Bráðnun jökla að aukast

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar alþjóðlegrar rannsóknar hafa jöklar á Suðurskautslandinu og á Grænlandi bráðnað mun hraðar á undanförnum áratugum en áður var talið. Árleg bráðnun jöklanna hefur sexfaldast frá 1992 og sjö verstu árin hvað varðar jöklabráðnun eru öll innan síðasta áratugar.

Með því að keyra saman gögn frá 50 gervihnattakönnunum á árabilinu 1992 til 2020 var hægt að öðlast nákvæma mynd af breytingum á rúmmáli jöklanna og flæði þeirra. Áform eru um að þetta net gervihnatta verði nýtt hér eftir til þess að vakta bráðnun með mun nákvæmari hætti og með reglubundnu móti.

Mesta bráðnunin átti sér stað árið 2019, þegar jöklar Suðurkautsins og Grænlands minnkuðu samanlagt um 675 milljarða tonna. Mestu munaði um bráðnun vegna mikils hita það árið á Norðurskautinu, en þá minnkaði Grænlandsjökull um 489 milljarða tonna.

Sjávarmál hefur hækkað um rúma tvo sentimetra út af þessari bráðnun jökla á Suðurskauti og á Grænlandi á umræddu árabili, samkvæmt rannsókninni. Í samtali við CNN benti einn aðalhöfunda rannsóknarinnar, Inés Otosaka frá Leedsháskóla, á hið augljósa: „Þetta er mikið áhyggjuefni því 40% mannkyns býr á strandsvæðum.“

Sjórinn bræðir

Önnur ný rannsókn rennir frekari stoðum undir þennan ískyggilega veruleika. Athuganir á Petermannjöklinum, sem er einn stærsti skriðjökull allrar íshellunnar á Grænlandi — og er nálægt nyrsta odda Grænlands — sýna að jökullinn bráðnar hraðar en talið hefur verið. Sjór hefur náð að brjóta sér langar leiðir undir jökulinn, sérstaklega þar sem hann liggur á mótum lands og sjávar, og bræðir hann að neðan.

Skriðjökullinn rís nú og fellur eftir öldum hafsins, og sjórinn fer nú nærri tvo kílómetra inn í landið undir jökulsporðinn, mörgum sinnum á dag. Undir honum má nú greina um 200 metra háan íshelli, sem sjórinn hefur brætt.

Í samtali við veffréttaveituna Axios bendir einn rannsakendanna, Eric Rignot vísindamaður hjá NASA og Kaliforníuháskóla, á það að niðurstöðurnar í raun þýði að allur jökullinn í grennd við Petermannjökulinn sé mun viðkvæmari fyrir hækkandi hitastigi sjávar en áður var talið. Skriðjökullinn virkar eins og tappi, sem kemur í veg fyrir að gríðarlegt magn af jökli innar í landinu skríði til sjávar. Því hraðar sem sjórinn bræðir Petermannjökulinn, því meiri eru líkurnar á að jökulbreiðan inn til landsins fari af stað og verði hafinu að bráð.

Ein lykilniðurstaða þessara beggja rannsókna er að spár um hækkandi sjávarmál hafa vanmetið hraða bráðnunarinnar. Að sögn Eric Rignot er full ástæða til að gera ráð fyrir að spár um hækkun séu of lágar, en ekki of háar. Líkur séu á að þær þyrftu að vera um tvöfallt hærri til að vera nærri veruleikanum.