Alþjóðlegt net loftslagslagsráða stofnað

Þeim þjóðum fjölgar ört sem sett hafa upp ráðgefandi loftslagsráð.  Eðli, hlutverk, samsetning og slagkraftur slíkra ráða er mjög breytilegur og ræðst öðru fremur af þroskastigi stjórnsýslu loftslagsmála í viðkomandi landi. Þessi þróun í hnattrænni stjórnun (e. global governance) loftslagsviðbragða hefur vakið athygli bæði sem hugsanleg leið til að tengja betur hið hnattræna við hið landbundna og sem hluti af brú milli vísinda og ákvarðana. Í nýlegri úttekt kemur fram að við réttar aðstæður geta slík sérfræðingaráð hjálpað stjórnvöldum ekki aðeins við að taka réttar ákvarðanir í stefnumörkun í loftslagsmálum heldur einnig að draga þær til ábyrgðar með því að efla gagnsæi og fylgjast með árangri (eða mistökum) landsbundinna aðgerða.

Alþjóðlegu neti loftslagsráða hleypt af stokknum

Í dag 1. nóvember er formlega stofnað til samstarfs loftslagsráða um heim allan sem ber yfirskriftina International Climate Councils Network (ICCN). Loftslagsráð er stofnaðili að ICCN og tekur þátt í stofnfundi samtakanna á COP26 í Glasgow.   Netið er hið fyrsta sinnar tegundar þar sem saman koma loftslagsráð sem hafa það hlutverk að veita stjórnvöldum rágjöf og aðhald í loftslagsmálum. Ráðin í ICCN eru frá öllum heimshornum, m.a. frá Ástralíu, Chile, Kosta Ríka, Kanada, Bretlandi, Frakklandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Írlandi, Mexíkó og Suður Afríku. 

Um er að ræða vettvang til að:

  • Kynnast ólíkum aðferðum og leiðum við að veita ráð um og rýna aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum.
  • Draga lærdóm af reynslu annarra í stefnumótun og framkvæmd loftslagsmála.
  • Skoða og ráðast í sameiginlegar rannsóknir og greiningar sem styðja sameiginlega hagsmuni ráðanna.
  • Bera kennsl á og kynna sameiginlega hagsmuni, gildi og grundvallaratriði í stjórnsýslu loftslagsmála og framkvæmd Parísarsamningsins.
  • Varpa ljósi á hlutverk loftslagsráða í því að styðja við árangursríka þróun loftslagsstefnu m.a. með stuðningi við ný eða nýlega stofnuð loftslagsráð.  

Yfirlýsing til leiðtoga aðildarríkja Parísarsamningsins

Á stofnfundi ICCN var afgreidd yfirlýsing sem er hvatning til leiðtoga aðildarríkja Parísarsamningsins um að ná markmiðum hans. Þá er bent á hlutverk ráðgefandi loftslagsráða við að styðja leiðtoga heims í þessu mikilvæga verkefni og vísað til úttektar IDDRI og Ecologic Institute í þeim efnum. Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðs afhenti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra yfirlýsingunni á ráðstefnunni.

Hér má nálgast yfirlýsinguna í heild á íslensku og enska útgáfu á vef breska loftslagsráðsins sem er einn þeirra aðila sem sjá um rekstur ICCN. 

Hlutverk ráðgefandi loftslagsráða við að styðja leiðtoga heimsins í að standa við Parísarsamninginn 

Til leiðtoga ríkisstjórna sem eiga aðild að Parísarsamningum 

Kæru leiðtogar,

Í dag koma leiðtogar alls staðar að úr heiminum saman í Glasgow til að marka upphaf COP26 – sem er einn mikilvægasti áfanginn fyrir heimssamfélagið frá Parísarsamningnum árið 2015. Á næstu tveimur vikum mun heimurinn fylgjast með því hvort ríkisstjórnir muni gera það sem þarf til að takast á við loftslagsbreytingar og breyta skuldbindingum sínum í aðgerðir.

