Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018-2030 – Álit Loftslagsráðs
mars, 2019

Umfjöllunarefni

Eitt af hlutverkum Loftslagsráðs er að rýna aðgerðaáætlanir stjórnvalda með það að markmiði að veita stjórnvöldum aðhald með markvissri ráðgjöf. Ráðið hefur fengið kynningu á heildarhugsuninni að baki Aðgerðaáætlun í loftslagmálum 2018-2030 og skoðað sérstaklega fyrirætlanir varðandi orkuskipti og átak í kolefnisbindingu og bættri landnotkun.

Helstu ábendingar

 • Tímasett og mælanleg markmið ekki til staðar; ekki hægt að meta væntan árangur. Loftslagsráð getur ekki á þessu stigi lagt mat á hversu mikils árangurs megi vænta. Til þess skortir upplýsingar um tímasett og magnbundin markmið um samdrátt í losun og nánari útfærslu þeirra aðgerða sem grípa á til.
 • Áætlunin þarf að hafa skýr markmið og lúta stöðugri endurskoðun. Fylgjast þarf með breytingum í samfélaginu sem geta haft áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda og bregðast við í tíma.
 • Lykiltölur þarf að vakta í rauntíma. Þegar niðurstöðutölur heildarbókhalds Umhverfisstofnunar um kolefnisbúskapinn eru birtar hafa tæp tvö ár liðið frá því að losunin átti sér stað. Það er því brýnt að vakta lykilvísitölur í rauntíma, s.s. nýskráningar bifreiða, fjölda ferðamanna og aðrar breytur svo bregðast megi við væntanlegri aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda tímanlega og fylgjast með hve miklu aðgerðir eru að skila.
 • Samræma þarf árangursmat áætlunarinnar við vinnslu losunarspár landsins. Mikilvægt er að árangursmat fyrir áætlunina verði samræmt vinnslu losunarspár fyrir landið í heild sem Umhverfisstofnun vinnur á grundvelli laga um loftslagsmál. Aðeins með þeim hætti verður mögulegt að átta sig á stöðu Íslands gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum og hvort grípa þurfi til frekari aðgerða til að draga úr losun.
 • Tryggja að ábyrgðarskipting innan stjórnkerfisins sé skýr og allir innviðir til staðar. Kanna þarf hvort núverandi ábyrgðarskipting innan stjórnkerfisins varðandi gagnasöfnun og upplýsingagjöf um kolefnisbúskapinn sé nægjanlega skýr; hvort fullnægjandi mannauður, innviðir eða fjármagn séu til staðar. Ef ekki, er brýnt ráða bót á því án tafar því hér eru miklir hagsmunir í húfi. 
 • Kynna þarf útfærslu alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Mikilvægt er að útfærsla skuldbindinga Íslands gagnvart Parísarsamningnum, sem uppfylltar verða sameiginlega með aðildarríkjum ESB, verði kynnt með skýrum og aðgengilegum hætti í næstu útgáfu aðgerðaáætlunarinnar.
 • Tryggja þarf skýra ábyrgðarskiptingu á aðgerðum og eftirfylgni með áætluninni. Hvernig eftirfylgni verður háttað ræður miklu um árangur. Mikilvægt er að tryggja að ráðuneytin og stofnanir þeirra sýni árangur hið fyrsta í þeim verkefnum sem þau bera ábyrgð á og því eðlilegt að viðhalda því samráði innan stjórnarráðsins sem byggt var upp við undirbúning áætlunarinnar. Einnig er mikilvægt að ríkisstjórnin í heild sinni fari reglulega yfir stöðuna, meti hana og grípi til viðeigandi ráðstafana. 
 • Áætlunin þarf að vera sameign þjóðarinnar og þannig ábyrgð okkar allra. Áætlunin mun aðeins skila þeim árangri sem að er stefnt ef hún verður sameign þjóðarinnar þannig að öll stjórnsýslustig og hagaðilar finni til ábyrgðar og skynji að framlag þeirra sé metið. Eðlilegt er því að fulltrúar sveitarfélaga og hagaðila komi með beinum hætti að eftirfylgni þeirra þátta sem að þeim snúa. Eftirfylgni á framkvæmdastigi er meira krefjandi en undirbúningur aðgerða.
 • Orkuskipti í samgöngum eru mikið framfaramál fyrir þjóðina og því mikilvægt að vel takist til. Samhliða orkuskiptum þarf að leggja áherslu á breyttar, hollar ferðavenjur og tryggja að einn samgöngumáti útiloki ekki annan, t.d. innviðir fyrir almenningssamgöngur, gönguleiðir, hjólaleiðir og rafhjól gleymist ekki þegar byggðir eru upp innviðir fyrir rafbíla.
 • Ráðið telur nokkuð í land að við séum komin í þá stöðu sem lýst er hér að ofan varðandi orkuskiptin þrátt fyrir góðan vilja stjórnvalda til að ryðja úr braut þeim hindrunum sem enn eru til staðar. Þetta þarf hins vegar að gerast hratt því dag hvern eru ákvarðanir teknar sem hafa mótandi áhrif á kolefnisbúskap landsins til framtíðar.
 • Samdráttur í losun frá landi, endurheimt vistkerfa og skógrækt mikilvægar loftslagsaðgerðir. Þjóðarátak í að endurheimta vistkerfi votlendis, skóglendis og annars þurrlendis (vistheimt), draga úr losun frá hnignuðum vistkerfum og að fella gróðurnýtingu betur að náttúru landsins er mikilvægur þáttur loftslagsstefnu en felur einnig í sér ávinning á öðrum mikilvægum sviðum. Það er því mikilvægt að loftslagstengdar aðgerðir á þessi sviði verði unnar á breiðum grunni og í góðu samstarfi við ábyrgðaraðila lands, sveitarfélög, félagasamtök, vísindasamfélagið og almenning. Gagnsæi um ráðstöfun fjár og árangursmat er einkar mikilvægt í þessu samhengi.