Áform um alþjóðlegt vöktunarnet á losun og bindingu GHL

Nýjasta talan yfir magn koltvísýrings í andrúmsloftinu, þegar þetta er skrifað, er 424,32 ppm. Sú tala þýðir að af hverjum milljónum einingum í andrúmsloftinu eru 424,32 koltvísýringur. Talan er fengin frá rannsóknarstöðinni í Mauna Loa í Hawaii, sem er staðsett í 3400 metra hæð yfir sjávarmáli. Nýjustur tölur eru birtar víða á vefnum daglega, eins og til dæmis hér.

Eins og kunnugt er þessi tala alltof há, og magn CO2 í andrúmsloftinu er þegar farin að hafa mikil áhrif á veðurkerfi og hitastig á jörðu, með vaxandi öfgum í veðurfari. Aðgerðir ríkja heimsins í loftslagsmálum miða í raun að því að halda þessari tölu frá Mauna Loa í skefjum og draga skarpt úr sífelldri hækkun hennar. Til þess þarf losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum að minnka all verulega, og það hratt, eins og Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál hefur ítrekað bent á.

Vöxtur á magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu er kyrfilega skrásettur og hæglega má finna yfirlit yfir þær tölur til langs tíma. Vaxandi skilningur er hins vegar að myndast innan fræðasamfélagsins og á meðal stefnumótandi aðila á því, að mun ýtarlegri mælingar þarf að gera á losun gróðurhúsalofttegunda, svo að hanna megi markvissari aðgerðir til þess að draga úr losun þeirra eða binda úr andrúmslofti.

Alþjóðleg vöktun

Nýverið stóð Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) fyrir viðburði í viku sem tileinkuð er samtali vísinda og stjórnsýslu í Genfarborg. Um 100 vísindamenn og erindrekar frá ýmsum alþjóðastofnunum sem aðsetur eiga í Genf komu þar saman og hlýddu m.a. á kynningu á nauðsyn þess að koma upp á allra næstu árum víðtæku neti mælitækja út um allan heim til þess að kortleggja losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda, með mun ýtarlegri hætti en nú er gert. Þetta verkefni hefur verið nefnt, í beinni þýðingu, Alþjóðleg vöktun gróðurhúsalofttegunda eða Global Greenhouse Gas Watch.

Áætlað er að þessi alþjóðlega vöktun muni tengja saman mælitæki á jörðu niðri og mælitæki gervitungla við miðlæg gagnalíkön, í því augnamiði að auka verulega skilning, og yfirsýn yfir hvaða hnattræna þróun er nákvæmlega að eiga sér stað í uppsöfnun gróðuhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Alþjóðaveðurfræðistofnunin leggur upp með að þetta net mælinga verði ekki ósvipað því sem nú þegar er fyrir hendi á heimsvísu til þess að kortleggja veður og spá fyrir veðri. Það net er í raun fyrirmyndin að hinu nýja neti mælinga á losun og bindingu. Hægt verði að sjá á heimsvísu hvar og hvenær, og í hve miklu magni, gróðurhúsalofttegundir losni út í andrúmsloftið og hvar þær bindist.

WMO aflar nú þessi verkefni fylgis, og skilnings, og greinir vaxandi stuðning, meðal annars í kjölfar viðburðarins í Genf og annarra ámóta. Áætlað er að verkefnið verði eitt meginviðfangsefnið á 19.  alþjóðaþingi stofnunarinnar, sem haldið verður nú í lok maí.

Óvissuþættir um losun og bindingu

Þótt grunnstærðir í magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti séu fyrir hendi, eru óvissuþættir um uppsprettur og bindingu þessara lofttegunda enn töluverðir.  WMO bendir á að lítið regluverk sé fyrir hendi þegar kemur að verkefnum sem tengjast kolefnisbindingu og árangur þeirra sé illa kortlagður. Af þessum sökum gæti vaxandi efasemda um að aðferðir til kolefnisbindingar skili raunverulegum árangri. Þetta þurfi að mæla betur.

Í annan stað ríkir óvissa um hvernig hið náttúrulega ferli gróðurhúsaloftegunda um vistkerfi jarðarinnar bregst við auknum útblæstri af mannavöldum og hlýnun andrúmsloftsins. Um þetta vanti ítarlegri upplýsingar. Þá bendir stofnunin líka á að markmið ríkja um að draga úr losun miðist að mjög miklu leyti við áætlanir um útblástur, sem áríðandi sé að styðja ýtarlegri raunmælingum.

Útblástur vegna bruna jarðefnaeldsneytis á heimsvísu er nokkuð vel skrásettur, en um þá tölu er gert ráð fyrir að gildi um 5% óvissumörk, og er það einkum til komið vegna óvissu um útblástur í þróunarríkjum. Um losun vegna landnotkunar ríkir hins vegar mun meiri óvissa, en þar er áætluð um 45% óvissumörk. Um 25% óvissa er svo talin ríkja um bindingu.

Hið nýja net mælinga og vöktunar mun ekki breyta þeirri staðreynd að gróðurhúsalofttegundir safnast upp í andrúmsloftinu á ógnarhraða, og að úr því verður ð draga hið snarasta. Hins vegar munu ýtarlegri og stöðugri mælingar á losun og bindingu — hvar hún á sér stað, hvernig og hvenær — gera mannkyninu betur kleift að taka upplýstar ákvarðanir um hvar helst megi ná árangri í viðureigninni við loftslagsvána.