Er hægt að ná kolefnishlutleysi í alþjóðaflugi og -siglingum árið 2050?
22. mars, 2022

Þessari stóru spurningu var varpað fram á viðburði Loftslagsráðs, Samtal og sókn í millilandasamgöngum 14. mars sl. Markmiðið var að varpa ljósi á alþjóðaskuldbindingar, vegferðina í átt að kolefnishlutleysi og stöðu Íslands, sóknarfæri og raunhæfar leiðir til að ná framtíðarmarkmiðum í minnkun gróðurhúsalofttegunda í millilandasamgöngum. 

Þar sem Ísland er eyja skipta millilandasamgöngur óhjákvæmilega miklu máli enda eingöngu hægt að flytja fólk og vörur með skipum eða flugvélum til og frá landinu. Greiðar flutningaleiðir um loft og haf eru þannig grundvöllur að hagsæld og lífsgæðum landsmanna. Flugferðir valda um 2% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og siglingar um 3%. Þessi losun hefur aukist hratt og munu halda áfram að aukast hratt ef ekkert verður að gert. Þjóðir heims vinna sameiginlega að því að draga úr þessari losun. Millilandasamgöngur falla ekki undir skuldbindingar ríkja á vettvangi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) en aðgerðir eru samræmdar innan Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og Alþjóðasiglingamálstofnunarinnar (IMO) og er Ísland aðili þeim báðum.  

Í samtalinu tóku þátt innlendir sérfræðingar og hagaðilar en einnig tveir erlendir fyrirlesarar sem miðluðu af reynslu og sýn á alþjóðavettvangi, um stefnu, regluverk og hvað þarf til til að ná kolefnishlutleysi í alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum. Sjá upptöku af fundinum í heild sinni hér.

Þörf er fyrir hraðari umskipti í siglingum

Bo Cerup-Simonsen er yfirmaður Mærsk Mc-Kinney Møller Center for Zero Carbon Shipping sem er óháður rannsóknar- og þróunarvettvangur sem vinnur að hví að hvetja til hraðari umskipta svo ná megi kolefnishlutleysi í alþjóða siglingum. Megin skilaboð hans voru að þrátt fyrir óvissu þá er hægt að ná kolefnishlutleysi í siglingum árið 2050. Árangurinn veltur á markaðinum, regluverki og tækniþróun, kostnaði og skalanleika lausna sem og verði á eldsneyti.

Siglingar valda um 3% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Bo Cerup-Simonsen sagði að siglingageirinn hefði tekið vel við sér og væri tilbúinn í þá þróun sem þarf að eiga sér stað. Margs konar óvissa væri enn fyrir hendi en að þeirra hlutverk væri að leiða aðila í samstarf, greina og rannsaka, hvetja til nýsköpunar og nauðsynlegra breytinga á regluverki sem leitt getur til hraðari umskipta. Erfitt sé að keppa við jarðefnaeldsneyti en valkostir eru til staðar, sérstaklega fyrir Ísland sem hefur aðgang að grænni orku. Hann fjallaði um ólíka orkugjafa, þróun, áskoranir og skalanleika.  Umskiptin krefjast tækniþróunar, mikilla fjárfestinga og stuðnings við framþróun, einkum við þásem leggja fyrstir af stað í þróunarvinnu.

Evrópskt samstarf í Destination 2050

Evrópusambandið (ESB) hefur lengi beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr losun frá alþjóðlegu flugi og siglingum. Viðskiptakerfi sambandsins með losunarheimildir nær yfir flug innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og er ætlunin að innleiða kröfur CORSIA-kerfisins gegnum viðskiptakerfið. Einnig er stefnt að því að fella sjóflutninga innan EES og til og frá þriðju ríkjum undir kerfið frá árinu 2023. Hann greindi m.a. frá markmiðum um samdrátt í losun innan Destination 2050.

Laurent Donceel yfirmaður sjálfbærni og loftslagsstefnu hjá Airlines for Europe (A4E) lagði í sínu erindi áherslu á að útskýra evrópskt regluverk (Fit for 55), fjallaði um hvað er framundan og hvernig það hefur áhrif á fluggeirann. Hann kynnti niðurstöður könnunar á viðhorfum farþega sem sýna að 80% ofmeta kolefnisspor flugferða en þeir vilja að flugfélög grípi til aðgerða til að minnka kolefnisspor flugferða. Hann sagði frá vegferð evrópskra flugfélaga að kolefnishlutleysi sem kynnt er í verkefninu Destination 2050, markmið og helstu leiðir til að draga úr losun: notkun á grænu eldsneyti (Sustainable Aviation Fuel), tækniþróun í flugvélum og hreyflum, efnahagslegar aðgerðir og bættur flug- og flugvallarekstur og flotastýring.

