftslagsmálum í samhengi við áfanga í átt að kolefnishlutleysi.
Þátttakendur í samtalinu voru:
- Jón Gestur Ólafsson, gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri Bílaleigu Akureyrar
- Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Eldingar
- Auður H. Ingólfsdóttir, ráðgjafi og stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs
- Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar Nýorku
Fulltrúar í Loftslagsráði sem tóku þátt í samtalinu voru Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, prófessor við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands og Sveinn Margeirsson, sveitastjóri Skútustaðahrepps. Fundarstjóri var Snjólaug Ólafsdóttir.
Hvar stöndum við?
Hlutur ferðaþjónustunnar af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands, var um 4% árin 2017-2019. Þá má rekja um 12% af losun vegna vegasamgangna á sama tímabili til ferðaþjónustu.
Eftir kyrrstöðu í ferðaþjónustu vegna kórónuveirufaraldurs gefst tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt að mati þátttakenda. Margt gott hefur verið gert, s.s. í orkuskiptum bifreiða og innviðauppbyggingu sem er komin vel á veg. Greinin hefur verið í pásu en nú er þörf á að bregðast hratt við, en með langtíma hugsun að leiðarljósi.
Skattkerfið hefur verið nýtt til framþróunar en meira þarf til. Fyrirsjáanleika vantar svo fyrirtækin í greininni geti tekið upplýstar ákvarðanir um fjárfestingar í dag. Skattkerfið getur nýst betur.
Bent var á að ekki liggur fyrir aðgerðaáætlun sem byggir á núverandi stefnuramma í ferðaþjónustu sem ríki/stjórnvöld og fyrirtækin standa saman að. Einnig var nefnt að það vantar fjármagn til framkvæmda, til að kaupa tæki og byggja innviði.
Nú er þörf á að bregðast hratt við en með langtíma hugsun að leiðarljósi. Skilningur er fyrir hendi á að standa þurfi að endurreisninni með sjálfærni að leiðarljósi, en þörf er á fræðslu.
Útlit er fyrir að fjöldi ferðamanna myndi aukast hratt á næstunni. Þá þurfi að vanda sig og ekki sjálfsagt að hver sem er geti unnið í ferðaþjónustu.
Framtíðarsýn og tækifæri
Ísland sem fyrirmynd í sjálfbærni væri óskastaðan 2030. Sanngirni í viðskiptaháttum, ábyrgð í verki og samvinna var meðal þess sem draga má fram úr samtalinu. Sumt var talið gerast af sjálfu sér en annað þarf að byggja upp s.s. frekari innviði, framboð þjónustu sem byggir á lágu kolefnisspori og stunda markaðsstarf. Neytendur muni kalla eftir umhverfisvænum valkostum. Einstakt tækifæri felst í að fræða fólk um afleiðingar loftslagsbreytinga, hopun jökla o.þ.h. Slík ferðamennska mun skipta miklu máli.
Að láta verkin tala: Hver eru skrefin sem þarf að taka?
Margar og fjölbreyttar hugmyndir komu fram um aðgerðir og skref í átt að loftslagsvænni uppbyggingu ferðaþjónustunnnar. Það þarf ramma og upplýsingar um umgjörðina næstu 5-10 árin af hálfu stjórnvalda. Innviðir þurfa að vera til staðar. Samtal þarf á milli aðila; fyrirtækja, stjórnvalda og almennings.
Það þarf hvata til að taka skrefið fram á við. Nýsköpunar- og þróunarstyrki og skattaívilnanir. Ríkið ætti að ganga undan með góðu fordæmi í sínum útboðum til dæmis. Samvinna innan greinarinnar þarf að vera náin og þar gegna aðilar eins og SAF og Ferðaklasinn hlutverki. Fleiri þurfa að taka þátt. Margir eru ekki að gefa sér tíma til að taka í þessari vinnu. Hugsa þarf lausnir út frá markaðinum og hjálpa ferðaþjónustufyrirtækjunum að búa til eftirspurn eftir vörum og þjónustu með lægra kolefnisspor; beita ívilnunum. Grænt vegabréf er ein leið til þess. Ferðamenn safna stimplum þegar þeir kaupa umhverfisvænar vörur og þjónustu og fá endurgreiddan virðisaukaskatt við brottför af landinu. Þá þarf líka að huga að tækifærum í að kolefnisjafna. Aðgerðir eru árangursríkastar ef þær eru samþættar. Byggja upp hringrásarhagkerfi.
Stórt hreyfiafl felst í fjármögnun á uppbyggingu í ferðaþjónustu. Breytingar hafa orðið alþjóðlega í átt að grænni fjármögnun og umræða og aðgerðir hér á landi eru á réttri leið. Fyrirtækin þurfa aðstoð við að sækja um styrki.
Hér má svo sjá stutt innlegg frá Rannveigu, Jóni Gesti og Jóni Birni.https://player.vimeo.com/video/548351224