Rökin fyrir aðgerðum hafa aldrei verið skýrari þar sem nýleg sjötta matsskýrsla IPCC (Milliríkjanefndar Sþ um loftslagsbreytingar) sýnir ótvíræða ábyrgð mannsins á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Við vitum hvað þarf að gera og að það er tæknilega og efnahagslega framkvæmanlegt að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins með viðeigandi alþjóðlegumstuðningstigi við þróunarlönd. Aðgerðir núna munu bæta lífsgæði um allan heim; aðgerðaleysi mun hafa afleiðingar fyrir okkur öll, sérstaklega þá sem búa við mesta tjónnæmið. Leiðtogafundurinn í Glasgow verður að marka upphaf nýs áfanga loftslagsaðgerða – áratug framkvæmdar.

Loftslagsráð sem hafa ráðgefandi hlutverk við stjórnvöld í hverju landi geta gegnt mikilvægu hlutverki í þessu átaki með því að veita sérfræðiráðgjöf byggða á staðreyndum sem upplýsir stefnumörkun og með öflugu, óháðu mati og virkni í því augnamiði að halda öllum við efnið. Fjöldi loftslagsráða með mismunandi eðli og verksvið hafa verið stofnuð um allan heim á undanförnum árum.

Í dag er formlega stofnað til samstarfs loftslagsráða um heim allan sem ber yfirskriftina International Climate Councils Network (ICCN) en ráðin hafa átt árangursríka fjarfundi fyrr á árinu til að móta samstarfið. ICCN mun verða vettvangur til að auðvelda samvinnu, deila reynslu og veita gagnkvæman stuðning milli loftslagsráða víðsvegar að úr heiminum.

Við teljum eftirfarandi vera grundvallaratriði og nauðsynlega þætti til að gera loftslagsráðum kleift að sinna hlutverki sínu á áhrifaríkan hátt:

  • Að starfið byggi á traustum grunni nýjustu loftslagsvísinda, eins og mat Milliríkjanefndar Sþ um loftslagsbreytingar (IPCC) ber glöggt vitni um, og sé stutt af traustri sérfræðiþekkingu í viðeigandi efnahags-, eðlis-, vist- og félagsvísindum.
  • Hafi umboð til að veita óháða ráðgjöf byggða á staðreyndum og til að leggja mat á aðgerðir stjórnvalda og hagaðila til mótvægis gegn og aðlögunar að loftslagsbreytingum og hafi til þess nægjanlegt fjármagn.
  • Hafi svigrúm til að veita ráðgjöf um félags- og hagfræðilega þætti í loftslagsumskiptum í því augnamiði að tryggja að umskiptin séu sanngjörn bæði hvað varðar málsmeðferð og innihald. 
  • Beiti nálgun sem er ráðgefandi og óhlutdræg við virkjun hagaðila sem skapar samstöðu og beinir framkvæmd í farveg einkum þar sem viðfangsefnið er sérstaklega mikilvægt og krefjandi.
  • Setji samþættingu aðlögunar, mótvægisaðgerða og réttlátra umskipta í brennidepil – þetta eru þrjár ómissandi forsendur árangursríkra viðbragða við loftslagsvá.

Við hvetjum allar ríkisstjórnir til að íhuga að koma á fót loftslagsráði eða sambærilegu fyrirkomulagi sem hefur ofangreind grunnviðmið að leiðarljósi til að styðja viðleitni þeirra við að hrinda Parísarsamningnum í framkvæmd. Við erum reiðubúin að hjálpa til af fremsta megni.  ICCN hlakkar einnig til að taka á móti fleiri ráðum sem deila þessari grundvallarnálgun og vilja læra af reynslu annarra þjóða.

Ef þú vilt frekari upplýsingar um International Climate Councils Network vinsamlegast hafðu samband við Guðnýju Káradóttur, gudny@loftslagsrad.is. Almennum fyrirspurnum má beina til climatecouncilsnetwork@gmail.com.