Coldplay og leiðin að kolefnishlutleysi

Breska hljómsveitin Coldplay er nú á tónleikaferð um heiminn. Af sjónarhóli umhverfismála er ferðalagið athyglisvert. Hljómsveitarmeðlimir hafa lýst því yfir að öll umhverfisáhrif af túrnum verði eins lítil og frekast er unnt. Hann á að vera kolefnishlutlaus.

Coldplay hefur lofað að allur útblástur gróðurhúsalofttegunda sem af túrnum hlýst verði skilmerkilega skráður, leitast verði við að skera útblástur, og önnur umhverfisáhrif, við nögl með margskonar aðgerðum og sá útblástur sem er óumflýjanlegur verði jafnaðar út með kolefnisbindingu. Túrinn á þannig ekki einungis að verða kolefnishlutlaus, heldur á helst að stíga skrefið lengra og hafa túrinn kolefnisneikvæðan. Coldplay ætlar að reyna að binda meira kolefni úr andrúmslofti heldur en túrinn losar, til dæmis með því að planta trjám.

Á undanförnum árum hafa sífellt fleiri lönd, borgir, sveitarfélög, fyrirtæki og alls konar aðilar sem standa í ströngu, eins og hljómsveitir, lýst því yfir að öll umsvif skuli verða kolefnishlutlaus.  Þannig hafa íslensk stjórnvöld, með markmiði lögfestu af Alþingi, lýst því yfir að hagkerfið allt skuli vera orðið kolefnishlutlaust fyrir árið 2040 og Reykjavíkurborg stefnir að kolefnishlutleysi ásamt 111 öðrum borgum í Evrópu fyrir árið 2030.

Þetta hljómar allt saman vel. Að mörgu er þó að hyggja þegar kolefnishlutleysi er annars vegar. Ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið.

Rætur hugtaksins

Í samantekt Loftslagsráðs um hugtakið kolefnishlutleysi og þýðingu þess, sem ráðið sendi frá sér árið 2020, er rakið hvað kolefnishlutleysi felur í sér. Hugtakið á sér nokkuð langa notkunarsögu innan vísindasamfélagsins, en það fór fyrst á flug í almennri umræðu í kjölfar Parísarsamningsins árið 2015.

Eins og segir í samantektinni lýsir kolefnishlutleysi „ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli hraða losunar og bindingar af mannavöldum.“ Kolefnishlutleysi er náð þegar nettólosun kolefnis út í andrúmsloftið af mannavöldum er núll. Öll losun er bundin jafnóðum.

Binda má kolefni úr andrúmslofti með náttúrulegum aðferðum eins og aukinni skógrækt og endurheimt votlendis, en einnig með ýmiss konar nýrri tækni sem þróuð hefur verið á undanförnum árum.

Nægir ekki eitt og sér

Kolefnishlutleysi, verði því náð á heimsvísu með sameiginlegu átaki ríkjabandalaga, þjóðríkja, borga, fyrirtækja og jafnvel hljómsveita, mun þó ekki leysa loftslagsvandann eitt og sér.

Leiðin að kolefnishlutleysinu skiptir höfuðmáli. Með hverju ári sem líður, án kolefnishlutleysis, safnast koltvíoxíð fyrir í andrúmsloftinu.  Svo halda megi hnattrænni hlýnun innan settra marka má sú uppsöfnun ekki verða of mikil. 

Samdráttur í losun þarf því að hefjast þá þegar. Því lengur sem það dregst því meiri þarf samdrátturinn að vera.

Lykilspurningin er, hversu mikið er losað á þeim tíma sem það tekur að ná kolefnishlutleysi á heimsvísu? Hver verður styrkur kolefnis í andrúmsloftinu þegar hlutleysi er loksins náð? „Öll vegferðin að kolefnishlutleysi skiptir því máli og mun næsti áratugur ráða úrslitum um framvinduna,” segir í samantekt Loftslagsráðs.

Mikilvæg áhersla

„Áherslan á kolefnishlutleysi hefur valdið straumhvörfum í stefnumörkun í loftslagsmálum,“ segir í samantektinni. Hugtakið hefur leyst úr læðingi nýsköpun og kraft. Ótal aðilar leggjast nú á árarnar, enda markmiðið skiljanlegt og skýrt. Kolefnishlutleysi er fremur einfalt hugtak. Í því liggur styrkur þess.

Hugmyndin er í raun sú sama og þegar gerð er krafa um að fólk skilji ekki eftir sig rusl á víðavangi. Hljómsveitin Coldplay mun losa mikið rusl á tónleikaferð sinni í formi útblásturs. Hún ætlar að þrífa það allt eftir sig.

Markmiðið er að allt mannkynið þrífi eftir sig. Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi, að hafi ruslið safnast upp ár eftir ár — eins og koltvíoxið af mannavöldum gerir nú í andrúmsloftinu — geta yfirlýsingar um að allt árlegt rusl sem falli til árið 2030, eða 2040, verði jafnóðum þrifið, orðið marklausar.

Þá gæti haugurinn verið orðinn alltof stór. Þar liggur áskorunin. Hann má raunar ekki stækka mikið meira en orðið er.