Að búa sig undir breyttan heim

Loftslagsráð hefur gefið út umræðuskýrslu um aðlögun að loftslagsbreytingum sem ber yfirskriftina Að búa sig undir breyttan heim – aðlögun vegna loftslagsvár í ljósi stefnumótunar og stjórnarhátta. Í ritinu er fjallað um helstu hugtök og flokka í aðlögunarvinnu að loftslagsbreytingum, um stjórnarhætti aðlögunar og stöðu aðlögunar á Íslandi. Þá er einnig varpað fram hugmyndum um frekari varnir gegn loftslagsvá sem og sagt frá yfirstandandi vinnu og áformum sem byggist að mestu á því sem fram kom á ráðstefnu um aðlögun sem Loftslagsráð stóð fyrir í maí 2019.

Í samantektinnu segir m.a.: “Ísland er eftirbátur annara ríkja í heildrænu skipulagi aðlögunar og á meðal fárra Evrópulanda sem hefur hvorki sett sér stefnu né áætlun í því tilliti. Þó er ljóst að afleiðingar loftslagsbreytinga hér á landi, t.a.m. vegna aukinnar úrkomuákefðar og súrnunar sjávar, fela í sér umtalsverða áhættu fyrir fólk, eignir, innviði og efnahag. Við blasir að auka verði rannsóknir og vöktun á áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi og afleiðingum þeirra fyrir íslenskt samfélag. Jafnframt þarf að auka samhæfingu ólíkra aðila, innan stjórnkerfisins, atvinnulífs, háskólasamfélagsins, annarra stofnana og félagasamtaka. Auk þess er grundvallaratriði að huga að fræðslu og aðgengi að upplýsingum vegna loftslagstengdrar áhættu fyrir ofangreinda aðila sem og almenning.”

 • Flokkarnir í samantektinni eru eftirfarandi:
 • Grunnþekking, rannsóknir og vöktun
 • Þekking, þekkingarmiðlun og fræðsla
 • Aðgangur að gögnum og upplýsingum
 • Mikilvægi nýrrar hugsunar og langtímahugsunar
 • Samfélagslegar breytingar
 • Skýr forysta stjórnvalda
 • Sveitarfélög
 • Samtal og samstarf
 • Áhætta, sviðsmyndir og viðmið
 • Skipulag
 • Innviðir, bygginar og hönnun
 • Atvinnulífið
 • Fiskistofnar
 • Lífríki
 • Matvælastefna
 • Náttúrulegar lausnir
 • Samgöngur
 • Úrgangsmál
 • Veitukerfi
 • Í umfjöllun um næstu skref vegna aðlögunar Íslands að loftslagsbreytingum segir í skýrslunni:

“Yfirferðin hér á undan er ekki tæmandi og endurspeglar til að mynda ekki nákvæmlega einstakar framleiðslugreinar, t.d. landbúnað, fiskveiðar, ferðaþjónustu o.fl., gerjun innan tryggingageirans og nauðsyn þess að kanna sérstaklega lýðheilsumál með tilliti til loftslagsbreytinga. Umfjöllunin gefur hins vegar innsýn í stöðu vinnu sem viðkemur aðlögun að loftslagsbreytingum. Auk þess sýnir hún núverandi ábyrgðarskiptingu á ýmsum sviðum aðlögunarvinnu. 

Þrátt fyrir vel unna vinnu innan ýmissa greina og sviða með tilliti til aðlögunar er ljóst að rík þörf er á að ríkisstjórn marki aðlögunarvinnu á Íslandi, stefnu og ramma fyrir frekari samhæfingu innan málaflokksins. Greina má vilja til góðra verka en hlutverk eru ekki alltaf skýr og embættismenn geta heldur ekki farið af stað án pólitísks vilja. Enn fremur má virkja fleiri aðila vegna aðlögunarvinnu, til að mynda heilbrigðisþjónustuna og hagsmunahópa almennings.” 

Þá er lagt til með hliðsjón af skýrslunni og þess efnis sem hún vísar til að ráðherra sjái til þess í samráði við Loftslagsráð og viðeigandi hagaðila að áframhaldandi vinna verði útfærð í samræmi við eftirfarandi tillögur:

 1. Stjórnvöld skulu vinna eða láta vinna stefnuplagg um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum, þ.e. stefnu, hvítbók, stefnuáætlun eða rammaáætlun til að undirbyggja gerð landsáætlunar um aðlögun og/eða sértækari áætlanagerð fyrir sveitarfélög, svæði, geira og atvinnugreinar.
 2. Stjórnvöld skulu taka saman þær aðgerðir, verkefni og verkferla vegna aðlögunar að loftslagsbreytingum, sem má koma af stað eða styrkja frekar til skemmri tíma án mikillar undirbúningsvinnu. Hafa skal í huga að slíkt yfirlit eða verkáætlun getur gagnast vinnu við tillögu 1 en skyldi fyrst og fremst skoða sem leið til þess að aðlögunarverkefni sem nú þegar eru skipulögð eða þarfnast frekari stuðnings þurfi ekki að bíða eftir því að vinnu við stefnuplagg og áætlanagerð ljúki.

Auk tillagnanna eru settar fram ráðleggingar fyrir áframhaldandi aðlögunarvinnu sem lesa má um í skýslunni.

Höfundur umræðuplaggsins er Magnús Örn Sigurðsson. Ritstjórn skipa Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir, Halldór Þorgeirsson og Hrönn Hrafnsdóttir.