Fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 hefur nú verið kynnt. Hún hefur að geyma áætlun um þróun ríkisútgjalda og tekna, og þar eru lagðar á borðið þær áherslur sem einkenna skulu umsvif hin opinbera á komandi árum. Áætlunin er byggð á spálíkönum sem notuð eru til þess að meta hver hagþróun næstu ára verður að gefnum ákveðnum forsendum og hvernig hún getur breyst.

Nálgun við gerð slíkra spálíkana í nágrannaríkjunum hefur tekið breytingum á undarförnum árum vegna loftslagsvár. Slíkar breytingar hafa ekki átt sér stað hér á landi. Æ fleiri lönd hafa áttað sig á nauðsyn þess að taka þarf áhrif loftslagsvár á grunnforsendurnar með í reikninginn í hagspám. Tvennt er hér talið mikilvægt: Annars vegar þarf að taka tillit til nauðsynlegra fjárfestinga í tækni og innviðum til að draga úr losun. Hins vegar þarf að vega og meta áhættu og tilheyrandi í félagslegum og efnahaglegum óstöðugleika í kjölfar tjóns og áfalla, sem óhjákvæmilega hafa veruleg áhrif á allar forsendur. Slík áhrif þekkjum við Íslendingar vel af eigin reynslu. Svokölluð kvik líkön, þar sem skoðuð eru ýtarlega áhrif ólíkra sviðsmynda yfir tíma og hversu næmur þjóðarbúskapurinn er fyrir áhættuþáttum, eru ómissandi verkfæri í slíkri greiningarvinnu.

Dæmi frá Bandaríkjunum og Skotlandi

Til grundvallar fjárlögum þessa árs í Bandaríkjunum liggur núna í fyrsta skipti kerfisbundið mat á áhættuþáttum tengdum loftslagsbreytingum. Við fjárlagavinnuna var annars vegar unnin sérstök greining á því hversu mikil áhrif loftslagsbreytingar gætu haft á ríkisfjármálin, og hins vegar hvernig þróunin gæti orðið til langs tíma. Niðurstaðan var í stuttu máli sú að loftslagsbreytingar væru líklegar til þess að hafa gríðarleg áhrif á opinber fjármál, og á hagkerfið allt, í Bandaríkjunum. Þurrkar, flóð, uppskerubrestir og hækkandi sjávarmál eru meðal þeirra þátta sem skoðaðir voru sérstaklega.

Til að fyrirbyggja slík áhrif eftir fremsta megni þarf að ráðast í aðgerðir. Þá þarf að meta við gerð fjárlagaáætlana hvernig fjármagna skuli nauðsynlegar kerfisbreytingar og hvernig opinber fjármál í heild sinni skulu stefna að markmiðinu um kolefnishlutleysi. Í þessu er skoska þingið ágæt fyrirmynd. Í forsendum skoskrar fjárlagagerðar og tilheyrandi áætlanavinnu er markmiðið um kolefnishlutleysi skoska hagkerfisins eitt af þremur grundvallarmarkmiðunum sem opinber fjármál skulu stefna að. Jafnframt eru fjárlög greind sérstaklega út frá loftslagsmálum og kolefnisspor fjárlaganna er greint.

Kolefnishagstjórn

Í júní 2021 kom út á vegum Loftslagsráðs og Stofnunar Sæmundar fróða skýrslan Þekking í þágu loftslagsmála. Eitt af því sem þar er bent á er að hagstjórn og áætlanagerð þurfi að taka mið af loftslagsmarkmiðum og að greina þurfi áhrif loftslagsbreytinga á efnahagslíf og fjármálastöðugleika. Rætt er um hugtakið kolefnishagstjórn, þar sem haglíkönum er gagngert beitt til þess að ná árangri í loftslagsmálum. „Mikilvægt er að taka tillit til loftslagsmarkmiða í hagstjórn og áætlanagerð stjórnvalda, og gera greiningar og gagnaöflun slíkt mögulegt,“ segir í skýrslunni. „Kerfislæg umskipti kalla á miklar fjárfestingar og því er mikilvægt að tryggja að fjárfestingarnar þjóni loftslagsmarkmiðum. Auka þarf þekkingu og bæta greiningar á fjárfestingum út frá loftslagssjónarmiðum og greina áhrif fjárfestinga tengdum loftslags- og umhverfismálum á samfélagið.

Íslenska fjármálaáætlunin

Markmið um kolefnishlutleysi og samdrátt í útblæstri ber víða á góma í nýkynntri fjármálaáætlun fyrir Ísland. Loftslagsmarkmið liggja þó ekki formlega til grundvallar áætlanagerðinni og ekki heldur er lagt mat á áætlunina út frá loftslagstengdum áhættuþáttum eða hvernig hún spilar saman heildrænt við markmið í loftslagsmálum. Kolefnisspor áætlunarinnar er heldur ekki greint.

Líklega er þó aðeins tímaspursmál hvernær byrjað verður að gera slíkt hér á landi við fjármálaáætlanagerð, enda eru þjóðirnar hverjar af annarri að taka upp slíka nálgun. Þekkingin hér á landi, getan og áhuginn er í sívaxandi mæli fyrir hendi og ekki er síður mikilvægt að getað leitað fyrirmynda hjá nágrannaþjóðum.