Veðurstofa Íslands vekur athygli á alvarlegu ástandi loftslags jarðar sem lýst er í skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) sem kom út nýlega. Í henni kemur fram að síðustu sex ár eru þau heitustu á jörðinni frá upphafi mælinga og árið 2020 var eitt heitasta ár á jörðinni frá upphafi mælinga.
Skýrslan, „State of the Global Climate“, er samantekt unnin af fjölmörgum stofnunum og vísindamönnum og lýsir ástandi loftslags jarðar sem og afleiðingum loftslagsbreytinga. Allir mælikvarðar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra sem sýndir eru í þessari skýrslu sýna stöðugar og áframhaldandi loftslagsbreytingar, aukingu í aftakaveðrum með eyðileggingu og tjóni fyrir einstaklinga og samfélög.
Vitnað er í António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, þegar skýrslan var kynnt, sem segir að bregðast þurfi strax við. Hann segir loftslag jarðar vera að breytast og áhrif breytinganna séu þegar of dýru verði keyptar, bæði gagnvart íbúum og náttúrunni.
Samkvæmt skýrslunni þurftu milljónir jarðarbúa að takast á við öfgar í veðri á síðasta ári vegna loftslagsbreytinga samhliða baráttunni við kórónuveiruna. Þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn hafi hægt á hagkerfum heims virðist faraldurinn ekki hafa hægt á loftslagsbreytingum.
Þá er einnig vitnað í Petteri Taalas prófessor og aðalritara Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar sem segir að þessi neikvæða þróun muni halda áfram árum saman óháð því hvort okkur tekst að hemja losun gróðurhúsalofttegunda. Því sé mikilvægt að fjárfesta í aðlögun.
Sjá nánar á vef Veðurstofunnar og á vef Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.