Horfa á verkefnið sem tækifæri en ekki vandamál

Að framsöguerindum loknum fóru fram umræður sérfræðinga og hagaðila um tækifæri og áskoranir, hvernig Ísland stendur sig í þróun og umskiptum svo ná megi kolefnishlutleysi í millilandasamgöngum hér á landi. Lausnirnar liggja ekki fyrir í dag en þróunin fram á við er hröð, mikil gerjun og mikill kraftur að mati þátttakenda.  Þau sem tóku þátt í umræðunum sem Aðalheiður Snæbjarnardóttir, fulltrúi Festu í Loftslagsráði og sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum stýrði eru:

  • Heiða Njóla Guðbrandsdóttir, aðstoðar framkvæmdastjóri rekstarasviðs Icelandair
  • Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Eimskips 
  • Kristinn Aspelund, framkvæmdastjóri Ankeris mun leggja áherslu á þátt nýsköpunar
  • Reynir Smári Atlason, stjórnarmeðlimur í IcelandSIF, samtökum um ábyrgar fjárfestingar og sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum 

Þörf er fyrir nýsköpun til að takast á við það stóra verkefni sem felst í að ná kolefnishlutleysi í samgöngum. Mörg lítil verkefni geta líka gert gagn og það þarf að fara af stað strax. Orkuþörfin er mikil og þörf er fyrir innviðauppbyggingu til að tryggja hagkvæm orkuskipti, finna tæknilausnir og bæta þarf rekstur.

Siglingageirinn er á fullu að finna lausnir svo ná megi kolefnishlutleysi í sjóflutningum. Skort hefur fjármagn til rannsókna- og þróunar í skipaiðnaði; lausnirnar eru dýrar og það þarf hvata til að hraða vegferðinni í átt að kolefnishlutleysi. 

Tækniframfarir hafa verið miklar í fluggeiranum að undanförnu. Flugfélög hafa verið að setja sér metnaðarfull markmið í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, endurnýja flugflota og ráðast í rekstrarumbætur af ýmsu tagi.  

Tækifæri felast í að ráðast í þróunarverkefni til að framleiða sjálfbært eldsneyti. Þróun á sjálfbæru eldsneyti (SAF) er spennandi kostur í fluginu. Ef það tekst að framleiða SAF á Íslandi þá skapar það mikil tækifæri. Ekki væri þá þörf á tæknibreytingum á hreyflum flugvéla. Úrræði til að minnka losun í flugi eru ekki á hverju strái. Því er mikilvægt að efnahagslegar aðgerðir stjórnvalda séu í takt við framboð af tæknilegum lausnum.  

Það eru ýmis ónýtt tækifæri eru hér á landi, bæði fyrir flug og skip. Sérstaða Íslands felst í því að nýta orkuna rétt til að framleiða grænt eldsneyti og auka þannig samkeppnishæfni íslenskra afurða. Styrkleiki landsins felst líka í smæðinni. Verðið á eldsneyti hér á landi gæti lækkað hraðar og reynst styrkleiki fyrir landið. Þá eru tækifæri í að nýta hugverk til að skapa tekjur fyrir landið; við getum tekið frumkvæði og verið í fararbroddi í nýsköpun. 

Mikil þróun á sér stað í flugi, bæði með vetnisvæðingu og rafmagnsflugi. Verið er að kanna fýsileika þess að vera með vetnisflug og virðist það vera raunhæfur kostur á næstu fimm árum. Því fylgja áskoranir en líka tækifæri í nýsköpun og þróun. 

Fjárfestar kalla eftir aukinni upplýsingagjöf; þeir vilja skilja tækniþróun og óvissuþætti betur, s.s. í regluverki ETS kerfisins sem er að taka miklum breytingum þegar kemur að flugi og siglingum. Verð á losunarheimildum er sveiflukennt og fjárfestar eru að meta hvaða afleiðingar þetta hefur á rekstur. Viðskiptaumhverfið þarf að vaxa upp í þær kröfur sem gerðar eru. 

Jarðefnaeldsneyti er að hækka hratt en með því að framleiða eldsneyti hér á landi má ná forskoti, vera sjálfbærari í flutningum.

Í lokaorðum kom fram að verkefnið er stórt en bjartsýni ríkir því Ísland býr yfir ýmsum tækifærum. Það er hnattrænt verkefni að takast á við loftslagsmálin. Heimurinn þarf að komast á sömu blaðsíðu. Lykill að árangri er að virkja ólíka aðila í samstarf. Það gerir þetta enginn einn.